42. vika 2016.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Um síðustu helgi var aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Gerðaskóla í Garði. Dagskrá fundarins var efnismikil og um margt mjög áhugaverð. Mikið fór fyrir erindum og umræðu um þróun farþegafjölda á Keflavíkurflugvelli og mál því tengd, m.a. um ferðaþjónustu, íbúaþróun og þær áskoranir sem Suðurnesin í heild sinni standa frammi fyrir. Þá var fjallað um samgönguáætlun og það mikilvæga og aðkallandi mál að byggja upp flutningskerfi raforku út á Reykjanesið. Eftir þennan góða fund stendur að sveitarfélögin, atvinnulífið og ýmsir aðilar verða nú að fara í að móta stefnu um það hvernig samfélagið mætir þeirri þróun sem nú á sér stað og mun verða á næstu árum. Hér er um stórt og mikilvægt verkefni að ræða, áskoranirnar eru til staðar og þær eru til að takast á við. Það eru sannarlega spennandi tímar á Suðurnesjum.

Varnarliðið komið aftur ?

Sl. mánudag hrukku margir við í Garðinum, en þá voru herþotur á æfingaflugi úti fyrir ströndinni. Einnig var varðskipið Þór að lóna stutt frá landi og flugu þoturnar yfir og umhverfis varðskipið. Upp kom sú spurning hvort herinn væri kominn aftur ! Svarið var að tékkneskar herþotur sem sinna loftrýmisgæslu við landið voru við æfingar, en hávaðinn var ærandi svo vart var samtalshæft. Börnin á leikskólanum Gefnarborg voru agndofa yfir þessu og skimuðu út á hafið þar sem varðskipið var á ferð. Eflaust hafa einhverjir Garðbúar hugsað til fyrri tíðar þegar umferð herþota var algeng yfir Suðurnesjum.

Leikskólabörnin horfa til varðskipsins Þórs. (Mynd: Leikskólinn Gefnarborg).
Leikskólabörnin horfa til varðskipsins Þórs. (Mynd: Leikskólinn Gefnarborg).

Framkvæmdir á lóð leikskólans.

Lóð leikskólans var stækkuð verulega á síðasta ári, en af þeim sökum hafa verið dimmir blettir á lóðinni þar sem hefur vantað lýsingu. Nú á dögunum var bætt úr því og hefur verið komið fyrir ljósastaurum sem lýsa upp leiksvæði barnanna. Ungir og upprennandi gröfukarlar á leikskólanum fylgdust með dreymandi svip með verktakanum sem gróf fyrir ljósastaurunum og er ekki ólíklegt að einhverjir hafi ákveðið að vinna á gröfu þegar aldur færist yfir þá. Þessi dásamlega mynd af leikskólabörnum fylgjast hugfangin með gröfuvinnunni birtist á Facebook síðu leikskólans Gefnarborgar.

Gröfuvinna við leikskólann.
Gröfuvinna við leikskólann.

Bæjarstjórnarfundur.

Á miðvikudag var fundur í bæjarstjórn, þar sem m.a. var fjallað um kauptilboð í Garðvang. Bæjarstjórn samþykkti að ganga að tilboðinu og slíkt hið sama hafa hin sveitarfélögin sem eru eigendur hússins gert. Kaupandi er Nesfiskur í Garði, en fyrirtækið mun nýta húsnæðið fyrir sitt starfsfólk. Fundurinn var einnig vinnufundur bæjarstjórnar með starfsfólki bæjarskrifstofu þar sem farið var yfir drög að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Bæjarráð mun halda áfram umfjöllun og vinnu við fjárhagsáætlun, en á næsta fundi bæjarstjórnar verður fjárhagsáætlun til fyrri umræðu. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum á afgreiðslu fjárhagsáætlunar að vera lokið fyrir 15. desember, en bæjarstjórn Garðs mun afgreiða áætlunina í byrjun desember eftir aðra umræðu.

Alþingiskosningar.

Nú styttist óðum í alþingiskosningarnar þann 29. október nk. Kjósendur í Garði, sem geta af einhverjum ástæðum ekki mætt á kjörstað þann dag, eiga kost á því að kjósa utan kjörstaðar á bæjarskrifstofunni á opnunartíma skrifstofunnar. Þetta fyrirkomulag er í samstarfi við sýslumannsembættið og er liður í að auka þjónustu við íbúana.

Veðrið.

Við nutum veðurblíðu fram í miðja vikuna, þegar var hægviðri og hlýtt. Á miðvikudag byrjaði fjörið með miklum vindi og rigningu af suð-austri og hefur það haldið áfram, en veðrið hefur að mestu gengið niður þegar þetta er skrifað á föstudagsmorgni.

Óveður miðvikudaginn 19. okt. 2016 um hádegi.
Óveður miðvikudaginn 19. okt. 2016 um hádegi.

 

Góða helgi !

facebooktwittergoogle_plusmail

41. vika 2016.

Bleikur föstudagur.

Í dag er bleikur föstudagur, í anda átaks Krabbameinsfélagsins gegn krabbameini í þessum mánuði. Vonandi hafa sem flestir styrkt þetta verkefni með því að fjárfesta í bleiku slaufunni. Þetta er lofsvert átak hjá Krabbameinsfélaginu, sem gegnir mikilvægu hlutverki í forvörnum og fræðslu um krabbamein.

Bleika slaufan 2016.
Bleika slaufan 2016.

Bæjarráð.

Fundur var haldinn í bæjarráði í vikunni. Á fundinum voru lögð fram fyrstu drög að rekstraráætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2017, en áætlunin er í vinnslu þessa dagana og verður fyrsta umræða í bæjarstjórn í byrjun nóvember. Af öðrum málum má nefna að fjallað var um erindi frá Sandgerðisbæ, þar sem m.a. kemur fram að bæjarstjórn Sandgerðis hafi samþykkt að skipa í starfshóp sem fái það verkefni að kanna kosti og galla sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar. Bæjarráð Garðs samþykkti að leggja til við bæjarstjórn að Garður skipi sína fulltrúa í starfshópinn. Þess má geta að bæjarstjórn Garðs samþykkti í júní sl. að taka þátt í þessu verkefni en bæjarstjórn Sandgerðis tók málið fyrir og gerði sína samþykkt núna í þessari viku. Þess má vænta að vinna við könnun á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna hefjist nú á næstu vikum. Þegar niðurstaða þessarar vinnu liggur fyrir munu bæjarstjórnir sveitarfélaganna taka ákvarðanir um hvort hafnar verða formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna, samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga þar um og slíkt ferli endar síðan á því að íbúar sveitarfélaganna greiða atkvæði um tillögu um sameiningu sveitarfélaganna.

Kosning utan kjörfundar á bæjarskrifstofu.

Í samstarfi við sýslumannsembættið fer fram kosning til Alþingis utan kjörstaðar á bæjarskrifstofunni í Garði. Sveitarfélagið tók þátt í tilraunaverkefni um utankjörfundar atkvæðagreiðslu með þessum hætti fyrir forsetakosningar sl. sumar, það gekk mjög vel og nýttu nokkrir íbúar í Garði sér þessa þjónustu. Nú er aftur boðið upp á þessa þjónustu fyrir alþingiskosningarnar. Atkvæðagreiðsla fer fram á opnunartíma bæjarskrifstofunnar og annast starfsfólk framkvæmdina. Íbúar Garðs sem þurfa af einhverjum ástæðum að kjósa utan kjörstaðar eru hvattir til þess að nýta sér þessa góðu þjónustu, mæta á bæjarskrifstofuna og nota þar kosningarétt sinn. Almennt eru kjósendur hvattir til að nota sinn kosningarétt og greiða atkvæði í komandi Alþingiskosningum, sem og öllum öðrum kosningum. Það að taka þátt í kosningum er ekki aðeins lýðræðislegur réttur, heldur mikilvægt tæki fyrir hver og einn til að hafa áhrif. Í raun er það lýðræðisleg skylda okkar hvers og eins að nota okkar kosningarétt og taka þátt í kosningum.

„Stóriðja í stöðugum vexti“.

Isavia hélt fund í vikunni þar sem farið var yfir stöðu mála og framtíðarhorfur varðandi farþegafjölda sem fer um Keflavíkurflugvöll. Á fundinum var einnig kynnt skýrsla með yfirskriftinni „Keflavíkurflugvöllur – stóriðja í stöðugum vexti“ þar sem fjallað er um hvaða þýðingu uppbygging Keflavíkurflugvallar hefur til framtiðar. Þar kom m.a. fram að ef hóflegustu spár ganga eftir þá verður Keflavíkurflugvöllur orðinn stærsti vinnustaður landsins eftir nokkur misseri, fjölgun starfsmanna á hverju ári verður sem svarar starfsmannafjölda í einu álveri. Það er ljóst að hér er um mjög stórt mál að ræða, með afar krefjandi verkefnum til úrlausnar. Það liggur fyrir út frá því að sveitarfélögin, ríkið og fjölmargir aðilar þurfa að taka höndum saman, móta stefnu um uppbyggingu innviða og alls kyns starfsemi til framtíðar til þess að mögulegt verði að mæta þeirri þróun sem farið var yfir á fundinum. Suðurnesin eru og verða í brennidepli næstu misseri og ár, þótt svo ekki nema eitthvað af þeim spám sem fjallað var um ganga eftir.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum verður haldinn í Garði nú um helgina. Auk venjulegra aðalfundarstarfa verða áhugaverð erindi flutt, sem munu án efa kalla fram líflegar umræður. Þessi erindi fjalla öll meira og minna um stöðu mála á Suðurnesjum og framtíðarhorfur, m.a. búsetuþróun, samgöngumál, raforkumál og uppbyggingu innviða til að mæta mikilli aukningu ferðamanna á svæðinu. Allt að gerast á Suðurnesjum.

Kvennakvöld Víðis.

Í kvöld, föstudag verður árlegt kvennakvöld Víðis í Samkomuhúsinu. Mikil aðsókn er jafnan að kvennakvöldinu og samkvæmt heimildum Mola er uppselt og því verður fullt hús af konum í Samkomuhúsinu í kvöld. Miklar sögur hafa farið af stemmningunni á kvennakvöldunum undanfarin ár, karlar í Víði sjá um þjónustu við konurnar og fer sögum af því að mikil eftirspurn sé eftir því meðal karlanna að fá að þjóna á kvennakvöldunum. Eins og sést á myndinni hér að neðan, þá er allt tilbúði fyrir kvennakvöldið og að sjálfsögðu er bleiki liturinn alls ráðandi á þessum bleika föstudegi. Frábært framtak hjá Víði og óskum við konunum góðrar skemmtunar í kvöld.

Allt klárt fyrir kvennakvöld Víðis.
Allt klárt fyrir kvennakvöld Víðis.

Ljóðasamkeppni Hollvina Unu í Sjólyst.

Hollvinir Unu í Sjólyst efna til ljóðasamkeppni í annað sinn á Suðurnesjum, undir heitinu Dagstjarnan 2016. Nánari upplýsingar um ljóðasamkeppnina má m.a. finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.  Þetta er ánægjulegt framtak hjá Hollvinum Unu og vonandi að sem flestir taki þátt.

Una í Sjólyst
Una í Sjólyst

Veðrið.

Veðrið þessa vikuna hefur að mestu einkennst af suðlægum áttu, vindi og vætutíð. Óvenju mikið hefur rignt suma dagana, en nú undir lok vikunnar hefur stytt upp. Þegar þetta er skrifað á föstudagsmorgni skín sólin, en eftir leiðindin í veðrinu alla vikuna sér verulega á trjágróðri, sem hefur fellt mikið af laufum. Útlit er fyrir ágætt helgarveður.

Góða helgi !

facebooktwittergoogle_plusmail

40. vika 2016.

Það hefur verið frekar rólegt yfir Garðinum síðustu vikuna, nema hvað haustlægðirnar eru farnar að koma á færibandi. Veðrið hefur verið frekar erfitt, vikan hófst með þrumum, eldingum og hagléli á mánudags morguninn. Í kjölfarið hafa verið hvassar sunnan áttir með rigningu, af og til hefur þó slegið á milli lægða, til dæmis var ágætt veður í gær fimmtudag.

Fjárhagsáætlun.

Nú stendur yfir vinnsla fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og rammaáætlunar fyrir næstu þrjú árin þar á eftir. Við vinnslu fjárhagsáætlunar er gengið út frá ýmsum forsendum og er útkomuspá fyrir þetta ár grunnurinn, en útkomuspá var lögð fyrir bæjarráð í síðustu viku og er ágætt útlit með rekstrarafkomu sveitarfélagsins á þessu ári. Aðrar helstu forsendur felast m.a. í þjóðhagsspá um breytingar á verðlagi næsta árið og í kjarasamningum varðandi launaþróun. Eftir umfjöllun í bæjarráði og vinnufundi bæjarfulltrúa með starfsfólki sveitarfélagsins verður fjárhagsáætlun tilbúin í lok október til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Samkvæmt lögum á bæjarstjórn að ljúka afgreiðslu fjárhagsáætlunar eftir síðari umræðu fyrir 15. desember.

Bæjarstjórnarfundur.

Bæjarstjórn Garðs kom saman til fundar í vikunni. Á dagskrá voru fundargerðir fastanefnda sveitarfélagsins og stjórna sem sveitarfélagið á aðild að með öðrum sveitarfélögum. Góð samstaða og vinnuandi er í bæjarstjórninni, sem er ein forsenda þess að vel gangi við stjórnun og rekstur sveitarfélagsins.

Haustið er annatími hjá sveitarstjórnarfólki.

Fyrir sveitarstjórnarfólk er haustið annatími á margan hátt. Þunginn í daglegu starfi þessar vikurnar felst í vinnslu fjárhagsáætlunar og stefnumótunar, en á þessum árstíma er einnig óvenju mikið um alls kyns fundi og ráðstefnur. Þar má m.a. nefna fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem var undir lok september, aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum verður í Garðinum eftir viku, ásamt því að sveitarstjórnarmenn þurfa að mæta á margvíslega fundi þar sem farið er yfir mikilvæg málefni sveitarfélaga sem snerta bæði nútíð og ekki síður framtíðina. Sem dæmi um fundi sveitarstjórnarmanna í þessari viku má nefna fund með stjórnendum Landsnets sl. mánudag þar sem farið var yfir ástand og nauðsynlega uppbyggingu flutningskerfis raforku, sem varðar fyrst og fremst orkuöryggi íbúa og atvinnulífs á Suðurnesjum en þar eru ákveðnar blikur á lofti. Í gær, fimmtudag var fundur með verkefnisstjórn um nýja byggðaáætlun sem er í vinnslu. Á morgun, laugardag verður svo aðalfundur Öldungaráðs Suðurnesja.

Knattspyrnan.

Ævintýri karlalandsliðsins í knattspyrnu heldur áfram og þeir halda þjóðinni við efnið. Frábær sigur í gærkvöldi á Finnlandi, dramatíkin undir lok leiksins sýnir og sannar að það eðli okkar íslendinga að gefast aldrei upp þótt móti blási skilar árangri. Framganga íslenska liðsins var til fyrirmyndar, þótt svo að knattspyrnulega séð hafi þetta ekki verið besti leikur liðsins. En, það að klára leiki á þennan hátt er ákveðinn gæðastimpill og sýnir hvað rétt hugarfar með sigurvilja skiptir miklu máli.  Næsti leikur liðsins verður á sunnudag gegn Tyrkjum, velgengni íslenska liðsins undanfarin misseri gerir mann heldur frekan til fjárins og því er ekkert annað en sigur í leiknum sem kemur til greina.  Ekki má gleyma að minnast á frábæran árangur kvennalandsliðsins, sem fyrir stuttu tryggði sér enn og aftur þátttökurétt í lokakeppni evrópumótsins á næsta ári. Stelpurnar hafa svo sannarlega staðið sig vel og í samanburði er árangur þeirra ekki síðri en hjá karlaliðinu.  Loks er það U21 landsliðið, sem heldur áfram með sinn góða árangur sem leggur ákveðinn grunn að áframhaldandi góðu gengi A-landsliðs Íslands á næstu árum.  Frábær árangur hjá íslensku knattspyrnufólki !

Góða helgi !

 

facebooktwittergoogle_plusmail

39.vika 2016.

Molar voru í fríi í síðustu viku vegna anna bæjarstjórans við að sitja fundi og ráðstefnu í Reykjavík síðari hluta vikunnar. Fjármálaráðstefna sveitarfélaga stóð yfir sl. fimmtudag og föstudag, að vanda kom þar margt athyglisvert fram og farið var yfir mikilvægar upplýsingar og forsendur vegna fjárhagsáætlunar næsta árs og varðandi fjármál sveitarfélaga almennt.

Garður í Útsvari Sjónvarpsins.

Garður tók nú í fyrsta skipti þátt í Útsvari Sjónvarpsins. Þau Elín Björk, Guðjón Árni og Magnús skipuðu lið Garðs, sem mætti liði Árneshrepps sl. föstudag. Skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir frábæra frammistöðu þurfti lið Garðs að lúta í lægra haldi fyrir góðu liði Árneshrepps. Það er ekki einfalt mál að etja kappi við Strandamenn, enda eru þeir sem kunnugt er ramm-göldróttir ! Við þökkum okkar liði fyrir góða frammistöðu og óskum Árneshreppi til hamingju með sigurinn, vonandi gengur þeim vel í næstu umferð.

Lið Garðs í miðjum þætti Útsvars.
Lið Garðs í miðjum þætti Útsvars.
Að keppni lokinni.
Að keppni lokinni.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja 40 ára.

Sl. laugardag var afmælishátíð í tilefni 40 ára afmæli Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Fjölmenni sótti hátíðina, sem var í senn hátíðleg og með léttu og skemmtilegu yfirbragði. Bæjarstjórinn í Garði afhenti skólanum til sýnis listaverkið Breath (öndun) eftir japanska listamanninn OZ-Keisuke Yamaguchi, en verkið er afrakstur listahátíðarinnar Ferskra vinda. Verkið er stórt í sniðum og ekki var auðvelt að finna því stað til sýnis, en samkomulag varð um að Listasafn Reykjanesbæjar tæki við verkinu til eignar og umsjár og því verði komið fyrir til sýnis í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Skólameistari skólans tók við verkinu og hefur því verið komið vel fyrir í skólanum. Til hamingju með þennan áfanga nemendur og starfsfólk skólans, fyrr og nú.

Skólameistari tekur við Breath til sýnis í Fjölbraut.
Skólameistari tekur við Breath til sýnis í Fjölbraut.
Verkið Breath í Fjölbraut.
Verkið Breath í Fjölbraut.
Breath frá öðru sjónarhorni í Fjölbraut.
Breath frá öðru sjónarhorni í Fjölbraut.

Bæjarráð.

Í gær, fimmtudag var fundur í bæjarráði Garðs. Samþykktir voru viðaukar við fjárhagsáætlun þessa árs auk þess sem lögð var fram útkomuspá um rekstur ársins. Útlit er fyrir að niðurstaða rekstrar ársins verði mjög í takti við fjárhagsáætlun. Bæjarráð fjallaði um helstu forsendur fyrir fjárhagsáætlun ársins 2017 og verður unnið út frá þeim í áætlanagerðinni. Ákveðið var að kjósendur geti kosið til Alþingis utan kjörstaðar á bæjarskrifstofunni, verður sú framkvæmd í samstarfi við sýslumannsembættið og auglýst sérstaklega. Þá skipaði bæjarráð bæjarstjórann sem fulltrúa sinn í verkefnishóp varðandi hraðlest frá Keflavíkurflugvelli, einnig ákvað bæjarráð að hefja framkvæmdir við salernis-og hreinlætisaðstöðu á Garðskaga, en Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur veitt styrk vegna þess verkefnis. Loks var fjallað um fundargerðir stýrihóps vegna atvinnu-og þróunarsvæðis á Miðnesheiði og fundargerð stjórnar Öldungaráðs Suðurnesja.

Norðurljósin.

Nú er norðurljósatíminn kominn, mikill fjöldi ferðamanna kemur til landsins til þess að upplifa norðurljósin. Mikil umfjöllun um þetta náttúrufyrirbrigði virðist hafa aukið áhuga landans á því að njóta norðurljósanna, það má m.a. sjá á Facebook þar sem fólk keppist um að setja inn myndir af norðurljósum. Eins og alltaf er, þá hafa norðurljósin verið mjög sýnileg og haldið uppi mikilli danssýningu á himni yfir Garðskaga undanfarin kvöld. Mikill fjöldi fólks hefur komið á Garðskaga til þess að njóta, enda er staðurinn einn sá allra besti á landinu til að njóta norðurljósa. Nú í vikunni kepptust nokkur sveitarfélög um að tilkynna orkusparnað með því að slökkva á götulýsingu til þess að minnka ljósmengun vegna norðurljósa. Á Garðskaga eru útiljós jafnan slökkt þegar norðurljósin eru sýnileg, aðeins vitaljósið í Garðskagavita fær að lifa. Töfrar náttúrunnar á Garðskaga eru miklir og fjölbreytilegir. Hér að neðan eru nokkrar myndir af norðurljósunum á Garðskaga í vikunni.

Norðurljós og gamli viti 27. september 2016.
Norðurljós og gamli viti 27. september 2016. (Mynd Jóhann Ísberg)
Norðurljós og Garðskagaviti 27. september 2016.
Norðurljós og Garðskagaviti 27. september 2016. (Mynd Jóhann Ísberg)
Norðurljós og gamli viti 28. september 2016. (Mynd Hilmar Bragi Bárðarson)
Norðurljós og gamli viti 28. september 2016. (Mynd Hilmar Bragi Bárðarson)
Norðurljós á Garðskaga 28. september 2016 (Mynd Hilmar Bragi Bárðarson)
Norðurljós á Garðskaga 28. september 2016 (Mynd Hilmar Bragi Bárðarson)

Bleikur október.

Október mánuður rennur upp á morgun, laugardag. Eins og allir ættu að vita þá er október bleikur mánuður, m.a. til að minna okkur á baráttu gegn krabbameinum hjá konum. Undanfarin ár hefur bleiki liturinn verið áberandi í október hér í Garði, m.a. með því að byggingar sveitarfélagsins eru lýstar með bleikum lit. Svo mun einnig verða nú í október. Krabbameinsfélagið vinnur gott og mikilvægt starf í baráttunni gegn krabbameini, félagið stendur fyrir sölu á bleiku slaufunni til fjáröflunar sinnar starfsemi og eru allir hvattir til þess að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn krabbameinum, m.a. með því að kaupa bleiku slaufuna.

Veðrið.

Veðrið þessa vikuna hefur verið mjög gott. Flesta daga hefur verið logn og sólskin, en finna má á hitastigi að haustið er komið. Flest kvöld vikunnar hefur verið heiðskírt, með tindrandi stjörnum og dansandi norðurljósum. Þegar þetta er skrifað að morgni föstudags er logn og skínandi sól, en í morgun þurfti í fyrsta skipti þetta haustið að skafa ísskæni af framrúðu bílsins!

Góða helgi !

facebooktwittergoogle_plusmail

37. vika 2016.

Haustið gerir vart við sig !

Veðrið þessa vikuna hefur verið frekar rysjótt og greinilegt á öllu að haustið sígur að. Flesta daga hafa verið sunnan áttir með rigningu af og til. Hins vegar var dásamlegt verður seinni part þriðjudags og fram í nóttina. Logn og sólskin, sólsetrið skartaði sínu fegursta á Garðskaga það kvöld og nokkur fjöldi fólks naut þess að upplifa töfra náttúrunnar.

Bæjarráð.

Bæjarráð fundaði í vikunni. Þar var m.a. fjallað um þjónustu við fatlað fólk á Suðurnesjum og varð umræða um þjónustuna til framtíðar. Bæjarstjóra var falið að sækja um byggðakvóta og farið var yfir nokkur mál í undirbúningi vinnslu fjárhagsáætlunar næsta árs. Þá má nefna að skipaður var starfshópur til samstarfs við Knattspyrnufélagið Víðir um stefnumótun og framtíðarskipulag íþróttasvæðis. Bæjarstjórn samþykkti sérstaka tillögu þess efnis í maí, í tilfeni 80 ár afmælis Víðis. Loks voru Alþingiskosningar til umfjöllunar, en eins og venja er til þurfa sveitarfélögin að annast framkvæmd kosninga. Jafnan margvísleg mál til umfjöllunar hjá bæjarráði.

Víðir fékk verðlaunin.

Síðasti heimaleikur Víðis á þessari leiktíð var sl. laugardag, þar sem Víðir vann góðan 3-1 sigur á Kára frá Akranesi. Að leik loknum fengu leikmenn og þeir sem standa að liðinu afhent verðlaun fyrir að hafna í öðru sæti 3. deildar. Með þessum frábæra árangri hefur Víðir unnið sér sæti í 2. deild á næsta ári. Til hamingju Víðismenn; leikmenn, þjálfarar og ekki síst allt það fólk sem stendur að starfi Knattspyrnufélagsins Víðis og leggur af mörkum mikla sjálfboðavinnu í þágu félagsins og samfélagsins í Garði. Á morgun, laugardag verður síðasti leikur Víðis á keppnistímabilinu og veglegt lokahóf annað kvöld í samkomuhúsinu, nokkuð víst að þar verður mikil og góð stemmning. Það er alltaf ánægjulegt að uppskera vel eftir mikla vinnu.

Silfurdrengir Víðis 2016.
Silfurdrengir Víðis 2016.

Samstarf við mótorhjólafólk.

Fulltrúar sveitarfélagsins og lögreglu hafa að undanförnu átt góð samskipti við ungmenni sem stunda mótorkross og foreldra þeirra. Í sumar brá við að slík hjól væru á ferð í bænum og var undan því kvartað. Samskiptin að undanförnu hafa gengið út á að finna leið til að ungmennin geti stundað sína iðju á þar til gerðu svæði og hefur það gengið vel. Von er til að úr þeim málum leysist fljótlega. Þetta er gott dæmi um það hvernig samtal og góð samskipti leiða til lausna á málum.

Garður í Útsvari.

Nú liggur fyrir að föstudaginn 23. september mun lið Garðs etja kappi í Útsvari í Sjónvarpinu. Það verður spennandi að fylgjast með þeim Magnúsi, Elínu Björk og Guðjóni Árna glíma við spurningarnar og verðuga andstæðinga, sem verður lið Árneshrepps. Áfram Garður !

Starfsfólk bæjarskrifstofa hittist í Garði.

Eins og fram kom í síðustu Molum, þá hittist starfsfólk bæjarskrifstofa fjögurra sveitarfélaga á Suðurnesjum í Garði sl. föstudag. Fjallað var um ýmis sameiginleg mál og var hópurinn hristur saman, enda mikilvægt að kollegar þekkist og geti átt góð samskipti um sameiginleg mál. Dagskrá dagsins var fjölbreytt. Hópurinn heimsótti Nesfisk, sem er myndarlegt og vel rekið sjávarútvegsfyrirtæki í Garðinum, þar var vel tekið á móti hópnum með kynningu á starfsemi fyrirtækisins.  Þá má nefna að farið var í ýmsar þrautir og leiki í íþróttamiðstöðinni og hópurinn átti saman góða stundi í veitingahúsinu á Garðskaga. Dagurinn var vel heppnaður, skemmtilegur og árangursríkur.

Haltur leiðir blindan, þrautakeppni í þreksalnum.
Haltur leiðir blindan, þrautakeppni í þreksalnum.
Spilandi og syngjandi bæjarstjórar.
Spilandi og syngjandi bæjarstjórar.

Haustið er tími alls kyns fundahalda.

Nú er komið að þeim tíma ársins þegar alls kyns fundir og ráðstefnur taka drjúgan tíma hjá bæjarstjórum. Í þessari viku hefur bæjarstjórinn í Garði setið fundi um þróun og framtíðar skipulag á Miðnesheiði, um markaðssetningu og stefnu í ferðaþjónustu, aðalfund Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi og í gær, fimmtudag var fundur í bæjarráði auk fundar með fjármálaráðherra um framtíðaruppbyggingu á Miðnesheiði. Í dag er aðalfundur Reykjanes Jarðvangs (Reykjanes Geopark) og síðan verður sameiginlegur starfsmannadagur starfsfólks sveitarfélagsins fram eftir degi.  Í næstu viku ber hæst fjármálaráðstefna sveitarfélaga, ásamt fleiri fundum á vettvangi sveitarstjórnarfólks. Loks mun bæjarstjórinn mæta í sjónvarpssal föstudagskvöldið 23. september og hvetja lið Garðs, sem mun keppa í Útsvari.  Vegna allra þessara anna verða Molar í fríi í næstu viku.

Góða helgi.

facebooktwittergoogle_plusmail

36. vika 2016.

Leikskólinn Gefnarborg er til fyrirmyndar.

Eins og á við um samfélagið í Garði, þá ber leikskólinn Gefnarborg sterkan keim af fjölmenningu. Af 84 börnum í leikskólanum eiga 19 þeirra tvö eða fleiri móðurmál. Í góðri grein í Víkurfréttum þann 7. september sl., fjallar Ingibjörg Jónsdóttir leikskólastjóri um að leikskólinn hefur unnið með margbreytileika samfélagsins og að hann fái notið sín sem best.  Í grein Ingibjargar kemur m.a. fram að á komandi skólaári ætli starfsfólk leikskólans Gefnarborgar að halda áfram og auka enn meira við það góða starf sem unnið er. „Markmiðið er að efla fjölmenningarlegan skólabrag og móta stefnu um fjölmenningu innan leikskólans. Einnig að gera fjölmenninguna enn sýnilegri og gera öll börn, starfsfólk og aðstandendur enn betur meðvituð um mikilvægi þess að virða og hlusta á raddir ólíkra menningarheima, vinna gegn fordómum og auka víðsýni. Við starfsfólkið á Gefnarborg vonum að þessi markmið eigi eftir að skila sér áfram til alls samfélagsins“ segir Ingibjörg leikskólastjóri í greininni í Víkurfréttum.

Frábært starf hjá leikskólanum Gefnarborg og til fyrirmyndar. Leikskólinn er einkarekinn, með þjónustusamningi við sveitarfélagið og hefur Hafrún Víglundsdóttir haft rekstur leikskólans með höndum í mörg ár. Til hamingju með gott starf á Gefnarborg.

Leikskólabörn í garðinum Bræðraborg.
Leikskólabörn í garðinum Bræðraborg.

Bæjarstjórn.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn Garðs. Bæjarstjórnin hefur ekki fundað síðan í júní og hefur bæjarráð haft heimild frá bæjarstjórn til fullnaðarafgreiðslu mála í millitíðinni. Á dagskrá bæjarstjórnar voru ýmsar fundargerðir nefnda og fundarboð á aðalfundi nokkurra félaga sem sveitarfélagið á aðild að. Bæjarstjórn samþykkti ályktun um samgöngumál, þar sem Alþingi og samgönguyfirvöld eru hvött til að setja í forgang tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fitjum í Reykjanesbæ að Rósaselstorgi í Garði. Loks samþykkti bæjarstjórn samstarfssamning við þróunarfélag um hraðlest frá Keflavíkurflugvelli og loks var samþykkt fundaáætlun bæjarstjórnar og bæjarráðs til júní 2017.

Góður andi er í bæjarstjórninni og má segja að bæjarstjórnin komi vel undan sumri, enda hefur veðurblíða verið með eindæmum í sumar.

Félagsmiðstöðin hefur starfsemi.

Starfsemi Félagsmiðstöðvarinnar Eldingar hefst mánudaginn 12. september. Öflugt og fjölbreytileg starfsemi verður í félagsmiðstöðinni í vetur, að vanda. Starfsmenn hafa verið ráðnir og skipulag starfsins liggur fyrir. Spennandi vetur framundan í félagsmiðstöðinni.

Nemendaráð Gerðaskóla.

Nýverið kusu nemendur Gerðaskóla fulltrúa í Nemendaráð skólans. Það er jafnan nokkur spenna kringum þessa kosningu, sem sýnir áhuga nemendanna á starfinu. Hér að neðan er mynd af nýkjörnu Nemendaráði Gerðaskóla, sem Guðbrandur íþrótta-og æskulýðsfulltrúi tók í skólanum.

Nemendaráð Gerðaskóla.
Nemendaráð Gerðaskóla.

Heimsókn starfsfólks bæjarskrifstofa í Garðinn.

Sú hefð hefur verið mörg undanfarin ár að starfsfólk á bæjarskrifstofum Garðs, Sandgerðisbæjar, Grindavíkurbæjar og Voga hefur komið saman einu sinni á ári til skrafs og ráðagerða. Að þessu sinni er starfsfólk bæjarskrifstofunnar í Garði gestgjafar. Í dag, föstudag koma þessir góðu gestir og kollegar í heimsókn til okkar í Garðinn.  Það er alltaf ánægjulegt að fá góða gesti í heimsókn, ekki síst kollega og nágranna. Við lærum alltaf hvert af öðru þegar hist er og eflum kynnin.

Góða helgi.

facebooktwittergoogle_plusmail

35. vika 2016.

Víðir upp um deild.

Í gær, fimmtudag var stórleikur á Nesfiskvellinum. Þar áttust við lið Víðis og Þróttar í Vogum, sannkallaður nágrannaslagur. Víðir gat tryggt sér sæti í 2. deild að ári með því að fá a.m.k. eitt stig út úr leiknum. Svo fór að Víðir sigraði leikinn 3-1 og þar með liggur fyrir að Víðir fer upp um deild og leikur í 2. deild á næsta ári. Mikill fögnuður var í leikslok, enda mikilvægum áfanga náð og þar með megin markmiði liðsins í sumar. Með þessum úrslitum fær Knattspyrnufélagið Víðir góða afmælisgjöf frá leikmönnum, þjálfurum og öllum þeim sem standa að liðinu,en félagið á 80 ára afmæli í ár. Hér að neðan er mynd af sigurglöðum leikmönnum Víðis í klefanum eftir leik og mynd af leikmönnum, þjálfurum og stjórnarfólki.

Til hamingju með frábæran árangur Víðismenn !

Sigurreifir Víðismenn í leikslok.
Sigurreifir Víðismenn í leikslok.
Víðir 2016
Víðir 2016

Bæjarstjórar á knattspyrnuleik.

Þar sem lið Víðis og Þróttar í Vogum áttust við í Garðinum í gær, var við hæfi að bæjarstjórar sveitarfélaganna fylgdust saman með leiknum. Í hálfleik var staðan 1-1 og allt lék í lyndi, þá var við hæfi að Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum tæki sjálfu-mynd af okkur kollegunum. Vogamenn samglöddust Víðismönnum að leik loknum, enda góðum áfanga náð hjá Víði.

Bæjarstjórar á knattspyrnuleik Víðis og Þróttar.
Bæjarstjórar á knattspyrnuleik Víðis og Þróttar.

Aparólan vígð.

Sl. mánudag var stórviðburður á lóð Gerðaskóla, en þá fór fram vígsla á aparólunni sem var sett upp á skólalóðinni í sumar. Nemendur og starfsfólk skólans fjölmenntu út á svæðið í góða veðrinu og tóku þátt í hátíðarhöldunum. Ungmennaráð Garðs beitti sér fyrir því gagnvart bæjarstjórn að aparóla væri sett upp á skólalóðinni og nú hefur barátta þeirra skilað árangri. Það var því við hæfi að Halldór Gísli Ólafsson formaður Ungmennaráðs færi fyrstu ferðina, það gerði hann við mikil fagnaðarlæti viðstaddra. Myndirnar að neðan voru teknar við þetta tækifæri.

Fyrsta ferðin í aparólunni.
Fyrsta ferðin í aparólunni.
Fjöldi nemenda og stemmning við vígslu rólunnar.
Fjöldi nemenda og stemmning við vígslu rólunnar.

Fjölgun íbúa, vantar einn upp á 1.500 !

Allt frá því í vor hefur íbúum Sveitarfélagsins Garðs fjölgað jafnt og þétt. Í Molum 28. viku þann 15. júlí sl. kom fram að íbúar væru 1.477 talsins, samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár. Þá hafði íbúum fjölgað um 52 frá 1. desember 2015, þegar skráðir íbúar í sveitarfélaginu voru 1.425 talsins. Samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár sl. mánudag, þann 29. ágúst voru íbúar sveitarfélagsins 1.499 talsins. Þar með hefur íbúum fjölgað um 74 frá 1. desember sl., eða um 5,2%. Miðað við þróunina má búast við að í næstu viku verði íbúafjöldi sveitarfélagsins orðinn 1.500.

Garður í Útsvari.

Sveitarfélagið Garður mun tefla fram hörku liði í Útsvari Sjónvarpsins í vetur. Þetta verður í fyrsta skipti sem sveitarfélagið tekur þátt í Útsvari og verður spennandi að fylgjast með liði okkar. Búið er að velja í liðið og munu eftirtalin skipa lið Garðs: Magnús Guðmundsson kennari og fyrrverandi skipstjóri, Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur og Guðjón Árni Antoníusson íþróttafræðingur og knattspyrnukappi. Við óskum þeim góðs gengis og stöndum þétt við bakið á okkar liði.

Umferðartalning á Garðskaga.

Umferð ferðafólks hefur aukist mikið á Suðurnesjum að undanförnu. Það sama á við um Garðskaga. Erfitt hefur reynst að nálgast upplýsingar um fjölda þeirra sem koma á Garðskaga, en nú er hafin markviss talning og því verður auðveldara að fá þessar upplýsingar. Talning hófst á Garðskaga í byrjun júní og hefur komið í ljós að um 40.000 manns komu á svæðið hvorn mánuðinn júní og júlí í sumar, eða um 80.000 manns þessa tvo mánuði. Fróðlegt verður að fylgjast með talningu komandi mánuði og misseri, samkvæmt lauslegri ágiskun má ætla að hátt í 200.000 manns komi nú á Garðskaga á ársgrundvelli.

Samstarfssamningur vegna hraðlestar.

Í gær, fimmtudag undirrituðu bæjarstjórar sveitarfélaganna Sandgerðisbæjar, Garðs, Reykjanesbæjar og Voga, ásamt fulltrúum Þróunarfélags um hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins samstarfssamning. Samningurinn felur í sér samstarf aðila um skipulagsmál og greiningu á samfélagslegum áhrifum á Suðurnesjum.

Veðrið.

Nú í upphafi september mánuðar er ljóst að haustið er að síga að. Ágætt veður hefur verið þessa vikuna, aðeins skipst á skin og skúrir en ágætt hitastig. Þegar þetta er skrifað á föstudags morgni er hægviðri, heiður himinn og skínandi sól. Útsýnið frá skrifstofu bæjarstjórans, yfir Faxaflóann þar sem blasir við fjallahringurinn alla leið að Snæfellsjökli, er eins og best verður á fallegum degi.

Góða helgi !

 

facebooktwittergoogle_plusmail

34. vika 2016.

Skólasetning Gerðaskóla í 144. skipti.

Í byrjun vikunnar var Gerðaskóli settur, þar með er skólastarf vetrarins hafið eftir gott sumarleyfi. Fyrsta skólasetning Gerðaskóla var þann 7. október 1872 og var skólinn því settur í 144. skipti að þessu sinni. Í sumar var unnið að viðhaldsverkefnum í húsnæði skólans, auk þess sem aparólu var komið fyrir á skólalóðinni. Bæjarstjórinn býður nemendur og starfsfólk skólans velkomið til starfa og óskar þeim góðs gengis í sínum störfum í vetur.

Nú þegar skólastarfið er hafið í grunnskólanum og leikskólanum er hvatt til aðgátar í umferðinni í nágrenni skólanna. Árvökulir lögreglumenn hafa fylgst með umferðinni við skólana þessa vikuna, við verðum öll að gæta fyllstu varúðar gagnvart börnunum sem eiga leið til og frá skólunum.

Sjónarspil á Garðskaga.

Eftir mitt sumar hefur verið mikil umferð fólks að kvöldlagi á Garðskaga til að njóta sólseturs, enda hefur veðurfarið verið með þeim hætti að fallegt sólsetur hefur verið nánast hvert kvöld. Nú styttist í þann tíma ársins þegar fjölmargir koma á Garðskaga að kvöldlagi til að njóta norðurljósa. Sl. þriðjudagskvöld brá svo við að bæði var ótrúlega fallegt og tilkomumikið sólsetur og nokkrum klukkustundum síðar dönsuðu norðurljós á himni yfir Garðskaga. Sólarhring síðar lagðist þoka yfir Garðskagann og þá lýsti vitaljósið í Garðskagavita inn í þokuna og myndaðist sannkölluð dulúð. Sannarlega tilkomumikið sjónarspil. Myndirnar hér að neðan bera vitni um það.

Sólsetur 23. ágúst 2016 (Mynd: Atli R Hólmbergsson)

Sólsetur 23. ágúst 2016 (Mynd: Atli R Hólmbergsson)

Norðurljós 23. ágúst 2016 (Mynd: Jóhann Ísberg).
Norðurljós 23. ágúst 2016 (Mynd: Jóhann Ísberg).
Vitinn í þokunni. (Mynd: Kjartan G Júlíusson).
Vitinn í þokunni. (Mynd: Kjartan G Júlíusson).

Þjóðhátíð á leikskólanum.

Börnin á leikskólanum Gefnarborg tengjast mörgum mismunandi þjóðernum, þar á meðal er Úkraína. Miðvikudaginn 24. ágúst var þjóðhátíðardagur Úkraínu og þann dag var þjóðfána Úkraínu flaggað við leikskólann. Í góða veðrinu hreyfðist fáninn varla á fánastönginni.

Þjóðfáni Ukraínu við Gefnarborg.
Þjóðfáni Ukraínu við Gefnarborg.

Veðrið.

Veðrið í sumar hefur verið hreint dásamlegt. Sumir halda því fram að þetta sé besta sumar í minni eldri manna. Allur gróður ber þess merki, þar sem t.d. trjágróður hefur dafnað mjög vel. Gott verður hefur verið þessa vikuna og kærkomið að fá smá vætu nú síðustu nótt.

Góða helgi.

 

 

facebooktwittergoogle_plusmail

32. vika 2016.

Sumarverkefnum að ljúka.

Nú verða kaflaskil, verkefnum sumarstarfsfólksins lýkur í dag og skólarnir hefjast. Sumarstarfsfólkið hefur unnið vel í sumar, Garðurinn er snyrtilegur og vel við haldið. Við þökkum þeim fyrir þeirra framlag og vel unnin störf í sumar. Jafnframt er öllum óskað velfarnaðar og góðs gengis í skólanámi vetrarins. Hér að neðan eru nokkrar myndir sem Guðbrandur íþrótta-og æskulýðsfulltrúi tók af starfsfólki bæjarins við sín störf.

Í Bræðraborgargarði
Í Bræðraborgargarði
Blómarósir hlúa að blómabeði
Blómarósir hlúa að blómabeði
Verkfundur í Áhaldahúsi
Verkfundur í Áhaldahúsi
Vinnugleði
Vinnugleði
Margir fætur vinna létt verk
Margir fætur vinna létt verk
Viðhaldsvinna
Viðhaldsvinna
Árni í vélaviðgerðum.
Árni í vélaviðgerðum.
Götumálning
Götumálning

Framkvæmdir við vatnslagnir í Útgarð.

Vegna aukinna umsvifa í Útgarði, m.a. vegna tilkomu nýs hótels þar, hafa HS Veitur ráðist í að leggja nýjar lagnir fyrir heitt og kalt vatn meðfram Skagabraut, frá Sandgerðisvegi og að Norðurljósavegi. Af þessum sökum er nokkuð jarðrask á svæðinu og svo mun væntanlega verða áfram næstu vikur og mánuði. Verktaki er ÍAV og er vonast til að framkvæmdin valdi íbúum á svæðinu ekki óþægindum. Vegfarendur eru vinsamlega beðnir um að gæta varúðar við framkvæmdasvæðið.

Veituframkvæmd við Skagabraut.
Veituframkvæmd við Skagabraut.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði. Þar bar helst til að fjallað var um fundargerðir og minnisblöð stýrihóps fulltrúa sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðisbæjar og Reykjanesbæjar, sem vinnur að tillögum um skipulag, þróun og uppbyggingu á Miðnesheiði. Um er að ræða gríðarlega mikið hagsmunamál til framtíðar og mikilvægt að vel takist til með verkefnið. Góð samstaða er um verkefnið í sveitarfélögunum þremur og það gefur góð fyrirheit um framhaldið.

Veðrið – langþráð væta.

Í sumar hefur verðrið verið einstaklega gott, sannkölluð sumartíð meira og minna allan tímann. Svo var komið í upphafi vikunnar að grasflatir í Garðinum voru að gulna og gróður farinn að skrælna af langvarandi þurrki. Varla hægt að segja að komið hafi dropi úr lofti vikum saman. Á þriðjudagskvöldið breytti um og fór að rigna, með hlýjum sunnanáttum. Næstu daga er útlit fyrir að eitthvað rigni, en birti til með sólskini inn á milli. Eftir smá vætu í nótt, þá skín sólin inn um gluggann hjá bæjarstjóranum í Garði þegar þetta er ritað. Gróðurinn fagnar svona veðurtíð og hefur tekið vel við sér nú í lok vikunnar.

Góða helgi !

 

facebooktwittergoogle_plusmail

31. vika 2016.

Róleg vika.

Eins og venja er til er vikan eftir Verslunarmannahelgi frekar róleg almennt. Margir hafa verið í sumarleyfum og nýta þessa viku til ferðalaga, aðrir eru að koma sér í daglega rútínu eftir sumarleyfin. Nú þegar líður inn í ágúst mánuð fara hjólin að snúast aftur af meiri krafti, stutt er í að skólahald hefjist og almennt verður farið að huga að verkefnum haustsins og næsta vetrar.

Tónlistarsköpun í Garðskagavita.

Eins og fram kom í molum síðustu viku, þá unnu þau Ólafur Arnalds og Nanna Bryndís Hilmarsdóttir tónlistarmenn að tónlistarsköpun og upptökum í Garðskagavita í síðustu viku. Afrakstur þeirra vinnu hefur verið opinberaður á internetinu, mjög flott lag og skemmtilegt myndband. Það er ánægjulegt fyrir okkur í Garði að þessi viðburður hafi átt sér stað á Garðskaga og óskum þeim Ólafi og Nönnu til hamingju með frábært verk. Hér að neðan er hlekkur á tónlistarmyndbandið sem þau unnu í Garðskagavita.

Ólafur Arnalds – Particles ft. Nanna Bryndís Hilmarsdóttir

Byggðasafnið og ferðaþjónusta á Garðskaga.

Byggðasafnið var opnað aftur fyrir nokkru síðan, eftir framkvæmdir í húsinu. Safnið er nú opið daglega milli kl. 13:00 og 17:00. Eins og kunnugt er var opnað lítið kaffihús í gamla vitanum og hefur verið mikil aðsókn að því, enda þykir mörgum sérstök upplifun að koma við í gamla vitanum. Nú mun stutt í að veitingasala hefjist aftur á efri hæð í byggðasafninu og unnið hefur verið að uppsetningu á sýningum í stóra vitanum, sjálfum Garðskagavita.

Unuhús, Sjólyst.

Í ár hefur verið unnið að viðhaldi og endurbótum á Sjólyst. Skipt hefur verið um glugga og nú standa yfir endurbætur á klæðningu hússins. Sjólyst er hús Unu í Garði og hafa Hollvinir Unu annast húsið, sem er í eigu sveitarfélagsins og haldið á lofti minningu Unu. Í húsinu eru munir sem voru þar meðan Una Guðmundsdóttir bjó í Sjólyst, gestir eru velkomnir í heimsókn en Sjólyst er að jafnaði opin gestum um helgar.

Endurbætur á Sjólyst.
Endurbætur á Sjólyst.

Víðir á sigurbraut.

Eftir slæman skell um daginn komu Vðismenn sterkir til baka og unnu góðan sigur á Dalvík í gær. Liðið er í góðri stöðu í öðru sæti 3. deildar og á nú alla möguleika á að vinna sér sæti í 2. deild að ári. Til hamingju Víðismenn, með óskum um áframhaldandi gott gengi.

Veðrið.

Veðrið í sumar hefur verið með ágætum hér í Garðinum. Að undanförnu hefur verið sólskin nánast alla daga og oftast hægviðri eða logn, sannkallað sumarveður. Mikil umferð hefur verið af fólki á Garðskaga undanfarin kvöld, sólarlagið bak við Snæfellsnesið er töfrum líkast og vilja margir upplifa það og njóta. Útlit er fyrir áframhald á veðurblíðunni, a.m.k. næstu dagana.

Regnbogafáninn blaktir.

Regnbogafáninn hefur verið dreginn upp við bæjarskrifstofuna í Garði. Um helgina verða Hinsegin dagar og mun regnbogafáninn blakta fram yfir helgi af því tilefni.

Regnbogafáni við bæjarskrifstofuna.
Regnbogafáni við bæjarskrifstofuna.

 

Góða helgi !

 

facebooktwittergoogle_plusmail