7. vika 2017.

Fundahöld vikunnar.

Þessi vika var óvenju þétt skipuð fundum hjá bæjarstjóranum. Á mánudaginn var árlegur fundur með lögreglustjóra og hans fólki, þar sem farið var yfir ýmis málefni. Þar var m.a. birt tölfræði um skráð mál hjá lögreglunni og tengjast Garði. Að venju var lítið um slík mál á síðasta ári, sem sýnir m.a. fram á hve gott og friðsælt samfélagið er í Garði. Á mánudaginn var einnig fundur með fulltrúum frá Mílu, þar sem farið var yfir fjarskiptakerfið og ástand þess í Garði. Í ljós hefur komið að þar er ýmsu ábótavant og mun Míla ráðast í tilteknar aðgerðir á næstu vikum til að koma ástandi fjarskiptanetsins í gott horf.

Þá var á mánudaginn samráðsfundur í Hljómahöllinni, sem verkefnastjórn á vegum Innanríkisráðuneytisins um eflingu sveitarstjórnarstigsins boðaði til. Markmið með störfum verkefnastjórnarinnar er að leggja fram tillögur sem stuðla að stærri, öflugri og sjálfbærum sveitarfélögum, ásamt breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Umfjöllun um þessi mál hefur verið viðvarandi um mjög langt skeið og er hvergi nærri lokið. Jafnframt er um að ræða mikilvægt mál því sveitarfélögin í landinu eru nú 74 og eru mjög mismunandi eftir stærð, bæði landfræðilega og eftir íbúafjölda og að mörgu öðru leyti. Sveitarfélögin hafa því misjafna burði til að standa almennilega að þeim verkefnum sem þeim ber að sinna, svo ekki sé talað um ef sveitarfélögin eiga að taka að sér aukin verkefni frá ríkinu á komandi árum.

Þingmenn Suðurkjördæmis komu í sína árlegu yfirferð um kjördæmið á fund okkar sveitarstjórnarfólks á Suðurnesjum. Þar fór fram umræða um hin ýmsu málefni svæðisins, auk þess sem farið var í vettvangsferð um Helguvíkurhöfn og skoðuð nýbygging hótels í Garði. Hópurinn snæddi síðan dýrindis hádegisverð í veitingahúsinu Röst á Garðskaga. Við áttum góða samveru, ásamt því að fá tækifæri til að ræða saman um margvísleg málefni og hagsmunamál íbúanna á Suðurnesjum.

Þingmenn og sveitarstjórnarmenn funda í Duus
Þingmenn og sveitarstjórnarmenn funda í Duus
Gísli Heiðarsson kynnir hótelbyggingu í Garði
Gísli Heiðarsson kynnir hótelbyggingu í Garði

Loks má nefna vetrarfund Reykjanes Jarðvangs og Markaðsstofu Reykjaness í gær, fimmtudag. Þar voru að vanda flutt góð erindi sem aðallega tengdust ferðaþjónustu. Einnig voru veittar viðurkenningar, annars vegar hlaut Johan D Jónsson þakkarverðlaun ferðaþjónustunnar fyrir vel unnin störf og framlag til uppbyggingar ferðaþjónustu á Reykjanesi, hins vegar hlutu veitingahúsið Vitinn og Rannsóknarsetur Háskólans í Sandgerði hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar.

Norðurljósin á Garðskaga.

Þrátt fyrir nánast stöðugar sunnanáttir að undanförnu, hefur eitt og eitt kvöld mátt sjá norðurljósin frá Garðskaga. Nú í vikunni hafa nokkur hundruð erlendra ferðamanna komið á Garðskaga til að njóta norðurljósanna. Það er áhugavert að fylgjast með þessum góðu gestum okkar upplifa norðurljósin, flestir eiga varla orð til að lýsa hrifningu sinni. Það hefur því verið erill við Garðskagavita og í veitingahúsinu Röst, þar sem ferðalangar hafa notið góðrar þjónustu. Hér eru myndir af norðurljósum sem Jóhann Ísberg tók á Garðskaga í síðustu viku.

Norðurljós og ferðamenn við gamla vitann.
Norðurljós og ferðamenn við gamla vitann.

Norðurljós 2.2.17

Sameiningarmál, íbúafundir í næstu viku.

Í næstu viku verða haldnir íbúafundir í Garði og Sandgerði, sem liður í úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna. Íbúafundurinn í Garði verður miðvikudaginn 22. febrúar kl. 19:30 í Gerðaskóla, en í Sandgerði fimmtudaginn 23. febrúar kl. 17 í Vörðunni. Íbúar eru hvattir til þess að mæta vel á þessa íbúafundi og taka þannig virkan þátt í þessu verkefni. Þess má geta að íbúar hvors sveitarfélags eru velkomnir á fundina í báðum sveitarfélögunum.

Konudagurinn.

Nú er Þorri að renna sitt skeið á enda, á morgun laugardag verður Þorraþræll, sem er síðasti dagur Þorra. Konudagurinn er á sunnudaginn, við upphaf Góu. Veðurfar á Þorra hefur yfirleitt verið mun erfiðara en að þessu sinni, oft hafa verið vetrarhörkur með snjó og frostatíma, enda um hávetur. Í tilefni konudagsins er konudagskaffi á leikskólanum Gefnarborg í dag, föstudag, þar sem öllum mömmum og ömmum er boðið í heimsókn og þiggja kaffiveitingar. Þetta er skemmtilegt uppátæki hjá leikskólanum. Við karlar óskum konum til hamingju með konudaginn, svona fyrirfram :) Hér er auglýsing í leikskólanum, þar sem vakin er athygli á konudagskaffinu.

Leikskóli konudagskaffi 2017

Veðrið.

Að undanförnu hefur verið vorveður, um miðjan febrúar ! Meira er ekki um það að segja.

Góða helgi og gleðilegan konudag !

facebooktwittergoogle_plusmail

6. vika 2017.

Danskeppni Samfés.

Sl. föstudag hélt Samfés danskeppni fyrir ungmenni á efsta stigi grunnskólanna. Keppnin fór fram í félagsheimilinu á Seltjarnarnesi og tókst mjög vel, en 10 lið frá 10 félagsmiðstöðvum tók þátt. Fulltrúar félagsmiðstöðvarinnar Eldingar í Garði voru þær Halla Líf Marteinsdóttir, Ína Sigurborg Stefánsdóttir og Eliza Taylor, en þær æfa allar dans hjá Bryn Ballett Akademíu. Þær stóðu sig mjög vel og voru verðugir fulltrúar Eldingar í keppninni.

Dansarar frá Eldingu.
Dansarar frá Eldingu.

Söngvakeppni Kragans.

Í kvöld, föstudag verður söngvakeppni Kragans í íþróttahúsinu á Álftanesi. Þar munu fulltrúar félagsmiðstöðva etja kappi í söngvakeppni. Fulltrúi félagsmiðstöðvarinnar Eldingar verður Magnús Orri Arnarson og óskum við honum góðs gengis.

Kynning á bandarískum Football í Gerðaskóla.

Sl. mánudag kom ruðningsleikmaðurinn Nicholas Woods í Gerðaskóla og kynnti bandarískan ruðning (Football) fyrir nemendum í elstu bekkjum. Mikill áhugi og fjör var meðal nemendanna og greinilegt að þau nutu þess að taka þátt í þessum hressilega leik. Ekki skemmdi fyrir að framundan var stórleikurinn Super Bowl í bandarísku ruðningsdeildinni, þannig að áhuginn var eflaust meiri fyrir vikið. Þetta var skemmtilegt innlegg í skólastarfið og ekki útilokað að meðal nemenda leynist framtíðar leikmenn í bandarískum ruðningi. Myndin hér fyrir neðan er af hópnum sem spreytti sig í Football, ásamt Nicholas Woods þjálfara.

IMG_3901

Dagur leikskólans sl. mánudag.

Á mánudaginn var dagur leikskólans. Þá var mikið um að vera á Gefnarborg, þar sem börnin unnu m.a. í ýmsum verkefnum og listasmiðjum. Myndirnar hér að neðan eru fengnar af Facebook síðu leikskólans Gefnarborgar og þar má sjá dugnaðinn og áhugann hjá börnunum í listsköpuninni.

Dagur leikskólans 2017.

Dagur leikskólans 2017

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði í vikunni. Ýmis mál voru á dagskrá að vanda. Þar má m.a. nefna samning við Útskálasókn um stækkun kirkjugarðsins við Útskálakirkju. Minnisblað frá bæjarstjóra um eftirlitsmyndavélar við innkomur í bæinn, en áhugi hefur verið meðal bæjarfulltrúa og íbúa á því að koma upp innkomuvöktun við bæjarmörkin. Bæjarstjóra var falið að vinna málið áfram og skila tillögum til bæjarráðs. Þá má nefna að fjallað var um drög að endurnýjuðum samningi við Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar um þjónustu við Gerðaskóla og leikskólann Gefnarborg. Loks voru á dagskrá fundargerðir frá nokkrum nefndum og starfshópum, m.a. um atvinnu-og þróunarsvæði á Miðnesheiði, um umhverfi og uppbyggingu á svæðinu við Útskálar og fundargerð frá stýrihópi vegna úttektar á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Það kennir alltaf ýmissa grasa í dagskrá bæjarráðs.

Netsambönd í Garðinum.

Nú í vikunni varð nokkur umræða meðal garðbúa um netsambönd í bænum. Í ljós hefur komið að mikið vantar upp á að netsamband sé viðunandi, m.a. vegna truflana í sjónvarpsútsendingum og tölvusamskiptum. Fulltrúar sveitarfélagsins áttu góð samskipti við Mílu og Símann um þessi mál í vikunni, eftir helgina munu fulltrúar frá Mílu koma til fundar við okkur á bæjarskrifstofunni þar sem farið verður yfir stöðuna og aðgerðir sem framundan eru til þess að netsamband í Garðinum verði eins og vera ber. Í samfélagi nútímans skiptir gott fjarskiptasamband miklu fyrir alla.

Sameining sveitarfélaga ?

Eins og fram hefur komið er nú unnið að því að greina kosti og galla þess að sameina sveitarfélögin Garð og Sandgerðisbæ. Nú í byrjun febrúar fór fram könnun meðal íbúa sveitarfélaganna um ýmislegt sem málið varðar. Þátttaka var ágæt og þökkum við íbúum fyrir þátttökuna, en könnunin skilaði mikilvægum upplýsingum sem nýtast í verkefninu. Nú í gær og í dag vinna bæjarstjórnir sveitarfélaganna saman að því að greina drifkrafta og óvissuþætti til framtíðar og framundan eru íbúafundir þar sem leitað verður eftir frekari þátttöku íbúanna í verkefninu. Íbúafundirnir verða nánar auglýstir í næstu viku og eru íbúar hvattir til þess að mæta og leggja sitt af mörkum. Þetta er spennandi og áhugavert verkefni sem mun án efa nýtast vel til framtíðar, hvort sem af sameiningu sveitarfélaganna verður eða ekki. Það kemur allt saman í ljós síðar.

Dagur tónlistarskólans á morgun.

Á morgun, laugardaginn 11. febrúar verður dagur tónlistarskólans. Af því tilefni munu nemendur tónlistarskólans koma fram á tónleikum í Miðgarði, sal Gerðaskóla. Tónleikarnir hefjast kl. 11:00.  Garðbúar eru hvattir til að fjölmenna og njóta góðrar tónlistar.

Tónlistarskólinn Garði

Góð aðsókn að Íþróttamiðstöðinni.      

Árið 2016 voru alls um 67 þúsund komur í Íþróttamiðstöðina. Komum fjölgaði um rúmlega 6 þúsund frá árinu 2015. Mest aukning á aðsókn var í líkamsræktina, enda er öll aðstaða þar eins og best verður á kosið. Vonir standa til að aðsókn aukist enn meira í ár, ekki síst þar sem íbúar sveitarfélagsins hafa nú gjaldfrjálsan aðgang að sundlauginni. Líkamlegt atgervi garðbúa fer batnandi ár frá ári um þessar mundir.

Samningur við Víðir.

Nú í morgun undirrituðu bæjarstjóri og Guðlaug Sigurðardóttir formaður Víðis samning milli sveitarfélagsins og Knattspyrnufélagsins Víðis, sem er viðauki við gildandi samstarfssamning. Í samningnum felst annars vegar að Víðir fær fjárframlag frá sveitarfélaginu til að mæta kostnaði vegna framkvæmdastjóra félagsins og hins vegar styrkir sveitarfélagið Víðir vegna mikils ferðakostnaðar á komandi leiktíð í 2. deild, en fyrirsjáanlegt er að Víðir þarf að leggjast í mikil og kostnaðarsöm ferðalög í útileiki víða um landið í sumar. Sveitarfélagið og Víðir eiga mikið og gott samstarf sem nýtist íbúum sveitarfélagsins á margan hátt. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá mikla gleði ríkja hjá bæjarstjóra og formanni Víðis við undirritun samningsins í morgun.

IMG_3920

Álagning fasteignagjalda.

Nú er lokið álagningu fasteignagjalda þetta árið. Á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is má finna allar nánari upplýsingar varðandi álagningu fasteignagjalda.

Veðrið.

Að undanförnu hefur veðurfarið verið líkt og á öðrum árstíma en um hávetur í febrúar. Hlýindi og sunnan áttir hafa verið ríkjandi. Ennþá hafa starfsmenn sveitarfélagsins að mestu verið lausir við að munda skóflur og moksturstæki vegna snjóa.

Góða helgi !

 

 

facebooktwittergoogle_plusmail

5. vika 2017.

Nú er tími flensunnar og ýmiskonar krankleika. Bæjarstjóri fór ekki varhluta af því í síðustu viku og er það ástæða þess að engir molar fóru í loftið fyrir viku síðan. Nú er heilsufarið komið í samt lag.

Þorrablót í Garði.

Fyrsta laugardag í Þorra var þorrablót suðurnesjamanna haldið í Íþróttamiðstöðinni í Garði. Rúmlega 600 manns mættu til að blóta Þorra, mikil og góð stemmning og skemmtilega jákvætt andrúmsloft sveif yfir borðum. Knattspyrnufélagið Víðir og Björgunarsveitin Ægir stóðu að þorrablótinu og framkvæmd þess. Þetta var í 8. skipti sem þorrablótið er haldið og mátti vel sjá hvað framkvæmdaraðilar eru í góðri æfingu við að halda svo fjölmenna og glæsilega samkomu, allur undirbúningur og framkvæmd tókst frábærlega. Kærar þakkir til Víðis og Ægis fyrir þorrablótið, sömuleiðis kærar þakkir allir sem mættu, fyrir skemmtilega samveru.

Allt var tilbúið tímanlega fyrir þorrablótið.

Rafmagnslausi dagurinn í leikskólanum.

Föstudaginn 27. janúar var rafmanglausi dagurinn í leikskólanum Gefnarborg. Þá mættu börnin með vasaljós og luktir í leikskólann, þar sem engin ljós voru kveikt þann dag. Það var mögnuð stemmning meðal barnanna í myrkrinu fram eftir morgni og eflaust hefur mörgum þeirra fundist það skrítið að engin ljós hafi verið kveikt. Þetta var sniðugt og gott framtak hjá leikskólanum, en hér að neðan eru myndir af Facebook síðu leikskólans Gefnarborgar frá rafmagnslausa deginum.

Rafmagnslausi dagurinn í leikskólanum.
Rafmagnslausi dagurinn í leikskólanum.

Minningarathöfn á Garðskaga.

Sunnudaginn 29. janúar sl. var minningarathöfn á Garðskaga, þegar þess var minnst að þann 29. janúar 1942 var Alexander Hamilton, skip US Coast Guard skotið niður og sökkt út af Garðskaga af þýskum kafbáti. 213 manns voru í áhöfn skipsins og íslenskir sjómenn björguðu flestum þeirra. 26 úr áhöfninni fórust. Fyrr í vetur var komið fyrir minningarskildi í anddyri Garðskagavita, með nöfnum þeirra sjóliða sem fórust. Landhelgisgæslan aðstoðaði við athöfnina, sem var hin hátíðlegasta. Meðal þeirra sem voru viðstaddir var fulltrúi aðstandenda þeirra sem fórust, þýskur sjóliðsforingi og fulltrúar Landhelgisgæslunnar, ásamt fleiri gestum, þ.á.m. nokkrum afkomendum íslensku sjómannanna sem björguðu þeim sem lifðu af.

Minningarathöfn.
Minningarathöfn.
Minningarskjöldur.
Minningarskjöldur.

Bæjarstjórn.

Í vikunni var fundur hjá bæjarstjórn Garðs. Að venju voru ýmsar fundargerðir nefnda, ráða og stjórna á dagskrá. Bæjarstjórn tók m.a. til afgreiðslu nokkur mál sem bæjarráð hafði áður fjallað um. Þar á meðal var skipan fulltrúa sveitarfélagsins í samstarfshóp með fulltrúum Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Voga, sem fær það verkefni að vinna að stefnu um þjónustu við aldraða í sveitarfélögunum. Þá staðfesti bæjarstjórn reglur um sérstakan húsnæðisstuðning og um fjárhagsaðstoð, sem Fjölskyldu-og velferðarnefnd hafði áður samþykkt.

Hjartamánuðurinn febrúar.

Undanfarin ár hefur Ísland tekið þátt í samstarfi alþjóða hjartasamtakanna og GoRed verkefnisins, þar sem febrúarmánuður er skilgreindur sem hjartamánuðurinn. Tilgangurinn er að vekja fólk til meiri vitundar um hjartasjúkdóma. Rauði dagurinn í ár er í dag, föstudaginn 3. febrúar og er starfsfólk sveitarfélaga og almenningur hvattur til að klæðast rauðum fatnaði til að minna á verkefnið. Garðbúar, klæðumst rauðu og tökum þátt.

Lífshlaupið.

Hið árlega lífshlaup hófst þann 1. febrúar. Lífshlaupið er heilsu-og hvatningarverkefni Íþrótta-og Ólympíusambands Íslands og höfðar til allra aldurshópa. Landsmenn eru hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er, þ.e. í frítíma, heimilisverkum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta. Fjölmörgir taka þátt, bæði sem einstaklingar og í liðum og nær til allra aldurshópa.  Að venju tekur lið starfsfólks á bæjarskrifstofunni í Garði þátt í lífshlaupinu, en undanfarin ár hefur okkur gengið mjög vel og flestir tekið góðan þátt í leiknum. Nú stefnum við hærra og hvetjum sem flesta að taka þátt í þessum skemmtilega leik. Skráning er á heimasíðunni lifshlaupid.is.

Lífshlaupið 2017

Allir lesa.

Föstudaginn 27. janúar hófst landsátakið Allir lesa. Þetta er lestrarlandsleikur þar sem allir eru hvattir til að skrá sig til leiks á vefinn allirlesa.is. Garðbúar eru hvattir til að skrá sig til leiks, þar sem þetta er að hluta til keppni milli sveitarfélaga. Þetta er gott tækifæri til þess að fara í bókasafnið í Gerðaskóla og fá sér góða bók til að lesa, en Garðbúar hafa gjaldfrjálsan aðgang að bókakosti bókasafnsins. Koma svo Garðbúar, tökum þátt !

Dagur leikskólans.

N.k. mánudag þann 6. febrúar verður dagur leikskólans. Að þessu sinni er lögð áhersla á að kynna leikskólakennarastarfið sem vænlegt framtíðarstarf, með sérstakri áherslu á karlmenn. Þetta verður í 10. skipti sem dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur og verður væntanlega eitthvað skemmtilegt um að vera í leikskólanum Gefnarborg þann 6. febrúar.

Veðrið.

Veðurfarið í Garði hefur verið með ágætum að undanförnu, ekki síst ef litið er til þess að janúar hefur rétt runnið sitt skeið. Það hefur verið hlýtt í veðri og nánast enginn snjór á svæðinu. Eitt og eitt kvöld hafa sést dansandi norðurljós á himni. Þegar þetta er skrifað á föstudags morgni er hlýtt veður og rigning, snjófölin sem kom í gær er óðum að bráðna niður.

Góða helgi !

 

facebooktwittergoogle_plusmail

3. vika 2017.

Bóndadagur og þorrablót.

Í dag, föstudaginn 20. janúar er Bóndadagur. Þar með hefst Þorrinn, sem tekur við af Mörsungi, samkvæmt fornu tímatali. Miklar hefðir eru fyrir því víða um land að halda þorrablót í Þorramánuði. Á morgun verður þorrablót Suðurnesjamanna haldið í íþróttahúsinu í Garði. Knattspyrnufélagið Víðir og Björgunarsveitin Ægir standa að þorrablótinu og reiknað er með að langt yfir 600 manns munu mæta, gæða sér á þorramat og skemmta sér saman. Til hamingju með daginn  !

Bóndadagur í leikskólanum.

Í tilefni Bóndadags bauð leikskólinn öllum pöbbum og öfum leikskólabarna í morgunmat með þorraívafi. Mæting var mjög góð, margir pabbar og afar mættu og gæddu sér á hafragraut og þorramat. Skemmtilegt framtak hjá leikskólanum og til þess fallið að viðhalda þorrahefðinni meðal barnanna.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði. Þar var m.a. samþykkt var að skipa tvo fulltrúa sveitarfélagsins í vinnuhóp með fulltrúum Sandgerðisbæjar og Voga, sem móti tillögur um stefnu í þjónustu við aldraða. Bæjarstjóri lagði fram yfirlit yfir skatttekjur ársins 2016 og eru þær nokkuð hærri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Loks má nefna að bæjarráð samþykkti að fela bæjarstjóra að sjá til þess að unnið verði eftir vegvísi samstarfsnefndar Sambands ísl. sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara, sem miðar að því að koma til framkvæmdar bókun við kjarasamning grunnskólakennara frá því í nóvember 2016.

Fundir á samstarfsvettvangi sveitarfélaga.

Til viðbótar við ýmis störf bæjarstjóra innan sveitarfélagsins, eru margvísleg samstarfsverkefni með öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Síðustu vikuna hafa verið nokkrir fundir vegna slíkra verkefna. Starfshópur um þróunar-og atvinnusvæði á Miðnesheiði fundaði sl. föstudag. Í gær var fundur í Svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja og fyrr í dag var fundur í stjórn Reykjanes Jarðvangs og hjá stjórn Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, Heklu. Þar fyrir utan var áhugaverður fundur á vegum ISAVIA og Kadeco, um samspil sjávarútvegs og Keflavíkurflugvallar vegna útflutnings á sjávarafurðum. Þar kom fram hvað Keflavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki fyrir sjávarútveginn. Alltaf nóg um að vera í góðu samstarfi sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Veðrið.

Veðrið undanfarna daga hefur borið með sér sýnishorn af nokkrum veðurafbrigðum. Það hefur skipst á rigning og hlýindi og snjókoma með svalara veðri. Í gær, fimmtudag snjóaði en það stóð aðeins yfir í örfáar klukkustundir þar til allan snjó hafði tekið upp með hlýju veðri og rigningu. Nú undir lok janúar fela veðurspár í sér hlýindi næstu daga svo ekki þarf að búast við að mikið álag verði í snjómokstrinum hér vestast og nyrst á Reykjanesinu.

Góða helgi !

facebooktwittergoogle_plusmail

2. vika 2017.

Bæjarstjórn.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn. Þar voru að venju mörg mál á dagskrá, fundargerðir kjörinna nefnda bæjarins auk fundargerða af sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga. Bæjarstjórnin samþykkti tillögu bæjarstjóra um gerð húsnæðisáætlunar fyrir sveitarfélagið, en öll sveitarfélög eiga að vinna slíka áætlun samkvæmt ákvæðum nýlegra laga um húsnæðismál. Þá var samþykkt að mæla með því að sýslumaður veiti tímabundið áfengisveitingaleyfi vegna þorrablóts í Garði 21. janúar. Þorrablótsgestir ættu því að geta notið viðeigandi veiga til að skola niður gómsætum þorramat.

Skólahald komið í hefðbundinn farveg.

Eftir jólaleyfið hófst skólahald í Gerðaskóla í síðustu viku. Dagleg störf nemenda og starfsfólks Gerðaskóla er því komið í fast horf á nýjan leik. Sama er að segja um leikskólann Gefnarborg og tónlistarskólann. Þótt svo flestum þyki notalegt að fá frí frá daglegum störfum þegar þannig ber undir, þá er líka alltaf gott þegar daglegt líf fellur í sinn farveg.

Viðlagatrygging.

Í vikunni komu starfsmenn Viðlagatryggingar í heimsókn og fóru yfir ýmis mál. Fundurinn með þeim var upplýsandi og góður, ljóst er að Viðlagatrygging gegnir mikilvægu hlutverki og er ákveðinn öryggisventill ef tjón verða af náttúrunnar völdum. Ástæða er til að vekja athygli allra á þætti Viðlagatryggingar í tryggingakerfinu, það á jafnt við um opinbera aðila og allan almenning.

Heimsókn starfsmanna Viðlagatryggingar.
Heimsókn starfsmanna Viðlagatryggingar.

 

Sameiningarmál sveitarfélaga.

Eins og fram hefur komið vinna Garður og Sandgerðisbær að úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna. Ráðgjafar hjá KPMG vinna að verkefninu með stýrihópi skipuðum fulltrúum sveitarfélaganna. Greiningarvinna og upplýsingaöflun er í fullum gangi, síðar í janúar verður framkvæmd netkönnun meðal íbúa þar sem leitað er eftir sjónarmiðum þeirra til ýmissa mála. Í febrúar eru áformaðir íbúafundir og vinnufundir hjá sveitarstjórnarfólki í sveitarfélögunum tveimur. Þetta er spennandi verkefni og verður fróðlegt að sjá hver framvinda þess verður þegar lengra líður á árið.

Þorrablót.

Eins og fram kemur hér að framan þá verður hið víðfræga þorrablót Suðurnesjamanna í Garðinum laugardaginn 21. janúar, en Bóndadagur í upphafi Þorra er að þessu sinni föstudaginn 20. janúar. Knattspyrnufélagið Víðir og Björgunarsveitin Ægir standa að þorrablótinu og sjá um undirbúning og framkvæmd. Þorrablótið verður að venju í íþróttahúsinu og er von á nálægt 600 gestum. Þorrablótin í Garði hafa verið vel sótt og vel heppnuð mörg undanfarin ár, myndarlega að því staðið með skemmtilegri dagskrá. Engin breyting verður á því að þessu sinni. Axel hjá Skólamat sér að vanda til þess að gómsætur þorramatur er fram borinn. Að þessu sinni mun góður nágranni annast veislustjórn, nefnilega Kjartan Már bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Bæjarbúar og gestir eru þegar farnir að undirbúa sig fyrir þorrablótið, þess má geta að mikil aðsókn hefur verið að líkamsræktinni að undanförnu. Líklega kemur þar til annars vegar nokkurs konar endurhæfing eftir jólin og áramótin, en ekki síður uppbygging fyrir þorrablótið.

Þorrablót 2017

Víðir í Garði.

Leikmenn meistaraflokks Víðis eru byrjaðir að undirbúa komandi keppnistímabil. Eins og kunnugt er vann Víðir sér sæti í 2. deild íslandsmótsins á síðasta ári. Bryngeir Torfason var í haust ráðinn þjálfari liðsins og unnið hefur verið að samningum við leikmenn. Nú í vikunni var samið við þá Magnús Þórir Matthíasson og Unnar Má Unnarsson, báðir hafa sterk tengsl við Garðinn. Magnús Þórir er Garðmaður og lék með yngri flokkum Víðis, en hefur undanfarin ár leikið með Keflavík.  Unnar Már hefur sterk fjölskyldutengsl í Garðinn og hefur einnig leikið síðustu árin með Keflavík. Það er mikill og góður liðsstyrkur fyrir Víðir að fá þessa góðu leikmenn til liðs við sig. Þá hefur verið gengið frá samningum við Serbneska leikmenn sem hafa leikið með Víði síðustu tvö ár og koma þeir til æfinga á næstu dögum. Spennandi tími framundan hjá Víði.

Unnar Már og Magnús Þórir.
Unnar Már og Magnús Þórir.

Veðrið.

Nú í vikunni hefur flesta daga verið norðanátt með hægum vindi en svalt. Nokkuð bjart veður og fullur máninn hefur skinið á himni á kvöldin. Það hefur því að mestu verið fallegt vetrarveður en snjólaust, þar til nú undir lok vikunnar þegar snjóaði aðeins til að lita jörðina ljósari lit. Daginn er farið að lengja aftur eftir sólstöður 21. desember.

 

facebooktwittergoogle_plusmail

1. vika 2017.

Gleðilegt nýtt ár !

Ég óska íbúum sveitarfélagsins og landsmönnum öllum gleðilegs og farsæls árs með þökk fyrir liðnu árin. Að þessu sinni var bæjarstjórinn með fjölskyldunni erlendis um jólin og áramót, það var ný upplifun og við áttum góðan tíma saman þessa daga. Hins vegar er jólahald og áramótagleðin á Íslandi eitthvað sem eru nokkuð sérstök fyrirbæri, sérstaklega á það við um gamlárskvöld. Meðan landinn fékk útrás fyrir sprengjuæði og að skjóta á loft ómældu magni flugelda sáust aðeins nokkrir slíkir á lofti þar sem við vorum stödd, en það var ekki síður tilkomumikið og skapaði ákveðna stemmningu.

Það er jafnan eitthvað spennandi við áraskipti, í lok árs er horft yfir árið sem er að líða og rifjað upp það fjölmarga sem átti sér stað á því ári.  Ef ég lít yfir árið 2016 þá var það að flestu leyti mjög gott ár, bæði í persónulega lífinu og í þeim störfum sem unnin voru. Eins og alltaf er líka eitthvað sem var síður jákvætt og hefði jafnvel betur mátt fara, en það fer í reynslubankann til að læra af. Í upphafi nýs árs er jafnan spennandi að horfa fram á veginn, hvaða verkefni eru framundan og hvað er ekki eins augljóst að verða muni.

Framundan eru mörg verkefni sem þarf að vinna að og ljúka á árinu 2017 á vettvangi sveitarfélagsins. Við munum halda áfram að byggja upp góða þjónustu sveitarfélagsins við íbúana og nokkuð verður um framkvæmdir og fjárfestingar á vegum sveitarfélagsins. Unnið er að úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar, í upphafi sumars mun liggja fyrir hvert framhald verður á því verkefni. Í samstarfi við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum er unnið að mörgum spennandi verkefnum. Þar má m.a. nefna skipulagsmál og stefnumótun til framtíðar um uppbyggingu atvinnu-og þróunarsvæðis á Miðnesheiði norðan flugstöðvar. Þá má einnig nefna að unnið er að uppbyggingu ferðaþjónustu í Garði, bæði gistingu og veitingaþjónustu en einnig afþreyingu fyrir ferðafólk. Hér er aðeins stiklað á stóru og margt ekki nefnt til. Í Molum næstu vikur og mánuði verður nánar fjallað um hin fjölmörgu verkefni sem framundan eru.

Jólahúsið 2016.

Fyrir jólin valdi Umhverfisnefnd jólahúsið 2016. Íbúar sveitarfélagsins höfðu send nefndinni tilnefningar um fallega skreyttar húseignir í Garði og tók nefndin síðan afstöðu til þeirra. Að þessu sinni var Skagabraut 16 útnefnt jólahúsið. Við óskum eigendum og nágrönnum bæjarstjórans til hamingju með valið, enda er húsið og garður þess fallega skreytt og með smekklegum ljósaskreytingum sem lýsa upp húsið og næsta nágrenni. Á myndunum hér að neðan má sjá jólahúsið og þegar Brynja Kristjánsdóttir formaður Umhverfisnefndar afhenti Sverri Karlssyni eiganda hússins verðlaunagrip.

Jólahúsið 2016
Jólahúsið 2016
Verðlaun afhent.
Verðlaun afhent.

Áramótabrenna og flugeldasýning.

Að venju var áramótabrenna tendruð á gamlárskvöld ofan við íþróttasvæðið í Garði. Einnig var myndarleg flugeldasýning. Fjöldi manns var við brennuna og fylgdist með flugeldasýningunni. Björgunarsveitin Ægir og Kiwanisklúbburinn Hof önnuðust brennuna og flugeldasýninguna og er þeim þakkað fyrir frábæra framkvæmd og utanumhald þessara viðburða.

Íbúafjöldi í Garði.

Nú um áramót var íbúafjöldi í Sveitarfélaginu Garði 1.511, samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár. Þar með fjölgaði íbúum í sveitarfélaginu um 86 á árinu 2016, eða um liðlega 6%. Nýir íbúar eru boðnir velkomnir til búsetu í sveitarfélaginu og eru hvattir til að kynna sér þá góðu þjónustu sem sveitarfélagið býður upp á.

Þrettándinn.

Í dag 6. janúar er Þrettándinn og þar með rennur jólatíminn sitt skeið á enda. Sums staðar eru mikil hátíðahöld af því tilefni, með brennum og skoteldum ásamt því að víða er hefð fyrir því að börn klæðist grímubúningum og gangi í hús í leit að einhverju gómsætu. Í kvöld verða allir jólasveinarnir komnir aftur til síns heima og hefja undirbúning fyrir næstu jól.

Veðrið.

Meðan bæjarstjórinn spókaði sig í sól og blíðu í sólarlandi um jólin og áramótin var veður rysjótt í Garðinum síðustu vikur desember og núna fyrstu vikuna á nýju ári. Miklar veðursveiflur hafa verið, skipst á hlýindi með rigningu og kaldara veður með snjókomu. Vindasamt hefur verið og er útlit fyrir framhald á þessari veðurtíð fram í næstu viku. Eftir hlýtt og gott haust erum við minnt á að nú er hávetur á Íslandi og því ekki við öðru að búast en við fáum kulda og einhvern snjó.

Góða helgi.

 

facebooktwittergoogle_plusmail

50. vika 2016.

Molar voru í fríi í síðustu viku, en mikið hefur verið um að vera í Garði síðustu tvær vikur og er hér m.a. stiklað á stóru um það.

Jólasamkomur og sýningar.

Félagsstarf eldri borgara hélt sýningu á handverki tengdu jólum í Auðarstofu. Þar var margt til sýnis og ótrúlega fallegt handverk.  Lista-og menningarfélagið í Garði hefur haft opnar sýningar í Sunnubraut 4 nú í aðdraganda jóla. Þar sýna listamenn í Garði verk sín og eru flest þeirra til sölu. Bæjarstjóra var boðið á jólafund Kvenfélagsins Gefnar, þar sem boðið var upp á dýrindis góðan jólamat og bæjarstjórinn flutti stutta tölu. Nú um síðustu helgi var Aðventukvöld í Útskálakirkju þar sem kirkjan var þétt setin. Þar voru ýmis tónlistaratriði og annað, allt í anda aðventunnar og jólanna. Ýmislegt fleira hefur verið um að vera í Garðinum nú um aðventuna og í aðdraganda jóla. Mikil stemmning og svífandi jólaandi í Garðinum nú á aðventunni.

Sýning á jólaföndri í Auðarstofu.
Sýning á jóla handverki í Auðarstofu.

Nemendur tónlistarskólans fara víða.

Nú þegar jólin nálgast og nemendur tónlistarskólans að fara í jólafrí, þá fara þeir víða um bæinn og leika jólatónlist. Eyþór skólastjóri og hans kennarar vinna gott verk í tónlistarskólanum og það er ánægjulegt að hlusta á þeirra nemendur spila og syngja. Núna í vikunni hafa nemendur komið við á nokkrum stöðum og spilað. Þar á meðal er leikskólinn, en myndin hér að neðan er af Facebook síðu leikskólans Gefnarborgar. Í gær, fimmtudag voru jólatónleikar tónlistarskólans í Miðgarði, sal Gerðaskóla. Þar lék m.a. bjöllukór tónlistarskólans, en hann hefur nú verið endurvakin eftir nokkurra ára hlé. Fjölmenni mætti og nemendur stóðu sig með mikilli prýði. Það er dýrmætt að eiga svo góðan tónlistarskóla sem við Garðbúar búum að.

Jólatónleikar í Gefnarborg.
Jólatónleikar í Gefnarborg. Eyþór með nokkrum nemenda sinna.

Bæjarstjórn í síðustu viku, afgreiðsla fjárhagsáætlunar.

Bæjarstjórn fundaði í síðustu viku.  Þar bar hæst afgreiðsla á fjárhagsáætlun, en auk þess voru ýmsar fundargerðir nefnda og stjórna til umfjöllunar og afgreiðslu. Mikil og góð samstaða er í bæjarstjórninni um fjárhagsáætlunina, enda hefur samvinna bæjarfulltrúa og starfsfólks sveitarfélagsins verið til fyrirmyndar. Það leggur grunninn að góðum árangri. Upplýsingar um fjárhagsáætlun má nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is, einnig var umfjöllun um fjárhagsáætlunina í síðustu Molum úr Garði.

Hleðslustöð fyrir rafbíla – Stoppu-stuð !

Nú í vikunni komu starfsmenn frá Orkusölunni færandi hendi. Þeir afhentu sveitarfélaginu hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla, en Orkusalan vinnur að því verkefni að koma upp slíkum hleðslustöðvum í öllum sveitarfélögum. Finna þarf hleðslustöðinni heppilega staðsetningu og vonandi liggur það fyrir áður en langt um líður. Þetta er athyglisvert og þarft verkefni hjá Orkusölunni og fyrir það er þakkað. Hér fyrir neðan er mynd af því þegar bæjarstjóri ásamt Einari Friðrik hjá Umhverfis-, skipulags-og byggingarsviði tóku við hleðslustöðinni úr hendi starfsmanns Orkusölunnar. Nú verður enn meira stuð í Garði !

img_2214

Jólaundirbúningur í skólunum á aðventunni.

Nú nálgast jólin óðfluga, enda langt liðið á aðventuna. Þessa vikuna og fram í þá næstu er stíf dagskrá í Gerðaskóla og leikskólanum Gefnarborg, jólaandinn svífur yfir. Alltaf skemmtileg og kærleiksrík stemmning síðustu dagana í skólunum fyrir jólafrí. Sl. miðvikudag borðuðu allir nemendur og starfsfólk Gerðaskóla saman jólamat í hádeginu. Flutt voru skemmtiatriði og sungin jólalög undir stjórn Vitors Eugenio tónlistarkennara. Hér að neðan eru myndir frá jólahádeginu í Gerðaskóla.

img_3457

img_3444

Í leikskólanum Gefnarborg er borðaður jólamatur í hádeginu í dag, föstudag. Síðar í dag verður svo jólatrésskemmtun leikskólans í Miðgarði í Gerðaskóla. Kærleikurinn og jólastemmningin svífa yfir skólabörnum og starfsfólki skólanna í Garði þessa dagana, enda styttist í að jólahátíðin gangi í garð.

Skötuhlaðborð Víðis.

Í dag, föstudag verður skötuhlaðborð Unglingaráðs Víðis í Samkomuhúsinu, bæði í hádeginu og um kvöldmatarleyti. Þetta er föst hefð í aðdraganda jóla og hefur verið mikil aðsókn undanfarin ár. Gott framtak hjá Víði að halda þessari hefð, því það er ómissandi liður í aðdraganda jóla að fá vel kæsta skötu að borða.

skotuhladbord-vidis-2016

Jólahúsið 2016.

Umhverfisnefnd stendur fyrir vali á jólahúsinu í ár. Íbúum er gefinn kostur á að tilnefna jólahúsið og koma því á framfæri á bæjarskrifstofu. Umhverfisnefndin mun síðan velja jólahúsið og afhenda eigendum þess verðlaun í næstu viku, rétt fyrir jólin. Það eru mörg hús í Garði sem eru fagurlega skreytt og mörg þeirra með miklar ljósaskreytingar. Hins vegar hefur vantað snjóinn til þess að allar þessar fallegu skreytingar njóti sín betur, kannski rætist úr því fyrir jólin. Eigendur jólahússins 2016 fá afhenta forláta verðlaunagrip sem unnin var af Ástu Óskarsdóttur og sjá má hér fyrir neðan. Gripurinn er fjörusteinn alsettur litríkum smásteinum og áletruðum skildi.  Garðbúar eru glysgjarnir nú á aðventunni.

img_2236

Jólaskákmót Samsuð og Krakkaskák.

Á morgun, laugardag verður árlegt jólaskákmót Samsuð og Krakkaskák haldið í Gerðaskóla. Mótið er fyrir alla grunnskólanemendur á Suðurnesjum, framkvæmdaraðili er Siguringi Sigurjónsson hjá Krakkaskák en Siguringi hefur kennt skák við flesta grunnskóla á Suðurnesjum. Við framkvæmd skákmótsins nýtur hann aðstoðar frá Skáksambandi Íslands. Skákmótið verður í Gerðaskóla á morgun kl. 13:00 – 16:00 og eru allir velkomnir til að fylgjast með okkar ungu skáksnillingum etja kappi.

Molar í frí fram yfir áramót.

Þar sem bæjarstjórinn fer í leyfi nú fyrir jól og fram yfir áramót koma næstu molar á nýju ári. Við óskum öllum gleðilegra jóla og þökkum samfylgdina á því ári sem nú er að líða.

facebooktwittergoogle_plusmail

Fjárhagsáætlun Garðs 2017.

Bæjarstjórn hefur samþykkt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2017 og rammaáætlun fyrir árin 2018-2020.  Fjárhagsáætlun ber með sér að sveitarfélagið stendur styrkum fótum fjárhagslega og ágætt jafnvægi er í rekstri.

Rekstraráætlun.

Helstu niðurstöður rekstraráætlunar fyrir árið 2017 eru að heildartekjur verði 1.323 mkr. Skatttekjur eru áætlaðar 771 mkr., þar af útsvarstekjur 677 mkr. Áætluð framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru 373 mkr.  Ef litið er til útgjalda, þá eru laun og launatengd gjöld áætluð að verði 577 mkr., sem er um 43% af heildartekjum. Annar rekstrarkostnaður 633 mkr., eða um 48% af heildartekjum.

Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (framlegð) er áætlaður afgangur 114 mkr., sem er um 9% af heildartekjum.  Niðurstaða rekstrarreiknings eftir afskriftir og fjármagnsliði er afgangur rúmlega 29 mkr.  Ef litið er sérstaklega á A hluta rekstraráætlunar, sem er sveitarsjóðurinn sjálfur þá er áætlaður rekstrarafgangur um 36 mkr.

Gjaldskrá í þágu íbúanna.

Samhliða afgreiðslu fjárhagsáætlunar samþykkti bæjarstjórnin gjaldskrá sveitarfélagsins fyrir árið 2017. Afslættir af álögðum fasteignasköttum elli-og örorkulífeyrisþega eru rýmkaðir, þannig að fleiri munu njóta afslátta. Helstu breytingar á þjónustugjaldskránni eru þær að frá 1. janúar 2017 fá íbúar sveitarfélagsins gjaldfrjálsan aðgang að sundlauginni. Þessi breyting er m.a. í þeim tilgangi að hvetja íbúana til heilsueflingar og aukinnar aðsóknar að sundlauginni. Þá má nefna þá breytingu á gjaldskrá að frá næstu áramótum fá íbúar sveitarfélagsins gjaldfrjáls afnot af safnkosti almenningsbókasafns. Markmið með því er að efla bókmenntamenninguna og auka aðsókn að bókasafninu. Hækkunum á einstökum liðum gjaldskrár er stillt í hóf og áfram verður gjaldskrá Sveitarfélagsins Garðs fyrir einstaka þjónustuliði með því lægsta sem sveitarfélög bjóða.

Sjóðstreymi.

Samkvæmt áætlun um sjóðstreymi ársins 2017, þá er veltufé frá rekstri 129 mkr., sem er tæplega 10% af heildartekjum og handbært fé frá rekstri 124 mkr. Afborganir langtímalána verða rúmlega 7 mkr. og fjárfestingar og framkvæmdir 88,3 mkr. Fjármögnun framkvæmda er alfarið af handbæru fé frá rekstri og ekki er gert ráð fyrir lántökum.

Skuldir og skuldbindingar.

Heildarskuldir og skuldbindingar eru áætlaðar 529 mkr. í árslok 2017. Þar af eru lífeyrisskuldbindingar 203 mkr. og leiguskuldbinding 109 mkr. Sveitarsjóður í A hluta áætlunarinnar er skuldlaus, en B hluti skuldar lánastofnunum 60 mkr. Skuldahlutfallið (hlutfall heildar skulda og skuldbindinga af heildartekjum) er 40%. Þessar staðreyndir eru merki um efnahagslega sterka stöðu sveitarfélagsins.

Fjárhagsleg staða.

Það er ljóst að ef til þess kemur að sveitarfélagið þarf að ráðast í fjárfrekar framkvæmdir á næstu árum, þá getur sveitarfélagið mætt því með góðu móti. Annars vegar er til staðar handbært fé, sem er áætlað að verði um 530 mkr. í árslok 2017, auk þess sem skuldastaðan er með þeim hætti að gott svigrúm er til lántöku vegna fjárfrekra verkefna á næstu árum, ef á þarf að halda. Síðan er afkoma rekstrarins með þeim hætti að sveitarfélagið hefur fjárfestingagetu vel yfir 100 milljónir á ári, ef litið er til þess hvert handbært fé frá rekstri er áætlað.

Fjárhagsáætlun haldi.

Eitt er að reikna út fjárhagsáætlun og annað að fylgja henni eftir þannig að hún haldi. Á undanförnum árum hefur tekist vel til við að fylgja fjárhagsáætlunum. Það hefst með virku kostnaðareftirliti og reglulegri eftirfylgni með þróun rekstrarins allt árið. Það eru lykilatriði, því ef upp koma óvænt tilvik sem hafa áhrif á reksturinn þarf að vera svigrúm til að mæta því og gera nauðsynlegar ráðstafanir. Markmið bæjarstjórnar og starfsfólks sveitarfélagsins er að reksturinn sé í góðu jafnvægi og að þær áætlanir sem samþykktar eru haldi og þeim fylgt eftir. Nýsamþykkt fjárhagsáætlun og afkoma undanfarinna ára ber með sér að það hafi tekist vel og við ætlum að halda áfram á þeirri sömu braut.

Nánari upplýsingar á heimasíðu.

Fjárhagsáætlunin, gögn og upplýsingar sem henni fylgja má finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Þar má einnig finna greinargerð bæjarstjóra með fjárhagsáætlun, þar sem allar helstu upplýsingar liggja fyrir.

 

facebooktwittergoogle_plusmail

48. vika 2016.

Aðventan og jólaljósin.

Nú þegar Aðventan er hafin eru margir húseigendur að koma upp og kveikja á alls kyns ljósaskreytingum á húsum sínum. Sums staðar eru ekki einungis ljósaskreytingar á húsunum, heldur eru ljós á trjám og öðru umhverfis og við húsin. Í Garði eru húseigendur duglegir við að koma upp ljósaskreytingum og fjölgar þeim dag frá degi um þessar mundir sem kveikja á ljósaskreytingum á sínum húsum.

Ljósin kveikt á jólatrénu.

Sl. sunnudag, þann fyrsta í Aðventu voru ljósin tendruð á jólatrénu í hjarta bæjarins. Veður var hið besta og var fjölmenni mætt til að taka þátt.  Flutt var hugvekja, Bergdís Júlía Sveinsdóttir yngsti nemandi Gerðaskóla kveikti ljósin á trénu, Söngsveitin Víkingar sungu jólalög og jólasveinar mættu á staðinn. Þá sá unglingaráð Reynis / Víðis um að reiða fram heitt súkkulaði og piparkökur. Það var ánægjuleg stund sem garðbúar og gestir áttu saman á sunnudaginn við jólatréð. Auk þess var fjölskyldumessa í Útskálakirkju og Kvenfélagið Gefn hélt sinn árlega jólabasar. Aðventustemmning í Garðinum.

Fjölmenni tók þátt í að kveikja ljósin á jólatrénu.
Fjölmenni tók þátt í að kveikja ljósin á jólatrénu.

Jólastemmning í leikskólanum.

Nú í aðdraganda jólanna þarf ýmislegt að gera til að undirbúa jólahátíðina, við það skapast jólastemmning. Börnin í Leikskólanum Gefnarborg leggja sitt af mörkum og taka þátt í undirbúningi jóla. Í vikunni tóku þau til hendi og bökuðu piparkökur, sem eru ómissandi þáttur í aðdraganda jóla. Það var mikil einbeiting og áhugi hjá börnunum við piparkökubaksturinn, eins og sjá má dæmi um á myndinni hér fyrir neðan, sem var fengin á Facebook síðu leikskólans.

Einbeiting við piparkökubakstur.
Einbeiting við piparkökubakstur.

Góður gestur í Gerðaskóla.

Í byrjun vikunnar kom Þorgrímur Þráinsson rithöfundur með meiru í heimsókn í Gerðaskóla. Hann hélt fyrirlestur fyrir nemendur og ræddi við þá um lífið og tilveruna. Þorgrímur er duglegur við að fara víða og tala við nemendur grunnskólanna, þetta framtak hans er gott og lofsvert og ber að þakka honum fyrir það.

Íbúafundur.

Bæjarstjórn boðaði til íbúafundar sl. miðvikudag og var ágæt mæting íbúa á fundinn. Aðal efni fundarins var kynning á tillögu um fjárhagsáætlun næsta árs, sem verður á dagskrá bæjarstjórnar í næstu viku. Fundarmenn voru almennt ánægðir með áætlunina og fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins. Á fundinum var einnig rætt um málefni sveitarfélagsins og fengu íbúar svör við ýmsum spurningum sem bornar voru upp. Svona fundir eru mikilvægir, bæði fyrir sveitarstjórnarfólkið og íbúana þar sem í senn koma fram upplýsingar og tækifæri gefst til umræðu um málefni sveitarfélagsins og íbúa þess.

Veðrið.

Veðurfarið að undanförnu er óvenjulegt ef tekið er mið af árstíma. Hlýindi og rigning af og til. Hitamælirinn við sundlaugina sýndi 7° hita kl. 7:00 í morgun. Það er ekki laust við að margir sakni þess að hafa snævi þakta jörð nú í byrjun Aðventu, ekki er ólíklegt að þeim hinum sömu verði að ósk sinni en ekkert slíkt virðist þó í kortunum næstu daga.

Góða helgi.

facebooktwittergoogle_plusmail

47. vika 2016.

Aðventan gengur í garð.

Nú á sunnudaginn gengur Aðventan í garð og samkvæmt venju verður mikið um að vera í Garði þann dag.

Aðventuhátíð verður í Útskálakirkju kl. 14:00. Kvenfélagskonur í Kvenfélaginu Gefn taka þátt í messunni og kveikt verður á fyrsta aðventukertinu.

Árlegur jólabasar Kvenfélagsins Gefnar verður í Kiwanishúsinu og hefst kl. 15:00. Að venju verður þar margt í boði og allur ágóði rennur í líknarsjóð kvenfélagsins.

Loks verða tendruð ljós á jólatrénu við Gerðaveg 1. Dagskrá hefst kl. 17:00, flutt verður hugvekja og mun yngsti nemandi Gerðaskóla tendra ljósin á jólatrénu. Þá mun Söngsveitin Víkingar syngja nokkkur lög og öllum verður boðið upp á heitt súkkulaði og piparkökur, í umsjón unglingaráðs Víðis. Ekki er líklegt að snjói fram á sunnudag, en fastlega má búast við að einhverjir jólasveinar láti sjá sig.

Garðbúar og gestir eru hvattir til að taka virkan þátt í viðburðum dagsins og njóta samveru við upphaf Aðventu.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur hjá bæjarráði. Þar bar hæst umfjöllun um fjárhagsáætlun næsta árs og var tillögu um áætlun vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn. Þá var lagt fram árshlutayfirlit rekstrarins fyrir tímabilið janúar – september á þessu ári og lítur það allt vel út miðað við fjárhagsáætlun. Fjallað var um tillögu um verklagsreglur félagsþjónustunnar vegna samstarfs sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðis og Voga um félagsþjónustu. Ákveðið var að veita jákvæða umsögn til sýslumanns vegna umsóknar um rekstur heimagistingar, þá var fjallað um erindi frá Öldungaráði Suðurnesja og samþykkt bókun um svar við því. Fyrir bæjarráði lá að fjalla um úthlutunarreglur vegna byggðakvóta og var samþykkt að þær verði óbreyttar frá fyrra ári. Loks lá fyrir fundargerð 1. fundar stýrihóps sem vinnur að úttekt á kostum og göllum sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar. Alltaf í mörg horn að líta hjá bæjarráði.

Íbúafundur.

Bæjarráð ákvað á fundi sínum að boða til íbúafundar miðvikudaginn 30. nóvember kl. 20:00 í Gerðaskóla. Á fundinum verður farið yfir tillögu að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og fjallað um rekstur og fjárhag sveitarfélagsins. Íbúar Garðs eru hvattir til að mæta á íbúafundinn, kynna sér málefni sveitarfélagsins og taka þátt í umræðum um þau.

Starfsfólk félagsmiðstöðvar á faraldsfæti.

Starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar Eldingar fór ásamt Íþrótta-og æskulýðsfulltrúa í vettvangsferð til Reykjavíkur sl. mánudag. Heimsóttar voru félagsmiðstöðvar við þrjá skóla þar sem okkar fólk kynnti sér starfsemi. Starfsmennirnir áttu góð samskipti við forstöðumenn þessara félagsmiðstöðva um starfsemi þeirra, auk þess sem aðstæður voru skoðaðar. Gott framtak hjá okkar fólki og alltaf er gott að skoða og kynna sér starfsemi hjá öðrum, til að læra af og fá nýjar hugmyndir. Það er metnaður hjá okkar fólki að hafa starfsemi félagsmiðstöðvarinnar sem blómlegasta, allt í þágu ungmenna í Garði. Á myndinni hér að neðan má sjá hópinn í einni af félagsmiðstöðvunum í höfuðborginni.

img_3123

Samstarfssamningur við Nes.

Sveitarfélagið Garður og íþróttafélagið Nes hafa átt gott samstarf undanfarin ár. Nýlega var undirritaður nýr samstarfssamningur milli sveitarfélagsins og Nes, sem m.a. felur í sér fjárhagslegan stuðning sveitarfélagsins við starfsemi Nes. Íþróttafólk frá Nes hefur staðið sig mjög vel á íþróttamótum fatlaðra og hafa m.a. keppt fyrir hönd Íslands á alþjóðlegum mótum. Bæjarstjóri og Drífa Birgitta formaður Nes undirrituðu samninginn, að viðstöddum garðmanninum Sigurði Guðmundssyni sem hefur m.a. gert garðinn frægan á knattspyrnuvöllum innanlands og erlendis undanfarin ár.

Bæjarstjóri og fulltrúar Nes.
Bæjarstjóri og fulltrúar Nes.

Veitingahúsið Röstin.

Veitingahúsið Röstin í húsi byggðasafnsins á Garðskaga hefur opnað og býður gesti velkomna. Veitingahúsið er nú opið alla daga frá morgni til kvölds og þar er boðið upp á ljúffenga rétti. Garðskagi ehf rekur veitingahúsið, en félagið hafði áður opnað og rekið kaffihús í gamla vitanum. Það er ánægjulegt að veitingastaður hafi aftur verið opnaður í Garði.

Veðrið.

Eins og verið hefur undanfarnar vikur hefur veðurfar verið frekar rysjótt þessa vikuna. Að mestu hafa verið nokkur hlýindi með suðlægum áttum og yfirleitt rigning. Inn á milli hefur vindáttin snúist í norðlægar áttir með kaldara veðri. Lítið hefur farið fyrir snjó það sem af er haustinu og fram að þessu og næstu daga er útlit fyrir áframhald á suðlægum áttum með nokkrum hlýindum. Framundan er desember mánuður og er ekki ólíklegt að styttist í einhver vetrarveður með tilheyrandi snjó og frosti.

Góða helgi !

 

 

facebooktwittergoogle_plusmail