34. vika 2016.

Skólasetning Gerðaskóla í 144. skipti.

Í byrjun vikunnar var Gerðaskóli settur, þar með er skólastarf vetrarins hafið eftir gott sumarleyfi. Fyrsta skólasetning Gerðaskóla var þann 7. október 1872 og var skólinn því settur í 144. skipti að þessu sinni. Í sumar var unnið að viðhaldsverkefnum í húsnæði skólans, auk þess sem aparólu var komið fyrir á skólalóðinni. Bæjarstjórinn býður nemendur og starfsfólk skólans velkomið til starfa og óskar þeim góðs gengis í sínum störfum í vetur.

Nú þegar skólastarfið er hafið í grunnskólanum og leikskólanum er hvatt til aðgátar í umferðinni í nágrenni skólanna. Árvökulir lögreglumenn hafa fylgst með umferðinni við skólana þessa vikuna, við verðum öll að gæta fyllstu varúðar gagnvart börnunum sem eiga leið til og frá skólunum.

Sjónarspil á Garðskaga.

Eftir mitt sumar hefur verið mikil umferð fólks að kvöldlagi á Garðskaga til að njóta sólseturs, enda hefur veðurfarið verið með þeim hætti að fallegt sólsetur hefur verið nánast hvert kvöld. Nú styttist í þann tíma ársins þegar fjölmargir koma á Garðskaga að kvöldlagi til að njóta norðurljósa. Sl. þriðjudagskvöld brá svo við að bæði var ótrúlega fallegt og tilkomumikið sólsetur og nokkrum klukkustundum síðar dönsuðu norðurljós á himni yfir Garðskaga. Sólarhring síðar lagðist þoka yfir Garðskagann og þá lýsti vitaljósið í Garðskagavita inn í þokuna og myndaðist sannkölluð dulúð. Sannarlega tilkomumikið sjónarspil. Myndirnar hér að neðan bera vitni um það.

Sólsetur 23. ágúst 2016 (Mynd: Atli R Hólmbergsson)

Sólsetur 23. ágúst 2016 (Mynd: Atli R Hólmbergsson)

Norðurljós 23. ágúst 2016 (Mynd: Jóhann Ísberg).
Norðurljós 23. ágúst 2016 (Mynd: Jóhann Ísberg).
Vitinn í þokunni. (Mynd: Kjartan G Júlíusson).
Vitinn í þokunni. (Mynd: Kjartan G Júlíusson).

Þjóðhátíð á leikskólanum.

Börnin á leikskólanum Gefnarborg tengjast mörgum mismunandi þjóðernum, þar á meðal er Úkraína. Miðvikudaginn 24. ágúst var þjóðhátíðardagur Úkraínu og þann dag var þjóðfána Úkraínu flaggað við leikskólann. Í góða veðrinu hreyfðist fáninn varla á fánastönginni.

Þjóðfáni Ukraínu við Gefnarborg.
Þjóðfáni Ukraínu við Gefnarborg.

Veðrið.

Veðrið í sumar hefur verið hreint dásamlegt. Sumir halda því fram að þetta sé besta sumar í minni eldri manna. Allur gróður ber þess merki, þar sem t.d. trjágróður hefur dafnað mjög vel. Gott verður hefur verið þessa vikuna og kærkomið að fá smá vætu nú síðustu nótt.

Góða helgi.

 

 

facebooktwittergoogle_plusmail

32. vika 2016.

Sumarverkefnum að ljúka.

Nú verða kaflaskil, verkefnum sumarstarfsfólksins lýkur í dag og skólarnir hefjast. Sumarstarfsfólkið hefur unnið vel í sumar, Garðurinn er snyrtilegur og vel við haldið. Við þökkum þeim fyrir þeirra framlag og vel unnin störf í sumar. Jafnframt er öllum óskað velfarnaðar og góðs gengis í skólanámi vetrarins. Hér að neðan eru nokkrar myndir sem Guðbrandur íþrótta-og æskulýðsfulltrúi tók af starfsfólki bæjarins við sín störf.

Í Bræðraborgargarði
Í Bræðraborgargarði
Blómarósir hlúa að blómabeði
Blómarósir hlúa að blómabeði
Verkfundur í Áhaldahúsi
Verkfundur í Áhaldahúsi
Vinnugleði
Vinnugleði
Margir fætur vinna létt verk
Margir fætur vinna létt verk
Viðhaldsvinna
Viðhaldsvinna
Árni í vélaviðgerðum.
Árni í vélaviðgerðum.
Götumálning
Götumálning

Framkvæmdir við vatnslagnir í Útgarð.

Vegna aukinna umsvifa í Útgarði, m.a. vegna tilkomu nýs hótels þar, hafa HS Veitur ráðist í að leggja nýjar lagnir fyrir heitt og kalt vatn meðfram Skagabraut, frá Sandgerðisvegi og að Norðurljósavegi. Af þessum sökum er nokkuð jarðrask á svæðinu og svo mun væntanlega verða áfram næstu vikur og mánuði. Verktaki er ÍAV og er vonast til að framkvæmdin valdi íbúum á svæðinu ekki óþægindum. Vegfarendur eru vinsamlega beðnir um að gæta varúðar við framkvæmdasvæðið.

Veituframkvæmd við Skagabraut.
Veituframkvæmd við Skagabraut.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði. Þar bar helst til að fjallað var um fundargerðir og minnisblöð stýrihóps fulltrúa sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðisbæjar og Reykjanesbæjar, sem vinnur að tillögum um skipulag, þróun og uppbyggingu á Miðnesheiði. Um er að ræða gríðarlega mikið hagsmunamál til framtíðar og mikilvægt að vel takist til með verkefnið. Góð samstaða er um verkefnið í sveitarfélögunum þremur og það gefur góð fyrirheit um framhaldið.

Veðrið – langþráð væta.

Í sumar hefur verðrið verið einstaklega gott, sannkölluð sumartíð meira og minna allan tímann. Svo var komið í upphafi vikunnar að grasflatir í Garðinum voru að gulna og gróður farinn að skrælna af langvarandi þurrki. Varla hægt að segja að komið hafi dropi úr lofti vikum saman. Á þriðjudagskvöldið breytti um og fór að rigna, með hlýjum sunnanáttum. Næstu daga er útlit fyrir að eitthvað rigni, en birti til með sólskini inn á milli. Eftir smá vætu í nótt, þá skín sólin inn um gluggann hjá bæjarstjóranum í Garði þegar þetta er ritað. Gróðurinn fagnar svona veðurtíð og hefur tekið vel við sér nú í lok vikunnar.

Góða helgi !

 

facebooktwittergoogle_plusmail

31. vika 2016.

Róleg vika.

Eins og venja er til er vikan eftir Verslunarmannahelgi frekar róleg almennt. Margir hafa verið í sumarleyfum og nýta þessa viku til ferðalaga, aðrir eru að koma sér í daglega rútínu eftir sumarleyfin. Nú þegar líður inn í ágúst mánuð fara hjólin að snúast aftur af meiri krafti, stutt er í að skólahald hefjist og almennt verður farið að huga að verkefnum haustsins og næsta vetrar.

Tónlistarsköpun í Garðskagavita.

Eins og fram kom í molum síðustu viku, þá unnu þau Ólafur Arnalds og Nanna Bryndís Hilmarsdóttir tónlistarmenn að tónlistarsköpun og upptökum í Garðskagavita í síðustu viku. Afrakstur þeirra vinnu hefur verið opinberaður á internetinu, mjög flott lag og skemmtilegt myndband. Það er ánægjulegt fyrir okkur í Garði að þessi viðburður hafi átt sér stað á Garðskaga og óskum þeim Ólafi og Nönnu til hamingju með frábært verk. Hér að neðan er hlekkur á tónlistarmyndbandið sem þau unnu í Garðskagavita.

Ólafur Arnalds – Particles ft. Nanna Bryndís Hilmarsdóttir

Byggðasafnið og ferðaþjónusta á Garðskaga.

Byggðasafnið var opnað aftur fyrir nokkru síðan, eftir framkvæmdir í húsinu. Safnið er nú opið daglega milli kl. 13:00 og 17:00. Eins og kunnugt er var opnað lítið kaffihús í gamla vitanum og hefur verið mikil aðsókn að því, enda þykir mörgum sérstök upplifun að koma við í gamla vitanum. Nú mun stutt í að veitingasala hefjist aftur á efri hæð í byggðasafninu og unnið hefur verið að uppsetningu á sýningum í stóra vitanum, sjálfum Garðskagavita.

Unuhús, Sjólyst.

Í ár hefur verið unnið að viðhaldi og endurbótum á Sjólyst. Skipt hefur verið um glugga og nú standa yfir endurbætur á klæðningu hússins. Sjólyst er hús Unu í Garði og hafa Hollvinir Unu annast húsið, sem er í eigu sveitarfélagsins og haldið á lofti minningu Unu. Í húsinu eru munir sem voru þar meðan Una Guðmundsdóttir bjó í Sjólyst, gestir eru velkomnir í heimsókn en Sjólyst er að jafnaði opin gestum um helgar.

Endurbætur á Sjólyst.
Endurbætur á Sjólyst.

Víðir á sigurbraut.

Eftir slæman skell um daginn komu Vðismenn sterkir til baka og unnu góðan sigur á Dalvík í gær. Liðið er í góðri stöðu í öðru sæti 3. deildar og á nú alla möguleika á að vinna sér sæti í 2. deild að ári. Til hamingju Víðismenn, með óskum um áframhaldandi gott gengi.

Veðrið.

Veðrið í sumar hefur verið með ágætum hér í Garðinum. Að undanförnu hefur verið sólskin nánast alla daga og oftast hægviðri eða logn, sannkallað sumarveður. Mikil umferð hefur verið af fólki á Garðskaga undanfarin kvöld, sólarlagið bak við Snæfellsnesið er töfrum líkast og vilja margir upplifa það og njóta. Útlit er fyrir áframhald á veðurblíðunni, a.m.k. næstu dagana.

Regnbogafáninn blaktir.

Regnbogafáninn hefur verið dreginn upp við bæjarskrifstofuna í Garði. Um helgina verða Hinsegin dagar og mun regnbogafáninn blakta fram yfir helgi af því tilefni.

Regnbogafáni við bæjarskrifstofuna.
Regnbogafáni við bæjarskrifstofuna.

 

Góða helgi !

 

facebooktwittergoogle_plusmail

30. vika 2016.

Makrílvertíð á Gerðabryggju.

Eins og kunnugt er hefur bryggjan í Garði verið aflögð sem löndunarbryggja og fiskiskip hafa ekki lagt að bryggjunni í allmörg ár. Engu að síður berst nokkur afli á land við bryggjuna, einkum yfir hásumarið. Skýringin er sú að þegar Makríll gengur inn með ströndinni, þá veiðist gjarnan mikið af Makríl á stöng frá Gerðabryggju. Nú undanfarið hefur orðið vart við Makríll framan við bryggjuna og margir veiðimenn hafa mætt með veiðistangir sínar og kastað fyrir Makríl. Suma daga hefur veiðst vel og því nokkur afli komið á land. Hitt er annað að þessi sjávarafli er utan kvóta, ekki vigtaður og skráður, enda er heimilt að veiða sér afla úr sjó í soðið. Það er því ljóst að víða hefur Makríll verið matreiddur og snæddur að undanförnu og má gera ráð fyrir að svo verði eitthvað áfram. Hafnarstjóri brýnir fyrir makrílveiðimönnum að gæta varúðar á bryggjunni og sýna af sér góða umgengni um hafnarsvæðið, en slæm umgengni hefur því miður fylgt veiðimennskunni á bryggjunni.

Mikill fjöldi ferðamanna í sumar.

Í sumar hafa mjög margir ferðamenn heimsótt Garðinn og liggur leið flestra á Garðskaga. Um er að ræða mikla aukningu frá fyrri árum, enda virðist náttúruperlan Garðskagi toga sífellt fleiri ferðamenn til sín. Ekki liggur fyrir hve margir heimsækja Garðskaga á ársgrundvelli, en það er ljóst að sá fjöldi er umtalsverður. Uppbygging á þjónustu og afþreyingu á Garðskaga er í fullum gangi og miðar að því að veita gestum á Garðskaga sem besta þjónustu, ásamt því að vernda umhverfið sem er einstakt.

Nú nýlega var opnað lítið kaffihús í gamla vitanum á Garðskagatá, hefur það vakið mikla athygli og þangað hafa margir gestir komið nú þegar til að fá sér kaffisopa.

Kaffihúsið Flösin, eða The Old Lighthouse Cafe á Garðskaga.
Kaffihúsið Flösin, eða The Old Lighthouse Cafe á Garðskaga.(mynd: Guðmundur Sigurðsson).

Heimsþekktir tónlistarmenn á Garðskaga.

Sl. þriðjudag voru heimsþekktir tónlistarmenn að störfum á Garðskaga. Það voru þau Ólafur Arnalds og Nanna Bryndís Hilmarsdóttir söngkona í Of Monsters And Men, en Nanna er Garðbúi sem ólst upp hér í Garðinum. Þau sömdu saman lag og unnu að upptökum í Garðskagavita, enda er hljómburður í vitanum einstakur og mikil upplifun að verða vitni að tónlistarflutningi í honum. Þá voru kvikmyndaupptökur á Garðskaga, sem verða notaðar í video með laginu sem þau tóku upp. Leikstjórinn Baldvin Z stjórnaði kvikmyndaupptökunum, Garðbúinn og Edduverðlaunahafinn Kristín Júlla Kristjánsdóttir vann með listafólkinu við upptökurnar. Það verður spennandi að sjá og heyra afrakstur listamannanna frá verunni á Garðskaga, en áætlað er að lagið og videomyndin verði opinberað á netinu í byrjun næstu viku. Allt að gerast í Garðinum.

Myndirnar hér að neðan tók Jóhann Ísberg af þeim Nönnu, Kristínu og Ólafi á Garðskaga, en þar var einstök veðurblíða á þriðjudaginn líkt og oft hefur verið í sumar.

Nanna og Kristín Júlla á Garðskaga
Nanna og Kristín Júlla á Garðskaga
Ólafur Arnalds í Garðskagavita.
Ólafur Arnalds í Garðskagavita.

Miðnesheiði, vinna stýrihóps.

Í upphafi sumars gengu sveitarfélögin Garður, Sandgerðisbær og Reykjanesbær til samstarfs um þróun og skipulag á uppbyggingu atvinnustarfsemi á Miðnesheiði við Keflavíkurflugvöll. Skipaður var stýrihópur fulltrúa sveitarfélaganna sem hefur unnið ötullega að verkefninu í sumar. Unnið er að því að afmarka það landsvæði sem verkefnið á að ná til, ásamt því að framundan eru viðræður stýrihópsins við ríkið og ríkisfyrirtæki á svæðinu með samstarf um verkefnið að leiðarljósi. Um er að ræða mjög mikilvægt mál til lengri framtíðar, þannig að sem best takist til við að þróa og byggja svæðið upp. Samfara mjög auknum umsvifum tengdum sífellt meiri umferð um Keflavíkurflugvöll, hafa mörg fyrirtæki sem starfa að flugtengdri þjónustu og þjónustu við ferðafólk leitað eftir lóðum fyrir sína starfsemi á því svæði sem verkefnið nær til. Það er því mikilvægt að vel takist til við skipulag og uppbyggingu svæðisins til framtíðar og það kallar á gott samstarf sveitarfélaganna, ríkisins og fleiri aðila við verkefnið. Vonandi gengur það eftir, enda miklir hagsmunir í húfi til framtíðar litið.

Skrúðgarðurinn við Bræðraborg.

Skrúðgarðurinn við Bræðraborg var byggður upp og ræktaður í áratugi af Magnúsi Magnússyni frá Bræðraborg. Magnús fæddist árið 1915 og lést árið 1994. Unnur Björk Gísladóttir eiginkona Magnúsar hélt starfi hans við garðinn áfram eftir fráfall hans og árið 2005 afhenti Unnur Björk sveitarfélaginu garðinn í minningu Magnúsar.

Í vor og sumar hefur sumarstarfsfólk sveitarfélagsins unnið mikið og gott verk í Bræðraborgargarði, undir stjórn Einars Friðriks Brynjarssonar tæknifulltrúa hjá Umhverfis-,skipulags-og byggingarsviði og Berglindar Fanney Guðlaugsdóttur verkstjóra vinnuskólans. Bræðraborgargarðurinn er fallegur skrúðgarður í nágrenni Íþróttamiðstöðvarinnar, með miklum og margvíslegum gróðri. Garðurinn sannkallaður sælureitur sem ánægjulegt er að heimsækja.

Myndirnar hér að neðan eru af þeim Einari Friðrik og Berglindi Fanney  í sælureitnum Bræðraborgargarði, í sól og blíðuveðri nú í vikunni.

Einar Friðrik og Berglind í Bræðraborgargarði.

Í Bræðraborgargarði

 

Víðismenn misstigu sig!

Knattspyrnuliði Víðis hefur gengið vel í 3. deildinni í sumar.  Liðið er nú í góðri stöðu í öðru sæti í baráttunni um að vinna sér sæti í 2. deild að ári. Það hefur verið ánægjulegt að horfa á leiki liðsins í sumar, enda liðið vel spilandi og skorar mikið af mörkum. Eins og stundum gerist þá misstíga menn sig á beinu brautinni, nú í vikunni tapaði Víðir illa og var það aðeins annar tapleikur liðsins í sumar. Framundan er síðari hluti mótsins og margir spennandi leikir á næstu vikum. Áfram Víðir !

Verslunarmannahelgi framundan.

Nú er Verslunarmannahelgin að ganga í garð. Að venju verða margir á ferðinni alla helgina og um allt land. Á mörgum stöðum er skipulögð dagskrá sem margir taka þátt í, aðrir ferðast um landið í öðrum tilgangi. Ferðalangar eru hvattir til varúðar í umferðinni þannig að allir komist heilir heim að ferðalagi loknu.

 

Góða helgi !

 

facebooktwittergoogle_plusmail

28. vika 2016.

Molar eru komnir úr sumarleyfi og verður þráðurinn tekinn upp aftur. Mikið hefur verið um að vera í Garði síðustu vikurnar og svo verður áfram.

Sólseturshátíð.

Bæjarhátíð garðmanna, Sólseturshátíðin var síðustu helgina í júní. Dagskrá hátíðarinnar náði yfir heila viku og náði hápunkti laugardaginn 25. júní. Góð þátttaka var í hátíðinni og tókst að vanda vel til við framkvæmd og þátttöku almennt. Garðbúar komu víða fram á ýmsum vettvangi hátíðarinnar, fluttu tónlist, hlupu víðavangshlaup o.m.fl. Svona hátíð er mikilvæg fyrir samfélagið og er öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum þakkað þeirra framlag.

Ungir og efnilegir rokkarar stigu á stokk á Sólseturshátíð.
Ungir og efnilegir rokkarar stigu á stokk á Sólseturshátíð.

Sumarhátíð leikskólans.

Fyrr í sumar var sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar. Að vanda var mikið um dýrðir með alls kyns uppákomum. Sumarhátíðin er alltaf skemmtileg og gaman að fylgjast með leikskólabörnunum sem hafa mikla ánægju af hátíðarhöldunum.

20160607_141701 20160607_141713

Garðskagi.

Unnið hefur verið að ýmsum breytingum á Garðskaga í vor og sumar. Nú hefur lítið kaffihús opnað í gamla vitanum, framkvæmdum í safnhúsi byggðasafnsins er að mestu lokið í bili. Byggðasafnið hefur verið opnað aftur og er nú opið alla daga milli kl. 13:00 og 17:00 og starfsemi veitingahússins á efri hæðinni mun hefjast á næstu dögum.

Vertarnir í kaffihúsinu Flösinni í gamla vitanum.
Vertarnir í kaffihúsinu Flösinni í gamla vitanum.

Hótelbygging.

Í sumar hefur verið unnið að byggingu hótels í Útgarði, það er fyrirtækið GSE ehf. sem stendur fyrir þeim framkvæmdum. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með framkvæmdunum, allt í einu er húsið risið og áður en varir verður starfsemin hafin. Það er alltaf ánægjulegt þegar slíkar framkvæmdir eiga sér stað.

Allar sperrur komnar 5. júlí, fáninn blaktir af því tilefni.
Allar sperrur komnar 5. júlí, fáninn blaktir af því tilefni.

Sumarstörfin.

Mikið hefur verið um að vera hjá sumarstarfsfólki sveitarfélagsins. Byggðarlagið er mjög snyrtilegt, enda standa hendur fram úr ermum hjá okkar dugmikla starfsfólki. Ýmsar framkvæmdir hafa verið í gangi á vegum sveitarfélagsins og svo verður fram eftir árinu.

Hér eru nokkrar myndir af lífsglöðum ungmennum í sumarstörfum hjá sveitarfélaginu í sumar.

20160603_084055

Sumarstarfsfólk.

IMG_0732

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði.  Þar voru að vanda ýmis mál á dagskrá, m.a. fundargerðir nefnda og stjórna. Þar sem bæjarstjórn er í sumarleyfi frá reglulegum fundum, þá hefur bæjarráð umboð til fullnaðarafgreiðslu mála þar til bæjarstjórn tekur aftur upp þráðinn í fundahöldum í byrjun september.

Suðurnesjadagur vinnuskólanna.

Ungmenni í vinnuskólum sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðisbæjar, Voga og Grindavíkurbæjar hittust í Garðinum í gær, fimmtudag. Svona hittingur hefur verið undanfarin ár, þar sem krakkarnir hittast og fara í ýmsa leiki og skemmta sér saman. Þá voru fyrirlestrara um málefni sem brenna á ungmennum.  Alls voru um 160 ungmenni saman komin í Garðinum og tókst þessi samvera þeirra mjög vel. Nokkur ungmenni skelltu sér í sjósund á Garðskaga, það er víst hressandi og gott !

IMG_1149 IMG_1139

Fjölgun íbúa í Garði.

Í molum 22. viku þann 3. júní sl. kom fram að íbúar samkvæmt bráðabirgðatölum þann 1. júní hafi verið 1.443 talsins, en þann 1. desember voru íbúar alls 1.425 samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár. Sl. mánudag þann 11. júlí sýndu bráðabirgðatölur að íbúar eru alls 1.477.  Þar með hefur íbúum fjölgað um 52 frá 1. desember sl., eða um 3,6%. Þetta er ánægjuleg þróun.

Víðir á sigurbraut.

Vel hefur gengið hjá knattspyrnuliði Víðis í sumar. Liðið hefur unnið alla leiki sína utan einn og er í öðru sæti 3. deildar.  Ef þessi velgengni heldur áfram mun Víðir vinna sér sæti í 2. deild að ári og þar með munu liðsmenn færa félaginu það að gjöf á þessu afmælisári félagsins. Þá gekk vel í bikarkeppninni, en Víðir féll úr leik í 16 liða úrslitum. Næsti leikur Víðis verður á morgun, laugardag á Nesfiskvellinum í Garði kl. 16:00.  Áfram Víðir !

Víðismenn hafa oft fagnað vel í sumar.
Víðismenn hafa oft fagnað vel í sumar.

 

Góða helgi !

 

facebooktwittergoogle_plusmail

22. vika 2016.

Skólaslit í dag.

Í dag verða skólaslit í Gerðaskóla. Skólaslit eru jafnan hátíðlegur viðburður og uppskeruhátíð í lok skólaárs. Starfsemi Gerðaskóla hefur gengið vel í vetur. Gerðaskóli er næst elsti grunnskóli landsins, starfsemi skólans hófst með fyrstu skólasetningu þann 7. október 1872. Á liðnu skólaári voru liðlega 200 nemendur við skólann. Ég óska nemendum og starfsfólki skólans til hamingju með þennan áfanga og þakka þeim fyrir liðið skólaár.

Kennimerki Gerðaskóla.
Kennimerki Gerðaskóla.

Sumarstörfin hafin.

Nú hefur sumarstarfsfólk hafið störf og vinnuskólinn farinn af stað. Sláttur grassvæða í fullum gangi og snyrting bæjarins hafin. Það er jafnan mikið líf sem færist í bæjarbraginn þegar sumarstörf sveitarfélagsins hefjast, með kátum og hressum ungmennum sem njóta útiverunnar og taka til hendi eftir skólasetu vetrarins. Sumarstarfsfólkið er boðið velkomið til starfa.

Sláttugengi.
Sláttugengi.

Gróðurvinna í Bræðraborg

Gróðurvinna í Bræðraborg

Afreksfólk í Garði.

Eins og áður hefur komið fram í Molum er margt afreksfólk í Garðinum, á ýmsum sviðum.  Fyrir stuttu var lokahóf hjá Íþróttafélaginu Nes og voru þar veittar viðurkenningar, eins og vera ber við slík tækifæri. Hjá Íþróttafélaginu Nes fara fram æfingar og keppnir í 6 greinum og fara æfingar fram í Reykjanesbæ og Grindavík. Þrír Garðbúar voru útnefndir sem íþróttamenn ársins á lokahófinu, en það eru:  Sigurður Guðmundsson knattspyrnumaður Nes, sem stóð sig vel með íslenska landsliðinu á alþjóðaleikum Special Olympics sl. sumar og tekur þátt í knattspyrnumóti í Litháen nú í júní, með sameiginlegu liði Nes og Ösp.  Jón Reynisson er lyftingamaður Nes, sem lenti í 2. sæti á íslandsmótinu eftir spennandi keppni. Magnús Orri Arnarson er fimleikamaður Nes, en hann varð fyrr í vor íslandsmeistari í fimleikum.

Þetta eru flottir íþróttamenn og eru í hópi afreksfólks í Garði, Garðbúar eru stoltir af þessum frábæru strákum. Innilega til hamingju með þessar viðurkenningar og vonandi gengur þeim sem allra best í komandi keppnum.  Hér að neðan er mynd af verðlaunahöfum á lokahófi Nes, en á hana vantar þá Jón og Magnús sem gátu ekki verið viðstaddir.

Verðlaunahafar á lokahófi Nes 2016.
Verðlaunahafar á lokahófi Nes 2016.

Bæjarstjórnarfundur í vikunni.

Sl. miðvikudag var fundur í bæjarstjórn Garðs. Þetta var síðasti fundur bæjarstjórnar fyrir sumarleyfi, en bæjarstjórn mun næst funda þann 7. september nk. Bæjarstjórn samþykkti að veita bæjarráði heimild til fullnaðarafgreiðslu mála meðan bæjarstjórn er í sumarleyfi og mun bæjarráð funda reglulega í sumar. Fulltrúar í Ungmennaráði Garðs mættu á fund bæjarstjórnar og fóru yfir áherslumál varðandi hagsmuni ungmenna í Garði. Ungmennaráð hefur mætt reglulega á fundi bæjarstjórnar og farið yfir sín áherslumál. Flottir fulltrúar ungmenna í Garðinum.

Á fundinum var fjallað um fundargerðir bæjarráðs, nefnda og stjórna. Þá var á dagskrá umræðuskjal um sameiningu sveitarfélaga, en í skjalinu eru dregnar saman ýmsar upplýsingar um sameiningu sveitarfélaga, þar á meðal ákvæði Sveitarstjórnarlaga um þau mál. Tilefni málsins eru hugmyndir sem uppi hafa verið um könnun á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Bæjarstjórn er einhuga um að framkvæma eigi könnun á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna, en bæjarstjórn mun taka málið til frekari umræðu og afgreiðslu síðar. Loks kaus bæjarstjórn fulltrúa í bæjarráð til eins árs og samþykkti fundaáætlun bæjarráðs og bæjarstjórnar fyrir tímabilið júní – september 2016.

Bæjarstjórn Garðs ásamt bæjarstjóra.
Bæjarstjórn Garðs ásamt bæjarstjóra.

Íbúafjöldi í Garði.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár voru íbúar Garðs 1.443 sl. mánudag. Þann 1. desember 2015 voru alls 1.425 íbúar skráðir í sveitarfélaginu. Þar með hefur íbúum fjölgað um 18 á þessu tæplega hálfa ári. Nýir íbúar eru boðnir velkomnir í Garðinn.

Samstarf sveitarfélaga.

Sveitarfélög eiga með sér samstarf á ýmsum sviðum. Nú hafa bæjarstjórnir Garðs, Sandgerðisbæjar og Reykjanesbæjar ákveðið að eiga formlegt samstarf um skipulag og uppbyggingu svæðisins norður af Flugstöð á Miðnesheiði, en svæðið er innan sveitarfélagamarka þessara sveitarfélaga. Framundan er að afmarka það landsvæði sem verkefnið mun ná yfir og hefja skipulagsvinnu. Hér er um að ræða mikilvægt mál til framtíðar litið, umrætt svæði er í næsta nágrenni við Keflavíkurflugvöll og má vænta þess að í nánustu framtíð verði þetta eitt af mikilvægari uppbyggingarsvæðum á landinu, í tengslum við mjög aukin umsvif í tengslum við flugvöllinn. Samvinna sveitarfélaganna er lykilatriði þess að vel takist til við þetta verkefni til framtíðar litið. Bæjarstjórar sveitarfélaganna þriggja munu undirrita samstarfsyfirlýsingu um verkefnið í dag. Allt að gerast á Suðurnesjum.

Forsetakosningar – atkvæðagreiðsla utan kjörfundar í Garði.

Framundan eru forsetakosningar, mögulega eru einhverjir kjósendur sem verða ekki heima á kjördag og vilja taka þátt í kosningunum með því að kjósa utan kjörstaðar. Sveitarfélagið Garður tekur þátt í tilraunaverkefni í samstarfi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Sýslumannafélags Íslands, sem felst í því að bjóða upp á kosningu utan kjörstaðar á skrifstofu sveitarfélagsins. Þar með geta kjósendur í fyrsta skipti kosið utan kjörstaðar í Garði og þurfa því ekki að mæta á kjörstað hjá sýslumanni í Reykjanesbæ. Kosning utan kjörstaðar á bæjarskrifstofunni fer fram á opnunartíma skrifstofunnar fram að kjördegi þann 25. júní. Það er alltaf ánægjulegt að bjóða upp á aukna þjónustu við íbúa sveitarfélagsins og vonandi nýta sem flestir Garðbúar kosningarétt sinn í þessum kosningum sem öðrum.

Sigurganga Víðis.

Knattspyrnulið Víðis hefur sigrað alla leiki það sem af er leiktíðinni. Eftir sigur á KFR á Nesfiskvellinum um síðustu helgi situr Víðir nú í fyrsta sæti 3. deildar. Leikmenn eru staðráðnir í því að halda áfram á sömu braut, en nk sunnudag mæta Einherjar á Nesfiskvöllinn og etja kappi við Víðismenn. Þetta er svokallaður 6 stiga leikur, þar sem bæði lið sitja á toppi deildarinnar. Molar óska Víði góðs gengis í leiknum.

Helgi Þór Jónsson fagnar öðru marka sinna gegn KFR.
Helgi Þór Jónsson fagnar öðru marka sinna gegn KFR.

Veðrið.

Mánudagurinn heilsaði með sól og blíðu, Garðbúum til mikillar gleði eftir frekar rysjótt veðurfar að undanförnu. Alger viðsnúningur varð á þriðjudag, með sunnan vindi og rigningu. Um miðja vikuna var hægviðri, suðlæg átt með rigningu á köflum. Nú í morgun, föstudag er einmuna veðurblíða, glampandi sólskin og logn. Gott útlit er með veðrið um komandi helgi, ef marka má veðurspár.

Molar í sumarfrí.

Þar sem bæjarstjórinn er að fara í sumarleyfi munu Molar ekki birtast næstu vikur.

Góða helgi og gleðilegt sumar.

facebooktwittergoogle_plusmail

21. vika 2016.

Árlegur fundur bæjar-og sveitarstjóra.

Í lok síðustu viku hittust bæjar-og sveitarstjórar víðs vegar að af landinu á árlegum fundi á Vestfjörðum.  Nánar tiltekið í Ísafjarðarbæ, Súðavík og Bolungarvík. Svona fundir eru mikilvægir, þar sem kollegarnir fara sameiginlega yfir ýmis mál og skiptast á upplýsingum um mál sem varða starfsemi sveitarfélaganna. Þá er ekki síður gefandi að kynnast betur þeim sveitarfélögum sem eru gestgjafar hverju sinni, gestgjafarnir fyrir vestan tóku vel á móti sínum gestum og var dvölin þar ánægjuleg og góð.

Bæjar-og sveitarstjórar í Ísafjarðarkirkju.
Bæjar-og sveitarstjórar í Ísafjarðarkirkju.

Umhverfisvika í Garði.

Í gær, fimmtudag hófst umhverfisvika í Garðinum. Íbúar og atvinnufyrirtæki eru hvött til tiltekta og snyrtingar á umhverfi sínu. Sveitarfélagið veitir móttöku á alls kyns úrgangi sem síðan fer til sorpeyðingarstöðvarinnar Kölku. Að þessu sinni er bryddað upp á þeirri nýjung að sveitarfélagið í samvinnu við Garðyrkjufélag Íslands hélt í gær fræðslufund í Gerðaskóla í tilefni umhverfisvikunnar. Þar fór m.a. fram fræðsla í máli og myndum um umhirðu lóða og garða. Fundurinn var ágætlega sóttur, garðbúar eru áhugasamir um að umhverfi sveitarfélagsins sé snyrtilegt og vel hirt, enda ber bærinn þess merki sem er ánægjulegt. Frekari upplýsingar um umhverfisvikuna í Garði er á heimasíðu sveitarfélagsins svgardur.is.

Nú verða fingur grænir í Garði.
Nú verða fingur grænir í Garði.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði. Á dagskrá var m.a. fundargerð Öldungaráðs Suðurnesja, af fundi ráðsins með alþingismönnum þar sem fjallað var um vöntun á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á Suðurnesjum, sem og um önnur hagsmunamál aldraðra. Bæjarráð samþykkti samstarfsyfirlýsingu sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðisbæjar og Reykjanesbæjar um skipulag, þróun og uppbyggingu atvinnusvæðis norðan flugstöðvar á Miðnesheiði. Framundan er mikið og mikilvægt starf um uppbyggingu þessa svæðis, sem verður líklega eitt mikilvægasta atvinnusvæði landsins. Þá voru samþykktir tveir viðaukar við fjárhagsáætlun ársins, vegna aukinna útgjalda í tengslum við kjarasamninga. Loks má nefna að bæjarráð samþykkti kauptilboð í tvær íbúðir í eigu sveitarfélagsins.

Sigurganga Víðis.

Knattspyrnulið Víðis hefur farið vel af stað nú í upphafi leiktíðar. Liðið hefur unnið báða leiki sína í 3. deild og í vikunni sigraði Víðir lið Sindra frá Hornafirði í 32 liða úrslitum bikarkeppni KSÍ. Það er ekki laust við að gamlir glampar hafi tekið sig upp í augum gamalla Víðismanna við sigurinn í bikarkeppninni, enda á Víðir glæsilegan kafla í sögu bikarkeppninnar. Nú bíða menn spenntir eftir því að dregið verði um mótherja í 16 liða úrslitum. Lið Víðis hefur litið vel út í síðustu leikjum og hefur alla burði til að gera góða hluti í sumar.  Næsti leikur Víðis í 3. deild verður á laugardag, heimaleikur gegn KFR á Nesfiskvellinum í Garði.  Áfram Víðir !

Sigurreifir Víðismenn.
Sigurreifir Víðismenn.

Uppskeruhátíð starfsfólks Íþróttamiðstöðvar.

Starfsfólk Íþróttamiðstöðvar hefur í vetur tekið þátt í fræðslu-og þjálfunarverkefni, sem er sérstaklega hannað fyrir starfsfólk sundlauga og íþróttamannvirkja. Áhersla er á verkferla, öryggismál, samskipti, þjónustu og gæði og í gær hélt starfsfólkið uppskeruhátíð við lok verkefnisins. Það er mikilvægt að starfsfólk íþróttamiðstöðva búi að þeirri þekkingu og þjálfun sem verkefnið stuðlar að, enda hefur starfsfólkið í Íþróttamiðstöðinni í Garði mikinn metnað til að  þessir hlutir allir séu í sem besta lagi. Til hamingju með þetta ágæta starfsfólk.

Heimsókn forsetaframbjóðanda.

Í vikunni leit Guðni Th Jóhannesson forsetaframbjóðandi við á bæjarskrifstofunni. Hann hefur verið á ferð um Suðurnesin síðustu daga og heimsótt vinnustaði. Það er alltaf ánægjulegt að fá frambjóðendur í heimsókn og fá tækifæri til að kynnast þeim og fá þeirra sýn á þau verkefni sem þeir sækjast eftir.

Veðrið.

Eftir norðlægar áttir, með frekar lágu hitastigi, snerist í suðlægar áttir í byrjun vikunnar. Nokkur vindur hefur fylgt, rigning og lágt hitastig. Spár gera ráð fyrir að þannig veður verði fram yfir komandi helgi. Þá verður komið fram í júní mánuð og við hljótum að gera ráð fyrir að við förum að njóta hlýrra veðurfars með tilheyrandi sumarblíðum.

Góða helgi !

facebooktwittergoogle_plusmail

19. vika 2016.

Frábær sýning í Gerðaskóla.

Eins og fram kom í síðustu vikumolum, þá sýndu nemendur elstu bekkja Gerðaskóla söngleikin Hairspray sl. föstudagskvöld. Sýningin og framkoma nemendanna var frábær, gaman að sjá hve börnin eru efnileg og lifðu sig inn í sín hlutverk. Flottir söngvarar og vel útfærð dansatriði, ásamt staðfærðum textum gerðu sýninguna góða. Til hamingju með flott Hairspray nemendur Gerðaskóli.

Vegna fjölda áskorana var ákveðið að halda aukasýningu í kvöld, föstudag. Sýningin hefst kl. 20 í Gerðaskóla, undirritaður hvetur alla þá sem misstu af fyrri sýningunni að fjölmenna og njóta.

Myndirnar hér að neðan tók Guðmundur Sigurðsson af sýningunni Hairspray:

Hairspray3

Hairspray1

Hairspray4

Afmælishátíð Víðis.

Knattspyrnufélagið Víðir er 80 ára um þessar mundir. Sl. laugardag bauð Víðir til afmælishátíðar í íþróttahúsinu og mætti fjölmenni. Magnús Þórisson hjá Rétti og fyrrverandi knattspyrnudómari reiddi fram dýrindis mat, sem fór vel í alla. Á hátíðinn fór mest fyrir „gullaldarliði“ Víðis, flestir leikmenn sem sáu til að Víðir gerði garðinn frægan á 9. áratug síðustu aldar mættu og var mikill fagnaðarfundur meðal þeirra. Þá var „gullaldarlið“ kvenna mætt, en þær fræknu konur skipuðu lið Víðis á sínum tíma, sem gerði líka garðinn frægan. Veittar voru heiðursviðurkenningar og voru félaginu færðar gjafir. Að því loknu var skemmtidagskrá og dansiball fram eftir nóttu. Afmælishátíðin var mjög vel heppnuð, mikil og góð stemmning og greinilegt að víðishjarta slær taktfast í brjóstum margra. Stjórn og afmælisnefnd Víðis fær þakkir fyrir vel skipulagt og heppnað afmælishald, en margt verður um að vera á þessu afmælisári Víðis til að fagna þessum aldursáfanga félagsins. Nú er að bíða og sjá hvernig knattspyrnuliði meistaraflokks gengur í 3. deildinni í sumar, vonandi að þeir færi félaginu stóra afmælisgjöf með því að vinna sér sæti í 2. deild í haust.

Gullý formaður Víðis.
Gullý formaður Víðis.
Gullaldarleikmenn og forráðamenn Víðis.
Gullaldarleikmenn og forráðamenn Víðis.

Vortónleikar Tónlistarskólans.

Í gær, fimmtudag voru fyrri vortónleikar nemenda Tónlistarskólans haldnir í Útskálakirkju, að viðstöddu fjölmenni. Afar ánægjulegt er hve mikið líf er í starfsemi Tónlistarskólans, tónlistarflutningur nemendanna ber þess gott vitni. Síðari vortónleikarnir og skólaslit verða í Gerðaskóla fimmtudaginn 19. maí kl. 17:30. Nemendur tónlistarskólans koma fram við hin ýmsu tækifæri í Garðinum og er áberandi hve mikil „leikgleði“ skín af nemendunum í hvert skipti sem þeir koma fram. Hamingjuóskir til Tónlistarskóla Garðs og nemendanna fyrir frábæra starfsemi og árangur.

Bæjarráð í vikunni.

Fundur var í bæjarráði í gær, fimmtudag. Þar var fjallað um tvö erindi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, um uppbyggingu ferðamannastaða og um fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits. Þá kom fram að sveitarfélagið fær greiddar tæplega 2 milljónir króna í arð frá Lánasjóði sveitarfélaga og þá var lagt fram árshlutauppgjör fyrir fyrstu 3 mánuði ársins, sem er ágætlega í takti við fjárhagsáætlun.

Ársfundur Brunavarna Suðurnesja.

Í vikunni var fyrsti ársfundur Brunavarna Suðurnesja bs, en frá og með 1. janúar 2015 voru brunavarnir reknar í formi byggðasamlags. Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum utan Grindavíkurbæjar standa að byggðasamlaginu. Rekstur og starfsemi þetta fyrsta ár byggðasamlagsins gekk vel og er augljóst að við búum vel að öflugu og góðu slökkviliði, sem er eitt af fáum atvinnumanna slökkviliðum á landinu. Það er mikið öryggi sem felst í því fyrir íbúana og atvinnufyrirtæki á Suðurnesjum.

Samningar sveitarfélaganna fjögurra um stofnun byggðasamlags um Brunavarnir Suðurnesja voru undirritaðir af forsetum bæjarstjórna Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfélagsins Voga og formanni bæjarráðs Reykjanesbæjar í maí 2015. Við það tækifæri var myndin hér að neðan tekin.

Fulltrúar sveitarfélaganna bindast höndum um stofnun BS bs.
Fulltrúar sveitarfélaganna bindast höndum um stofnun BS bs.

Sumarstörfin að hefjast.

Nú styttist óðum í að hefðbundin sumarstörf hefjist hjá sveitarfélaginu. Guðbrandur íþrótta-og æskulýðsfulltrúi er klár með skipulag vinnuskólans og bíður bara eftir að börn og unglingar hefji störf hjá sveitarfélaginu. Mikið framundan í Garðinum í sumar.

Víðir í bikarnum.

Víðir vann góðan 4-1 sigur í bikarkeppni KSÍ í vikunni. Leikurinn fór fram þann 11. maí, sem er hinn formlegi stofndagur Knattspyrnufélagsins Víðis. Af því tilefni bauð félagið upp á afmælistertu í hálfleik og sá Gullý formaður um að skera tertuna. Myndin hér að neðan var tekin af því tilefni.

Gullý sker afmælistertuna.
Gullý sker afmælistertuna.

Mikil umferð á Garðskaga.

Garðskagi heillar marga og laðar að sér. Nú í vor hefur verið mikil umferð á Garðskaga, bæði eru það erlendir ferðamenn á bílaleigubílum og svo Garðbúar og gestir sem sækja Garðskagann heim. Enn er unnið að ýmsum framkvæmdum sem miða að því að auka þjónustu og afþreyingu fyrir þá sem koma á svæðið. Þar eru spennandi hlutir að gerast og von er til þess að áður en langt um líður hefjist starfsemi, til dæmis verður áhugavert að fylgjast með þegar kaffihús opnar í gamla vitanum á Garðskagatá. Því er hér með spáð að það kaffihús muni slá í gegn og að þangað sæki margir til að njóta veitinga, náttúrunnar og töfranna sem þar ríkja. Allt að gerast á Garðskaga.

Veðrið.

Veður var með ágætum um síðustu helgi, þó heldur svalt. Í byrjun vikunnar fór að hlýna, mánudagurinn einkenndist af heiðum himni, sólskini og blíðuveðri. Fram að þessu hefur verið hægviðri og milt, en sólarlítið.

Hvítasunnuhelgi.

Framundan er Hvítasunnuhelgin, sem oft hefur verið fyrsta alvöru ferðahelgin á hverju vori. Margir munu eflaust leggja land undir fót og eru ferðalangar hvattir til að fara varlega í umferðinni.

Molar í fríi í næstu viku.

Í næstu viku taka Molar frí. Bæjarstjórinn mun fara á Vestfirði eftir miðja næstu viku til fundar við aðra bæjar- og sveitarstjóra sveitarfélaga í landinu. Þetta er árlegur fundur, þar sem kollegar bera saman bækur sínar og farið er yfir ýmis sameiginleg mál. Næstu molar munu birtast föstudaginn 20. maí.

Góða helgi !

facebooktwittergoogle_plusmail

Bæjarsjóður Garðs er skuldlaus !

Ársreikningur 2015.

Á fundi bæjarstjórnar Garðs þann 4. maí sl. var ársreikningur fyrir árið 2015 samþykktur eftir síðari umræðu.  Niðurstöður ársreikningsins eru afar ánægjulegar og bera með sér góða fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins.

Það sem ber hvað hæst er að bæjarsjóður í A-hluta efnahagsreiknings skuldar ekki krónu af vaxtaberandi lánum hjá lánastofnunum.  Skuldir B-hluta eru aðeins 61 milljón, en að teknu tilliti til þeirra skulda auk lífeyrisskuldbindinga og leiguskuldbindinga eru skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins alls 519 milljónir. Skuldahlutfall samkvæmt ákvæðum Sveitarstjórnarlaga er aðeins 14,52%, en samkvæmt lögunum má skuldahlutfallið hæst vera 150% miðað við tekjur.

Þá er þeim markmiðum náð að sveitarfélagið stenst nú ákvæði Sveitarstjórnarlaga um rekstrarniðurstöðu, eða svonefnda „jafnvægisreglu“. Hún felur í sér að á hverju þriggja ára tímabili mega gjöld ekki vera umfram tekjur. Bæjarstjórn hefur undanfarin ár unnið að því að ná þessu markmiði, meðal annars með því að láta vinna úttekt á rekstri sveitarfélagsins og fylgja eftir ýmsum tillögum sem fram komu um hagræðingu í rekstri.  Sveitarfélagið hafði gert samkomulag við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um að umrædd jafnvægisregla væri uppfyllt í síðasta lagi í árslok 2017. Niðurstaðan í ársreikningi 2015 hvað þetta varðar er því afar ánægjuleg.

Heildartekjur sveitarfélagsins voru 1.158 milljónir árið 2015 og rekstrarniðurstaða skilaði 36,5 milljónum í afgang. Í fjárhagsáætlun ársins var gert ráð fyrir 18,5 milljóna afgangi.  Veltufé frá rekstri var 154 milljónir, sem er 13,3% af tekjum og handbært fé frá rekstri af alls 114 milljónir. Í sjóðstreymisyfirliti kemur fram að handbært fé jókst um 46 milljónir og var handbært fé í árslok alls 336 milljónir. Veltufjárhlutfall var 2,68, sem er mjög góð staða, þess má geta að oft er miðað við að veltufjárhlutfallið 1 sé viðunandi.

Bæjarstjórn lýsti á fundinum mikilli ánægju með niðurstöður ársreikningsins, enda full ástæða til. Það er hins vegar ljóst að til þess að halda þeirri stöðu sem fjárhagur sveitarfélagsins er kominn í núna verður að halda áfram aðhaldi í rekstri og skynsemi í fjárfestingum. Það er alþekkt að allar tilslakanir í þeim efnum koma fljótt niður á fjárhagnum og því er það krefjandi verkefni fyrir bæjarstjórn og starfsfólk sveitarfélagsins að standa vaktina og halda vel á fjármálum sveitarfélagsins á næstu árum.

Svona árangur kemur ekki af sjálfu sér. Mjög góð samstaða og samstarf hefur verið meðal allra bæjarfulltrúa við áætlanagerð og í allri umfjöllun um fjármál sveitarfélagsins að undanförnu. Það er til fyrirmyndar og á sinn þátt í því að vel gengur. Starfsfólk sveitarfélagsins á ekki síður sinn þátt í þessu og er öllu starfsfólki þakkað fyrir það. Forstöðumenn stofnana hafa unnið vel, af mikilli ábyrgð og festu, enda liggur fyrir í ársreikningnum að rekstur stofnana er mjög vel í takti við fjárhagsáætlun.

Það eru helst ýmsir utanaðkomandi þættir sem hafa afgerandi áhrif á rekstur sveitarfélaga. Þar ber fyrst að nefna kjarasamninga, en það liggur fyrir að nýgerðir kjarasamningar auka mjög launakostnað sveitarfélaga, á móti kemur að tekjur af útsvari aukast einnig. Þá má nefna framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem oft er erfitt að sjá fyrir og sveiflast oft frá ári til árs. Loks má nefna verðbólgustigið í landinu, um þessar mundir og síðustu misseri hefur verðbólga verið með minnsta móti, ekki síst í sögulegu samhengi. Það skapar mjög jákvæðar aðstæður fyrir allan rekstur og ekki síst ef litið er til verðtryggðra lána, það er því gömul saga og ný hve mikilvægt er fyrir alla að verðbólgan haldist í lágmarki.

Bæjarstjórinn er ánægður með ársreikninginn. Ég þakka bæjarstjórn fyrir afar gott og árangursríkt samstarf um fjármál sveitarfélagsins. Ekki síður fá forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins og allir starfsmenn sveitarfélagsins þakkir fyrir vel unnin störf og góðan árangur í þeirra störfum.

 

facebooktwittergoogle_plusmail

18. vika 2016.

Vorhátíð og Hairspray í Gerðaskóla.

Eins og fram hefur komið í mörgum molum vetrarins, þá er gjarnan mikið um að vera í Gerðaskóla. Í gær, fimmtudag var haldin vel heppnuð vorhátíð skólans, fjöldi mætti og naut uppákoma og skemmtunar af ýmsu tagi.  Í kvöld munu nemendur Gerðaskóla sýna söngleikinn Hairspray í Miðgarði og eru Garðbúar og gestir hvattir til að mæta og njóta. Mikið líf og fjör í Gerðaskóla.

Fyrirlestur um kvíða.

Á mánudaginn var boðið til fyrirlestrar í Gerðaskóla, í samstarfi Gerðaskóla og íþrótta-og æskulýðsfulltrúa. Umfjöllunarefni var kvíði og annaðist Steinunn Anna Sigurjónsdóttir sálfræðingur fyrirlesturinn. Um 90 manns mættu og tóku þátt í líflegum umræðum að loknum fyrirlestrinum. Ánægjulegt hve margir mættu, þeim var boðið upp á grillaðar pylsur í fundarhléi.

Fimleikameistari í Garði.

Það er alltaf jafn ánægjulegt þegar bætist í fjölda afreksfólks í Garðinum. Nú um daginn eignuðumst við enn einn meistarann, þegar Magnús Orri Arnarsson varð íslandsmeistari í Special Olympics flokknum í fimleikum.  Magnús æfir fimleika hjá Fimleikadeild Keflavíkur og hefur staðið sig með miklum sóma. Til hamingju með íslandsmeistaratitilinn nafni :)

Magnús Orri með Evu Hrund Gunnarsdóttur þjálfara sínum. (Mynd: Suðurnes.net)
Magnús Orri með Evu Hrund Gunnarsdóttur þjálfara sínum. (Mynd: Suðurnes.net)

Bæjarstjórnarfundur í vikunni.

Á miðvikudag var reglulegur fundur í bæjarstjórn Garðs. Bæjarstjórn samþykkti ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2015 eftir síðari umræðu og lýsti bæjarstjórn ánægju með niðurstöður ársreikningsins. Þá voru á dagskrá fundargerðir nefnda sveitarfélagsins, auk fundargerða af samstarfsvettvangi sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Keppnistímabil knattspyrnumanna hafið.

Nú er leiktíðin gengin í garð hjá Víði. Fyrsti leikur var sl. laugardag, en þá bar Víðir sigurorð af ÍH í bikarkeppni KSÍ, Borgunarbikarnum. Fyrsti leikur Víðis í 3. deild verður mánudaginn 16. maí gegn nágrönnum okkar í Reyni Sandgerði. Góð byrjun hjá Víðismönnum, gefur vonandi góð fyrirheit um framhaldið.

Víðir 80 ára.

Á morgun, laugardag verður haldið upp á stórafmæli Knattspyrnufélagsins Víðis, en félagið er 80 ára. Búist er við fjölmenni í afmælishófið, sem verður mjög glæsilegt og myndarlegt að hætti Víðis. Knattspyrnufélagið Víðir er samfélaginu í Garði mjög mikilvægt, ekki aðeins hvað varðar íþróttirnar heldur hafa félagar í Víði staðið að alls konar samkomum, skemmtunum og uppákomum í Garðinum mörg undanfarin ár. Forystufólk félagsins í nútíð og fortíð fær innilegar þakkir fyrir þeirra framlag til samfélagsins í Garði gegnum tíðina.

Víðir 80 ára.hátíðardagskrá

Vorboðarnir.

Við fáum ár hvert ýmis kennimerki þess að vorið komi og að sumartíðin gangi í garð. Sem dæmi um það má nefna vorkomu Lóunnar og Sumardaginn fyrsta. Nú í byrjun vikunnar hófst tímabil strandveiða smábáta, það má eins vel skilgreina þau tímamót sem vorboða. Hér áður fyrr var það merki um vorkomuna þegar trillukarlarnir byrjuðu að dytta að bátum sínum, skrapa og mála gömlu trétrillurnar og svo setja á flot með mikilli viðhöfn. Nú í vikunni birtist enn einn vorboðinn, en þá sá Ásgeir Hjálmarsson fyrstu kríuna þetta vorið, þar sem hún flaug yfir Kríulandinu og á það vel við. Sumir halda því fram að sumarið komi með kríunni.

Krían yfir Kríulandi !
Krían yfir Kríulandi !

Veðrið.

Þessi vika hófst með ágætu veðri, norðlægri átt og sólskini en ekki miklum hlýindum. Um miðja vikuna og fram að þessu hafa verið nokkuð svalar norðanáttir með vindi, en sólin hefur skinið á köflum. Veðurfræðingar eru farnir að lofa breytingum um og upp úr helginni, með hlýnandi veðri. Vonandi stenst það !

Góða helgi !

 

facebooktwittergoogle_plusmail