18. vika 2017.

Morð í Gerðaskóla.

Sl. föstudag frumsýndu nemendur Garðaskóla leikritið Morð eftir Ævar Þór Benediktsson, öðru nafni Ævar vísindamaður. Nemendum tókst vel til og var leiksýningin hin besta skemmtun. Vegna fjölda áskorana var leiksýningin endursýnd í gærkvöldi. Það eru efnilegir leikarar í hópi nemenda, aldrei að vita nema þar séu kvikmyndaleikarar framtíðarinnar. Takk fyrir frábæra leiksýningu.

Bæjarstjórnarfundur.

Bæjarstjórn Garðs fundaði í vikunni. Að vanda voru fjölmörg mál á dagskrá. Aðal mál fundarins var síðari umræða um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2016. Ársreikningurinn var samþykktur og áritaður af bæjarstjórn. Eins og fram hefur komið eru niðurstöður reikningsins ánægjulegar og jákvæðar. Efnahagslegur styrkur er góður, m.a. vegna þess að bæjarsjóður er skuldlaus. Afgangur af rekstri var meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og fjárfestingar fjármagnaðar alfarið af skatttekjum, engin ný lán voru tekin.

Undirbúningur Vinnuskóla.

Nú styttist óðum í að vinnuskóli sumarsins hefji starfsemi. Starfsmenn sveitarfélagsins eru þessa dagana að undirbúa sumarið og skipuleggja verkefnin. Starfsemi vinnuskólans er mikilvæg, bæði fyrir starfsmenn og ekki síður sveitarfélagið og íbúa þess. Undanfarin ár hefur vinnuskólinn unnið gott verk við að sjá um að byggðarlagið sé snyrtilegt og vel hirt, enda höfum við fengið hrós fyrir það frá gestum sem sækja Garðinn heim.

Keilir 10 ára.

Í gær var haldið upp á 10 ára afmælis Keilis á Ásbrú. Þegar litið er yfir sögu skólans í 10 ár er ljóst að þeir sem að honum hafa komið hafa unnið gott og þarft verk, í raun er um þrekvirki að ræða. Það er ánægjulegt að undirtónninn hjá Keili er nýsköpun og þess sést glöggt merki í starfsemi skólans fyrr og nú. Til hamingju með áfangann nemendur og starfsfólk Keilis.

Víðir á sigurbraut.

Knattspyrnulið Víðis hefur verið að gera það gott að undanförnu. Víðir sló lið Keflavíkur út í bikarkeppni KSÍ og Víðir sigraði lið Njarðvíkur í úrslitaleik B-deildar Lengjubikarkeppninnar. Það má því segja að eins og staðan er í dag hafi Garðurinn yfirhöndina á knattspyrnusviðinu umfram Reykjanesbæ ! Íslandsmótið hefst á morgun, laugardag með heimaleik Víðis gegn Hetti frá Egilsstöðum. Víðismenn koma vel stemmdir og sigurreifir til leiks í íslandsmótinu. Áfram Víðir !

Víðir - Lengjubikar meistarar B-deild.
Víðir – Lengjubikar meistarar B-deild.

Veðrið.

Nú er vorið í algleymingi og sumarveður hefur ríkt á landinu. Það er alltaf jafn ánægjulegt að sjá hvað allt lifnar við og brosin færast yfir mannfólkið þegar svona tíð er á vorin. Allir í góðu skapi :)

Góða helgi.

facebooktwittergoogle_plusmail

17. vika 2017.

Vorið.

Nú spá veðurfræðingar því að vor og hlýrra veður taki völdin upp úr komandi helgi. Veðrið undanfarna daga og vikur hefur verið alveg þokkalegt miðað við árstíma hér í Garðinum. Grasflatir og tún eru óðum að taka græna litinn og gróðurinn er almennt byrjaður að fagna vori. Verkefnin þessa dagana fela mörg í sér undirbúning fyrir sumarstörfin, til dæmis er verið að ráða starfsfólk í vinnuskóla sumarsins og skipuleggja sumarstarfið. Þá eru orðin kaflaskil hjá knattspyrnufólki, íslandsmótið hófst í gær í efstu deild kvenna og nú um komandi helgi fer af stað íslandsmótið í efstu deild karla. Þegar hefur verið leikin ein umferð í bikarkeppni KSÍ.  Allt eru þetta skýr merki um að vorið er komið, við reiknum svo með að veðurguðirnir færi okkur hlýrra veður í næstu viku.

Flugstöðin 30 ára.

Í gær, fimmtudag var haldin afmælishátíð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Nú eru 30 ár liðin frá því flugstöðin var vígð og tekin í notkun. Saga flugstöðvarinnar er nokkuð merkileg og var uppbygging hennar á sínum tíma nokkuð umdeild. Í hönnunarferlinu þótti mörgum mannvirkið allt of stórt og mikið, úr varð að dregið var verulega úr stærð flugstöðvarinnar áður en bygging hófst. Síðan hafa menn þurft að stækka hana og stækka. Flugstöðin og starfsemin þar hefur reynst vel og er mikilvæg fyrir okkur íslendinga, það er í raun með ólíkindum hvernig tekist hefur að mæta þeirri gríðarlegu sprengingu í fjölda farþega sem fer um flugstöðina. Í tilefni 30 ára afmælis flugstöðvarinnar í gær var afhjúpað stórt og ótrúlega flott listaverk eftir Erró, sem er staðsett á þeim stað í flugstöðinn þar sem allir farþegar fara um á hverjum degi. Hér fyrir neðan er mynd sem tekin var af verkinu.

IMG_2445

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði Garðs í vikunni. Á fundinum var meðal annars farið í saumana á niðurstöðum ársreiknings 2016 og samþykktir voru tveir viðaukar við fjárhagsáætlun 2017. Báðir viðaukarnir eru vegna tónlistarskólans, annars vegar er aukið stöðuhlutfall við tónlistarkennslu og hins vegar aukin fjárheimild vegna húsnæðismála skólans.

Frumsýning í Gerðaskóla.

Nemendur Gerðaskóla hafa að undanförnu æft leikritið Morð. Nú er komið að stóru stundinni þar sem frumsýning verður í Miðgarði í kvöld. Leiklistarlíf hefur verið líflegt í Gerðaskóla og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með hvað nemendur og kennarar hafa lagt mikla vinnu í alls kyns uppákomur í skólanum, þar á meðal hafa verið settar upp leiksýningar undanfarna vetur.  Garðbúar eru hvattir til að mæta og njóta menningarlífsins í Gerðaskóla.

Stórleikur í kvöld.

Í kvöld er stórleikur í bikarkeppni KSÍ í knattspyrnu. Keflavík og Víðir í Garði mætast á Nettóvellinum í Keflavík kl. 19:00. Þessi nágrannalið hafa ekki att kappi í alvöru keppni frá því árið 1986, þegar Keflavík vann Víðir 1-0 á Garðvelli í bikarkeppninni. Spennan mikil fyrir leiknum og Víðir hefur harma að hefna frá því fyrir rúmum 30 árum! Það verður fróðlegt að sjá hvernig lið Víðis mun koma til leiks að þessu sinni, en liðið leikur í 2. deildinni í sumar eftir að hafa í nokkur ár verið í 3. deild. Miklar væntingar eru til Víðis fyrir sumarið og mikill hugur í víðisfólki, það verður spennandi að fylgjast með leikjum Víðis í sumar.                Áfram Víðir !

18118908_939981326142077_3271120670172602885_n

Framkvæmdir.

Að undanförnu hefur Bragi Guðmundsson byggingarverktaki og hans menn unnið að byggingu salernisálmu við hús byggðasafnsins á Garðskaga. Verkið gengur vel og er stefnt að því að taka húsnæðið í notkun í júní. Með tilkomu þess verður bætt úr salernisaðstöðu á Garðskaga, bæði fyrir gesti og gangandi sem munu hafa aðgang að salernum utan frá, eins fyrir gesti veitingahússins Röst og byggðasafnsins sem munu hafa aðgang innan frá. Hér fyrir neðan er mynd af stöðu mála í gær, fimmtudag, en búið er að steypa upp útveggina.

IMG_2447

Frídagur verkamanna 1. maí.

Nú er apríl að renna sitt skeið á enda. Næstkomandi mánudag þann 1. maí er frídagur verkamanna, sem í gegnum tíðina og þá aðallega í fyrri tíð var oft verið nefndur „baráttudagur verkalýðsins“. Víða um landið halda verkalýðsfélögin hátíðir í tilefni dagsins, en hefðir og venjur að því leyti eru þó nokkuð misjafnar eftir landsvæðum og byggðarlögum. Víða er mikið lagt upp úr hátíðarhöldunum, með ræðuhöldum og skemmtidagskrám en annars staðar er lítið eða jafnvel ekkert um að vera. Þema dagsins er þó jafnan hið sama frá ári til árs, það er baráttan fyrir betri kjörum launafólks.  Við óskum öllu launafólki fyrirfram til hamingju með daginn þann 1. maí.

Góða helgi !

facebooktwittergoogle_plusmail

16. vika 2017.

Páskar að baki.

Síðustu tvær vikur hafa einkennst af hátíð Páskanna. Margir og góðir frídagar sem flestir hafa vonandi notið vel, ásamt því að njóta helgihalds páskahátíðarinnar.

Gleðilegt sumar !

Samkvæmt dagatalinu var sumardagurinn fyrsti í gær, þann 20. apríl. Sumardagurinn fyrsti hefur gjarnan jákvæðan sess í huga landsmanna, enda undirstrikar hann að komið sé að lokum vetrar og vorið framundan. Fyrstu tvo dagana í byrjun sumars að þessu sinni var ekki mjög sumarlegt, meira að segja þurfti að skafa bílrúður og sópa snjó af bílum snemma í morgun. Það er hins vegar orðið það hlýtt og milt að jörðin breytti fljótt um ásýnd í morgun og snjóinn tók fljótt upp. Vorið er framundan og vonandi verður það milt og gott.

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði nú í vikunni. Þar bar hæst að samþykkt var tillaga um lausnir á húsnæðismálum tónlistarskólans, en tónlistarskólinn hefur undanfarin ár búið við mjög þrönga og ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu. Samþykkt bæjarráðs er ánægjulegur áfangi sem miðar að því að búa vel að tónlistarskólanum.

Almannavarnanefnd á ferð.

Nú í morgun var Almannavarnanefnd Suðurnesja, utan Grindavíkur á ferð um utanverð Suðurnes. Nefndin heimsótti björgunarsveitirnar í Sandgerði, Garði og Reykjanesbæ þar sem nefndin hitti forystufólk björgunarsveitanna og kynnti sér aðstöðu og búnað sveitanna. Björgunarsveitirnar eru mjög mikilvægir hlekkir í öryggiskeðju samfélagsins og starfa náið með almannavörnum. Heimsóknir Almannavarnanefndar voru ánægjulegar og er alltaf jafn athyglisvert að sjá hvað margir einstaklingar leggja mikið af mörkum í sjálfboðavinnu á vettvangi björgunarsveitanna. Fyrir það er þakkað. Myndin hér að neðan var tekin af Almannavarnanefnd og formanni Björgunarsveitarinnar Ægis í Garði í húsnæði sveitarinnar í Garði.

IMG_2440

Ungt fólk og lýðræði.

Fulltrúar Ungmennaráðs Garðs sóttu fyrir stuttu ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði, sem Ungmennaráð UMFÍ hefur staðið fyrir undanfarin ár. Að þessu sinni var ráðstefnan haldin á Hótel Laugabakka í Miðfirði. Yfirskrift ráðstefnunar að þessu sinni var „Ekki bara framtíðin – ungt fólk, leiðtogar nútímans“. Það er mikilvægt fyrir ungt fólk alls staðar að af landinu að koma saman og fjalla um sín hagsmunamál og það er gott framtak hjá UMFÍ að standa að þessum árlegu ráðstefnum. Hér er mynd af fulltrúum Ungmennaráðs Garðs, ásamt góðum vinum á ráðstefnunni.

IMG_4696

Góða helgi !

facebooktwittergoogle_plusmail

14. vika 2017.

Fimleikakappar úr Garði.

Um síðustu helgi slógu nokkrir efnilegir fimleikakappar úr Garði í gegn á íslandsmóti. Atli Viktor Björnsson varð íslandsmeistari í 3. þrepi karla, Magnús Orri Arnarson varði íslandsmeistaratitil sinn í frjálsum æfingum hjá Special Olympics og Sigurður Guðmundsson stóð sig vel á sínu fyrsta fimleikamóti hjá Special Olympics.  Frábær árangur hjá þessum efnilegu Garðbúum, til hamingju með það. Myndirnar hér að neðan eru fengnar af Facebook síðum foreldra.

Atli Viktor á verðlaunapalli.
Atli Viktor á verðlaunapalli.
Sigurður með verðlaunapeninginn, við hliðina á Leonard frænda sínum.
Sigurður með verðlaunapeninginn, við hliðina á Leonard frænda sínum.

Árshátíð Gerðaskóla.

Árshátíð Gerðaskóla var haldin í vikunni. Nemendur og kennarar hafa að undanförnu lagt mikla vinnu í að undirbúa árshátíðina og tókst hún mjög vel. Fjölmenni sótti árshátíðina, sem var í þremur hlutum eftir aldri nemenda. Framkoma og atriði nemendanna voru fjölbreytt og allt gekk mjög vel. Myndirnar hér að neðan eru af nemendum flytja sín atriði á árshátíðinni.

IMG_0687

IMG_0683

Bæjarstjórnarfundur.

Bæjarstjórn kom saman til fundar á miðvikudaginn. Þar bar hæst fyrri umræða um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2016. Niðurstöður ársreiknings eru mjög jákvæðar og lýsti bæjarstjórn ánægju með þær. Nánar er fjallað um ársreikninginn í molum bæjarstjóra frá því í gær. Að öðru leyti fjallaði bæjarstjórn um ýmsar fundargerðir nefnda og ráða og var samhljómur í bæjarstjórn um afgreiðslu allra mála.

Páskar framundan.

Tíminn líður hratt, allt í einu er komið að Páskahátíðinni. Grunnskólinn er farinn í páskaleyfi og margir landsmenn eru þegar lagstir í ferðalög innanlands sem utan. Næsta vika mun einkennast af því að páskahelgin verður framundan með tilheyrandi frídögum og ferðalögum, ferðalangar eru hvattir til að fara varlega í umferðinni og vonandi komast allir heilir heim úr sínum ferðalögum.

Veðrið.

Um síðustu helgi og raunar alla vikuna hafa verið miklar sviptingar í veðrinu. Sl. laugardag var dýðlegt vorveður með sól og blíðskaparveðri, síðan tók við sunnan rok og rigning á sunnudeginum. Mánudagurinn einkenndist af sunnan vindi þar sem skiptist á rigning og slydduél, að öðru leyti hafa að mestu verið suðlægar áttir með tilheyrandi vætutíð þessa vikuna. Það fer ekki milli mála að vorið er að taka völdin, a.m.k. hér á Suðurnesjunum.

Góða helgi.

facebooktwittergoogle_plusmail

Ársreikningur 2016 – góðar niðurstöður.

Ársreikningur Sveitarfélagsins Garðs fyrir árið 2016 var til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 5. apríl. Bæjarstjórn afgreiðir reikninginn eftir síðari umræðu í byrjun maí. Samkvæmt reglum um reikningsskil sveitarfélaga skiptist ársreikningur í tvo hluta. Annars vegar er A-hluti, sem er almennur rekstur bæjarsjóðs sem er að mestu leyti fjármagnaður með skatttekjum. Hins vegar er B-hluti, sem eru fyrirtæki í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Undir B-hluta fellur m.a. rekstur félagslegra íbúða, íbúða fyrir aldraða og fráveitu.

Niðurstöður og lykiltölur ársreikningsins bera með sér að rekstur sveitarfélagsins gekk mjög vel á árinu 2016 og eru niðurstöður rekstrar talsvert betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þá er ljóst að efnahagslegur styrkur sveitarfélagsins er mikill.

Rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningi A og B-hluta er afgangur 60,9 milljónir, sem er 35,7 milljóna meiri afgangur en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Sem fyrr er bæjarsjóður í A-hluta skuldlaus en vaxtaberandi langtímaskuldir B-hluta eru aðeins kr. 60,4 milljónir.

Rekstrartekjur A-hluta bæjarsjóðs voru 1.243,5 milljónir, þar af voru skatttekjur 719,9 milljónir og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 366,6 milljónir. Rekstrarniðurstaða B-hluta bæjarsjóðs var jákvæð um 58,5 milljónir, sem er 27,4 milljónum meiri afgangur en áætlun gerði ráð fyrir. Heildartekjur í samanteknum reikningi A og B-hluta voru 1.277,7 milljónir, sem er 70,3 milljónum meiri tekjur en áætlun ársins gerði ráð fyrir.

Laun og launatengd gjöld námu alls 524,6 milljónum og voru 61 stöðugildi í árslok 2016. Vöru-og þjónustukaup voru 496,8 milljónir, lífeyrisskuldbindingar jukust um 27,6 milljónir sem er 15,3 milljónum umfram áætlun.

Veltufé frá rekstri var 170,5 milljónir og var veltufjárhlutfallið 2,81. Handbært fé frá rekstri var 161,6 milljónir og hækkaði handbært fé frá fyrra ári um 121,4 milljónir, sem er 66,2 milljónum meira en áætlun ársins gerði ráð fyrir. Handbært fé í árslok 2016 var alls 457,4 milljónir.

Fjárfestingar voru 67,6 milljónir, en á móti voru seldar eignir fyrir 22 milljónir og álögð gatnagerðargjöld 14,7 milljónir. Í sjóðstreymisyfirlit kemur fram að fjárfestingar í varanlegum fjármunum voru nettó 39,8 milljónir.

Heildareignir A-hluta voru 3.040 milljónir og samtals í A og B-hluta 3.222,4 milljónir, eiginfjárhlutfall var 82,16%. Samanlagðar skuldir og skuldbindingar A og B-hluta voru 582,7 milljónir, þar af vaxtaberandi langtímaskuldir 60,4 milljónir sem fyrr segir, lífeyrisskuldbindingar 211,6 milljónir og langtíma leiguskuldbinding 111,6 milljónir.

Niðurstöður rekstrar árið 2016 og sterk efnahagsleg staða sveitarfélagsins eru mjög ánægjulegar staðreyndir, enda lýsti bæjarstjórn mikilli ánægju með útkomuna á fundi sínum við fyrri umræðu um ársreikninginn. Bæjarstjórinn er einnig ánægður með útkomuna og þakkar starfsfólki sveitarfélagsins, ásamt góðri og samstilltri bæjarstjórn fyrir þann árangur sem náðst hefur í rekstri og fjárhagslegum málefnum sveitarfélagsins.

facebooktwittergoogle_plusmail

13. vika 2017.

Annir hjá nemendum Gerðaskóla.

Það er mikið um að vera hjá nemendum Gerðaskóla þessa dagana. Í síðustu viku kepptu fulltrúar skólans í Skólahreysti og stóðu sig vel.  Á sunnudaginn þann 2. apríl fer fram lokahátíð Nótunnar 2017 í Hörpu, þrátt fyrir að fulltrúar Gerðaskóla, hljómsveitin 13 nótur, hafi ekki komist í úrslit Nótunnar þá voru þau beðin um að sýna atriðið sitt aftur í Hörpu sem upphitun fyrir Nótuna. Frábært hjá krökkunum, en eins og fram hefur komið þá spila þau m.a. á hljóðfæri gerð úr skolprörum. Hópur nemenda hefur undanfarið æft leikritið Morð eftir Ævar Þór Benediktsson og verður það frumsýnt í lok apríl. Þetta leikverk er samstarfsverkefni með Þjóðleik, sem er leiklistarverkefni ungs fólks á landsbyggðinni í samstarfi við Þjóðleikhúsið.  Vitor Hugo Rodrigues Eugenio, kennari við Gerðaskóla, leikstýrir leikhópnum í Gerðaskóla.  Í næstu viku, nánar tiltekið þriðjudaginn 4. apríl verður blái dagurinn haldin hátíðlegan í tilefni af alþjóðlegum degi einhverfunnar. Þá eru allir hvattir til að klæðast bláu og foreldrar um leið hvattir til að ræða við og fræða börn sín um einhverfu.  Loks má nefna að lið Gerðaskóla keppti í gær í stóru upplestrarkeppninni sem fram fór í Grindavík og stóðu fulltrúar Gerðaskóla sig vel.  Framundan er síðan árshátíð skólans í næstu viku. Duglegir og athafnasamir nemendur í Gerðaskóla.

13 nótur
13 nótur
Lið Gerðaskóla í upplestrarkeppninni.
Lið Gerðaskóla í upplestrarkeppninni.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur hjá bæjarráði, á dagskrá fundarins kenndi ýmissa grasa. Lögð voru fram drög að ársreikningi 2016, sem fer til fyrri umræðu í bæjarstjórn í næstu viku. Samþykktar voru umsagnir um tvö þingmál á Alþingi, annars vegar mælt gegn samþykkt breytinga á lögum sem fela í sér afnám lágmarksútsvars og hins vegar mælt með að Alþingi samþykki tillögu um að Landhelgisgæslan verði flutt í Reykjanesbæ. Bæjarstjórinn lagði fram minnisblað um húsnæðismál og samþykkti bæjarráð að skoða kosti þess að eiga samstarf við húsnæðissjálfseignarstofnanir um fjölgun leiguíbúða í sveitarfélaginu. Lagður var fram samstarfssamningur sveitarfélagsins og Ferskra vinda vegna listahátíðarinnar Ferskir vindar sem fram fer í desember og janúar næstkomandi. Þá má nefna að ákveðið var að staðsetja rafmagnshleðslustöð fyrir rafmagnsbifreiðir við Íþróttamiðstöðina. Þá samþykkti bæjarráð starfslýsingu og starfsheiti Frístunda-, menningar-og lýðheilsufulltrúa sveitarfélagsins. Alltaf nóg um að vera hjá bæjarráði.

Framkvæmdir.

Nokkuð er um framkvæmdir í sveitarfélaginu um þessar mundir. HS Veitur hafa undanfarna mánuði unnið að endurnýjun vatnslagna í Útgarði og sér nú fyrir endan á þeim framkvæmdum. Míla hefur unnið að því að stórbæta fjarskiptasambönd í bænum. Þá eru framkvæmdir hafnar á vegum sveitarfélagsins við uppbyggingu salernishúss við byggðasafnið á Garðskaga og unnið er að lagfæringum og uppsetningu leiktækja á opnu leiksvæði barna. Framundan eru margvísleg verkefni á vegum sveitarfélagsins og verður mikið um að vera í þeim efnum á árinu. Þegar mikið er um að vera í framkvæmdum og alls kyns verkefnum, þá reynir á starfsmenn sveitarfélagsins. Þeir Jón Ben og Einar Friðrik á Umhverfis-, skipulags-og byggingarsviði hafa í mörgu að snúast og þurfa að meðhöndla alls konar gögn og upplýsingar. Myndin hér fyrir neðan ber það m.a. með sér.

Mikið að gera hjá Jóni og Einari.
Mikið að gera hjá Jóni og Einari.
Steypuvinna við salernishúsið.
Steypuvinna við salernishúsið.
Framkvæmdir á opnu leiksvæði barna.
Framkvæmdir á opnu leiksvæði barna.

Ferðaþjónustan.

Nú hillir undir að Hotel Lighthouse Inn opni, en framkvæmdir við uppbyggingu hótelsins hafa staðið yfir í allan vetur. Ferðaþjónustan á Garðskaga er í uppbyggingu og hefur verið vart við stöðuga aukningu á umferð út á Garðskaga síðustu vikur. Veitingahúsið Röst hefur notið mikilla vinsælda og stutt er í að kaffihúsið í gamla vitanum opni aftur eftir lokun í vetur. Að undanförnu hafa nokkrir ferðalangar slegið upp tjöldum og gist á Garðskaga, svo ekki sé minnst á húsbílana og Camper gistibílana. Gera má ráð fyrir að umferð ferðafólks í Garðinn aukist jafnt og þétt næstu vikur, en samkvæmt mælingum er áætlað að vel yfir 200.000 gestir komi á Garðskaga á ári. Það voru því mikil vonbrigði að umsókn um endurbætur á bílastæðum á Garðskaga hlaut ekki náð hjá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, en mjög aðkallandi er að lagfæra aðkomu og bílastæði á Garðskaga. Margir leggja leið sína á Garðskaga til að upplifa fegurð náttúrunnar, hér fyrir neðan er mynd tekin á Garðskaga í gærkvöldi og sýnir fallegt sólsetur með Snæfellsjökul í forgrunni.

Snæfellsjökull og sólsetrið.
Snæfellsjökull og sólsetrið.

Veðrið.

Nú í vikunni hefur verið sannkallað vorveður. Augljóst er að hefðbundin vorveður eru fyrr á ferðinni en oftast áður. Einhverjir farfuglar eru komnir, fyrr en venjulega og veturinn virðist víðs fjarri þótt ennþá sé marsmánuður.

facebooktwittergoogle_plusmail

12. vika 2017.

Nótan.

Um þessar mundir er uppskeruhátíð tónlistarskólanna í landinu.  Nemendur Tónlistarskóla Garðs og Gerðaskóla í hljómsveitinni 13 nótur tók þátt í einni af undankeppnum hátíðarinnar um síðustu helgi. Hljómsveitin spilaði á tréspil og heimatilbúin „tubulum-hljóðfæri“, en þau eru gerð úr skolprörum og voru smíðuð af nemendum fyrr í vetur. Því miður náðu 13 nótur ekki að vinna sér þátttöku á lokakvöldi Nótunnar í ár, en þau vöktu verðskuldaða athygli fyrir sviðsframkomu, góðan flutning og ekki síst fyrir hljóðfærin sem þau notuðu. Á myndinni hér að neðan má sjá nemendur Gerðaskóla við smíði hljóðfæris úr skolprörum.

Hljóðfærasmiðir að störfum.
Hljóðfærasmiðir að störfum.

Heilsueflandi samfélag.

Nú í vikunni var vinnufundur á vegum Landlæknisembættisins, þar sem fulltrúar sveitarfélaga á Suðurnesjum og stofnana þeirra mættu og tóku virkan þátt. Umfjöllunarefnið var Heilsueflandi samfélag. Hér er um að ræða athyglisvert verkefni, en nokkur sveitarfélög hafa þegar skilgreint sig sem heilsueflandi samfélög. Það er mikilvægt fyrir alla að huga að heilsunni og heilbrigðu líferni, á vinnufundinum var m.a. fjallað um það hvernig samfélögin og stofnanir sveitarfélaganna geta beitt sér í þeim efnum.

IMG_2410

Alþjóðadagur vatns í Leikskólanum Gefnarborg.

Nú í vikunni var alþjóðadagur vatns og tók leikskólinn þátt í að vekja athygli á honum. Vatn er ein megin undirstaða alls lífs og því skiptir öllu máli að hafa aðgang að hreinu og góðu vatni. Við íslendingar erum heppin að hafa opinn aðgang að hreinu og heilnæmu vatni, en því miður búa margir jarðarbúar við verri aðstæður í þeim efnum. Það er gott framtak að vekja börnin á leikskólanum til umhugsunar um vatnið og mikilvægi þess, ásamt því að börnin voru hvött til að drekka nóg af vatni.

Vatn í leikskólanum.
Vatn í leikskólanum.

Dagur Norðurlanda – Norræna félagið í Garði 10 ára.

Í gær þann 23. mars var Dagur Norðurlanda. Um þessar mundir eru 10 ár frá því að Norræna félagið í Garði var stofnað og hélt félagið afmælishátið af því tilefni í gærkvöldi. Sveitarfélagið Garður hefur átt gott samstarf við Norræna félagið, en sveitarfélagið á vinabæi í þremur hinna Norðurlandanna og hefur Norræna félagið lykilhlutverk í samskiptum við þau. Meðal skemmtiatriða á afmælishátíðinni var söngur Söngsveitarinnar Víkinga, sem flutti nokkur lög en söngsveitin fer í tónleikaferð í vor, m.a. til Nybro sem er vinabær Garðs í Svíþjóð. Erna M Sveinbjarnardóttir er formaður félagsins og Jónína Holm fór fyrir afmælisnefnd félagsins sem undirbjó afmælishátíðina.

Jónína og Erna á afmælishátíð Norræna félagsins í Garði.
Jónína og Erna á afmælishátíð Norræna félagsins í Garði.

Landsþing sveitarfélaga.

Í dag, föstudag er Landsþing sveitarfélaga. Þar mæta fulltrúar allra sveitarfélaga og fara yfir ýmis hagsmunamál sveitarfélaganna og íbúa þeirra. Samband íslenskra sveitarfélaga annast undirbúning og framkvæmd þingsins að venju, en Sambandið er mikilvægur samstarfs vettvangur sveitarfélaganna í landinu og vinnur að hagsmunamálum þeirra, m.a. gagnvart ríkisvaldinu. Að loknu Landsþingi verður aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga.

Góða helgi !

 

facebooktwittergoogle_plusmail

11. vika 2017.

Safnahelgi í Garði.

Um síðustu helgi voru Safnadagar á Suðurnesjum og voru fjögur söfn í Garði opin fyrir gestum. Það voru einkasöfn þeirra Ásgeirs Hjálmarssonar, Hilmars Foss og Helga Valdimarssonar, auk byggðasafnsins á Garðskaga. Mikil aðsókn var að öllum þessum söfnum og má áætla að alls hafi hátt í 1.000 gestir komið í öll þessi söfn um helgina. Mikil umferð var í Garðinum í tengslum við safnahelgina og tókst mjög vel til. Þeir Ásgeir, Hilmar og Helgi fá miklar þakkir fyrir að opna sín einkasöfn fyrir almenningi, það er í raun ótrúlegt hvað allir þessir aðilar hafa lagt mikið af mörkum við að koma upp sínum söfnum. Það er fjölbreytt flóra af söfnum í Garðinum.

Ásgeir við Renault árg. 1946, sem hann gerði upp frá grunni.
Ásgeir við Renault árg. 1946, sem hann gerði upp frá grunni.
Hilmar í sínu einkasafni, þar sem eru m.a. Jaguar bifreiðir.
Hilmar í sínu einkasafni, þar sem eru m.a. Jaguar bifreiðir.

Frjálsíþróttanámskeið.

Næstu þrjár vikurnar verður frjálsíþróttanámskeið fyrir börn í Íþróttamiðstöðinni. Íris Dögg Ásmundsdóttir annast námskeiðið og mættu um 60 börn á fyrstu æfingu nú í vikunni. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig gengur hjá krökkunum, aldrei að vita nema í þessum hópi leynist framtíðar afreksfólk í frjálsum íþróttum.

Íris Dögg með framtíðar frjálsíþróttahetjum Garðs.
Íris Dögg með framtíðar frjálsíþróttahetjum Garðs.

Leikskólinn Gefnarborg – vika tileinkuð læsi.

Síðasta vika var tileinkuð læsi í leikskólanum, en þar er unnið markvisst með læsi alla daga. Farið var í heimsókn á bókasafnið, ásamt því að unnið er með verkefnið „Orð að heiman“ sem felur í sér að foreldrar lesa bækur fyrir börn sín heima og börnin fara síðan með orð úr viðkomandi bók í leikskólann þar sem orðið er krufið og útskýrt. Þetta er gott framtak hjá leikskólanum, enda er öllum mikilvægt að hafa gott vald á læsi.

Bætt netsamband í Garði.

Undanfarið hafa íbúar kvartað yfir slæmu netsambandi, enda kallar tækni nútímans á góð og örugg netsambönd hvort sem á við um sjónvarpssendingar eða tölvusambönd. Eftir að kvartanir komu fram og eftir fund fulltrúa sveitarfélagsins með starfsmönnum Mílu, var brugðist hratt og vel við og þessa dagana vinnur Míla að framkvæmdum við að bæta netsambönd í bænum. Á næstu vikum munu íbúar í Garði búa við betra netsamband en verið hefur. Garðbúar vilja vera vel tengdir.

Skipulagsmál.

Nú er unnið að breytingum á aðalskipulagi sveitarfélagsins og hefur matslýsing um breytingarnar verið auglýst. Þá er unnið að endurskoðun deiliskipulags Teiga-og Klapparhverfis, en gildandi deiliskipulag hverfisins var staðfest árið 2007. Þá er unnið að nýju deiliskipulagi fyrir íbúðabyggð í Útgarði. Sú breyting hefur orðið á um það bil einu og hálfu ári, að í stað þess að fjöldi íbúða stóðu ónotaðar í sveitarfélaginu hefur nánast allt laust íbúðarhúsnæði selst og er þegar kominn fram skortur á íbúðarhúsnæði. Sú vinna sem nú er í gangi við deiliskipulög í tveimur íbúðahverfum er viðleitni sveitarfélagsins til þess að mæta eftirspurn eftir íbúðalóðum, sem nú þegar er komin fram. Á næstunni má búast við að uppbygging íbúðarhúsnæðis hefjist á ný, en allmörg ár eru síðan síðast var íbúðarhús í byggingu í Garði.

Þjónustusamningur um skólaþjónustu.

Sveitarfélagið hefur undanfarin ár notið þjónustu Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar, sem hefur veitt Gerðaskóla og leikskólanum Gefnarborg þjónustu. Þar sem fyrri samningur rann út í ársbyrjun hefur verið undirritaður nýr þjónustusamningur, sem gildir út skólaárið 2017-2018. Bæjarstjórar Garðs og Reykjanesbæjar undirrituðu samninginn í dag, að Helga Arnarssyni fræðslustjóra viðstöddum. Auk þjónustu við nemendur og skólana, miðar samningurinn að öflugu og góðu samstarfi skólanna á þjónustusvæði Fræðsluskrifstofunnar.

Magnús og Kjartan Már bæjarstjórar undirrita samninginn að Helga viðstöddum.
Magnús og Kjartan Már bæjarstjórar undirrita samninginn að Helga viðstöddum.

Veðrið.

Við höfum verið laus við hefðbundið vetrarveður nú um miðjan mars. Segja má að veðurfarið síðustu vikuna minni frekar á vortíð en vetrartíma. Í dag er glampandi sól, norðlægur andvari og hitastig nokkrar gráður yfir frostmarki.

Góða helgi.

 

 

 

 

 

 

facebooktwittergoogle_plusmail

10. vika 2017.

Bæjarstjórnarfundur.

Í síðustu viku var fundur bæjarstjórnar Garðs. Á dagskrá voru ýmsar fundargerðir nefnda og stjórna til afgreiðslu. Segja má að þar hafi borið hæst fundargerðir Skipulags-og byggingarnefndar, þar sem fjallað er um skipulagsmál, ásamt því að samþykkt var úthlutun á lóð undir íbúðarhúsnæði. Samþykkt var tillaga að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins, þar sem helst er um að ræða breytingar á skipulagssvæðum á Miðnesheiði við Rósaselstorg. Þessi breyting á aðalskipulagi er háð því að nýtt aðalskipulag Keflavíkurflugvallar verði staðfest, en eftir ótrúlegar tafir á afgreiðslu þess máls hjá Skipulagsstofnun vísaði stofnunin staðfestingu aðalskipulags Keflavíkurflugvallar til umhverfisráðherra til staðfestingar. Í ályktun bæjarstjórnar um það mál er skorað á umhverfisráðherra að staðfesta aðalskipulag Keflavíkurflugvallar hið fyrsta, enda hafa tafir á því valdið töfum á uppbyggingu á svæðinu.  Þá fjallaði bæjarstjórn um vinnslu á deiliskipulagi á tveimur íbúðarsvæðum í sveitarfélaginu, stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu svo fljótt sem kostur er.

Bæjarráð.

Í þessari viku var fundur í bæjarráði. Þar var m.a. fjallað um minnisblað frá félagsþjónustunni með upplýsingum um stöðu húsnæðismála. Þar kemur fram að mikill skortur er á íbúðarhúsnæði í Garði og fyrir liggja vel á annan tug umsókna um félagslegt húsnæði í sveitarfélaginu. Þá samþykkti bæjarráð drög að samningum um starfsemi í byggðasafni og um listahátíðina Ferska Vinda, sem verður haldin kringum næstu áramót.

Safnahelgi á Suðurnesjum.

Nú um komandi helgi verður Safnahelgi á Suðurnesjum, þar sem gjaldfrjálst verður í mörg söfn á svæðinu og er fólk hvatt til þess að njóta safnanna. Í Garði bjóða fjögur söfn gesti velkomna. Það er byggðasafnið á Garðskaga, einkasafn Ásgeirs Hjálmarssonar að Skagabraut 17, einkasafn Hilmars Foss að Iðngörðum 2 og ævintýragarður Helga Valdimarssonar að Urðarbraut 4. Öll þessi söfn eru mjög áhugaverð og er fólk hvatt til þess að heimsækja þau um helgina. Nánari upplýsingar um Safnahelgi á Suðurnesjum má m.a. finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.

Rafrettur, böl eða blessun?

Næsta mánudag verður málþing í Fjölbrautarskóla Suðurnesja kl. 17:00, undir yfirskriftinni Rafrettur, böl eða blessun? Þar er ætlað að varpa ljósi á það hvort rafrettan sé nýr lífsstíll eða óvægin markaðssetning sem beinist einkum að ungmennum eða nýjum notendum rafretta. Málþingið er samstarfsverkefni Samsuð (Samtaka félagsmiðstöðva á Suðurnesjum) og Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Þess má geta að hægt verður að fylgjast með málþinginu á vef Víkurfrétta, vf.is þar sem verður bein útsending. Sitt sýnist hverjum um þetta mál.

Húsnæðismál.

Mikið hefur verið fjallað um húsnæðismál að undanförnu og er víst að sú umræða mun halda áfram og líklega færast aukinn þungi í hana. Á undanliðnu einu og hálfu ári hafa nánast allar fasteignir sem hafa verið til sölu í Garði verið seldar, enda hefur íbúum fjölgað mjög á síðast liðnu ári. Nú er húsnæðisskortur orðinn áþreifanlegur og er mikil eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Eins og fram kemur í umfjöllun um skipulagsmál á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku, þá er mikil vinna í gangi hjá sveitarfélaginu við að auka lóðaframboð til að mæta eftirspurn. Hér er um að ræða stórt og mikilvægt mál, sem mikil áhersla verður á hjá sveitarfélaginu á næstunni. Garðurinn er að springa út.

Nýir íbúar.

Í vikunni áttu bæjarfulltrúar og bæjarstjóri fund með stjórnendum IGS á Keflavíkurflugvelli, en IGS hefur tekið húsnæði Garðvangs á leigu hjá nýjum eigendum hússins. Á fundinum fóru fulltrúar IGS yfir það sem framundan er, en yfir 70 erlendir starfsmenn fyrirtækisins munu búa í húsinu, vera þar með lögheimili og greiða skatta og gjöld til sveitarfélagsins. Von er á fyrstu íbúunum í byrjun apríl. Á fundinum með IGS var farið yfir hvernig haldið verður utan um þennan hóp íbúa og jafnframt kom fram að um er að ræða hóp starfsmanna sem samanstendur af báðum kynjum og mun starfa við ýmis störf á vegum IGS á Keflavíkurflugvelli. Hér er um að ræða mikilvægt samstarfsverkefni sveitarfélagsins og IGS, með það að markmiði að bjóða þessa nýju íbúa velkomna og samlaga þá að samfélaginu. Þetta þýðir að íbúum sveitarfélagsins mun fjölga umtalsvert og tekjur sveitarfélagsins munu að sama skapi aukast.

Öskudagur á sér 18 bræður.

Öskudagurinn var í síðustu viku, þann dag var einmuna veðurblíða með sólskini og blíðu veðri. Samkvæmt þjóðtrúnni á Öskudagur sér 18 bræður og því má vænta þess að áfram verði veðurblíða ríkjandi, eins og verið hefur frá því á Öskudag. Að venju var mikið um að vera hjá börnunum á Öskudaginn. Þau klæddu sig upp sem alls kyns fígúrur og furðuverur, gengu í fyrirtæki og stofnanir þar sem þau sungu og fengu gott í gogginn í staðinn og í íþróttahúsinu var öskudagsskemmtun þar sem köttur var sleginn úr tunnu. Öll börnin fengu Pez kall í lok dagskrár í íþróttahúsinu. Það voru mörg glöð og ánægð börn á ferli í Garðinum þennan dag, enda alltaf spennandi að taka þátt í svona hátíðarhöldum. Hér að neðan eru nokkrar myndir frá öskudeginum í síðustu viku.

IMG_4163

IMG_4180

IMG_4170

Veðrið.

Eins og fram kemur í umfjöllun um Öskudaginn, þá hefur verið einmuna veðurblíða undanfarna daga. Það er vorblær í lofti þótt svo ekki sé komið fram í miðjan mars. Snjórinn sem þakti jörðu um daginn er bráðinn, en ennþá eru nokkrar snjóhrúgur eftir snjómokstursmenn á nokkrum stöðum. Þær hrúgur rýrna dag frá degi og er stutt í að þær snjóleifar hverfi að fullu.

Góða helgi !

facebooktwittergoogle_plusmail

8. vika 2017.

Íbúafundur um sameiningarmál.

Í vikunni voru íbúar boðaðir til fundar vegna úttektar á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Mjög góð mæting var á fundinum og virk þátttaka yfir 100 íbúa sem mættu. Verkefnið heldur nú áfram og er mikið verk að vinna úr öllum þeim gögnum og upplýsingum sem safnað hefur verið saman, þar á meðal fjölmörgum ábendingum og sjónarmiðum sem fram hafa komið frá íbúunum. Kærar þakkir garðbúar fyrir virka þátttöku og áhuga á þessu verkefni. Hér að neðan eru myndir frá íbúafundinum.

Íbúafundur um sameiningu 220217

íbúafundur 220217

Bæjarráð.

Í gær, fimmtudag var fundur í bæjarráði. Margvísleg mál voru þar á dagskrá, að vanda. Meðal þeirra má nefna að samþykktur var samningur við Víði um stuðning sveitarfélagsins við tiltekna þætti í starfsemi félagsins, auk þess að samþykktur var styrkur til félagsins vegna mikils ferðakostnaðar á komandi sumri. Þá má nefna að samþykkt var að eiga samstarf við Sjónvarp Víkurfrétta, sem felur í sér stuðning sveitarfélagsins við þáttagerð og fréttaflutning af Suðurnesjum.

Margt um að vera í leikskólanum.

Það er jafnan mikið um að vera í leikskólanum og margt skemmtilegt sem þar er tekið upp á. Nú í vikunni var skiptimarkaður, þar sem foreldrar komu m.a. með fatnað sem börnin hafa vaxið upp úr en er óslitinn og vel nýtilegur fyrir minni börnin. Þetta er frábær hugmynd sem miðar að endurnýtingu og minni sóun. Í dag, föstudag er „Öfugsnúinn dagur“, þar sem öllu á að snúa á hvolf. Gaman að fylgjast með fjölbreyttu og líflegu starfi hjá leikskólanum.

Norðurljósaparadísin Garðskagi.

Nú í gærkvöldi, fimmtudag, voru góð skilyrði á Garðskaga til að sjá norðuljósin dansa á himni. Fjöldi fólks var á ferðinni til að njóta. Á svona kvöldum eru nánast öll ljós á Garðskaga slökkt, nema að sjálfsögðu vitaljósið í sjálfum Garðskagavita. Það skapar enn betri skilyrði til að sjá og njóta norðurljósanna. Myndina hér að neðan tók Kjartan Guðmundur Júlíusson í gærkvöldi.

Garðskagi 23.feb 2017

Félagsmiðstöðin Eldingin.  

Mikið er jafnan um að vera í félagsmiðstöðinni. Í vikunni var haldið diskó þar sem þemað var „brjálað hár“ og mættu krakkar í 1. – 7. bekk og skemmtu sér við leiki og dans. Myndin hér að neðan er frá diskóinu og ber með sér stemmninguna hjá krökkunum.

Eldingin.ruglað hár

Víðir.

Meistaraflokkur Víðis í knattspyrnu undirbýr sig af miklum krafti fyrir komandi sumar. Um síðustu helgi vann Víðir góðan sigur á grönnum sínum Þrótti í Vogum 4-2 í Fótbolti.net mótinu, en síðan tapaði Víðir úrslitaleik mótsins gegn Kára á Akranesi 4-1. Víðisliðið er á góðu róli í sínum undirbúningi, enda mikil tilhlökkun fyrir komandi íslandsmóti.

Unglingaráð Víðis og Reynis hafa átt gott samstarf um yngri flokka félaganna og nú hefur nýtt, öflugt og áhugasamt fólk komið inn í starf Unglingaráðs fyrir hönd Víðis. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þessu jákvæða og góða samstarfi félaganna, sem hefur gengið vel og almenn ánægja ríkir um.  Aðalfundur Víðis verður mánudaginn 27. febrúar í Víðishúsinu og hefst kl. 20:00.  Áfram Víðir !

Sól hækkar á lofti.

Allt í einu er febrúar að renna sitt skeið á enda og mars að taka við. Tíminn flýgur hratt, sem felur í sér að sól hækkar hratt á lofti. Daginn er farið að lengja verulega og óðum styttist í vorið. Veðurfarið hefur ekki verið í beinum takti við dagatalið undanfarnar vikur og mánuði, því flesta daga hefur verið nánast vorveður, með ekki mörgum undantekningum. Fyrr en varir verður komið vor og vonandi gott sumar í kjölfarið.

Veðrið.

Það hefur verið létt sveifla á veðrinu þessa vikuna. Flesta daga hafa verið suðlægar áttir með hlýindum og oft rigningu. Á miðvikudaginn snjóaði létt en þann snjó tók fljótt upp. Í gær fimmtudag snjóaði, eins og myndin frá Garðskaga hér að ofan ber vitni um. Í dag hefur verið varað við óveðri um allt land, þegar þetta er skrifað hefur vegum í nágrenni höfuðborgarinnar verið lokað og gefið hefur verið út að Reykjanesbraut verði lokað fyrir umferð um tíma eftir hádegi í dag. Vonandi verður þokkalegt veður um helgina.

Góða helgi !

facebooktwittergoogle_plusmail