41. vika 2017.

Vinaliðar.

Nú í vikunni fór fram þjálfun nemenda í Gerðaskóla til að vera vinaliðar.  Vinaliðar stjórna m.a. leikjum á skólalóð í frímínútum, með það að markmiði að vinna gegn einelti og bjóða upp á jákvæða afþreyingu á skólalóð í frímínútum. Eitt helsta verkefni vinaliðanna er að hvetja nemendur til þátttöku í leikjum og huga sérstaklega að nemendum sem eru aleinir í frímínútum. Þetta verkefni er að norskri fyrirmynd og í dag eru um 50 grunnskólar í landinu aðilar að verkefninu. Nemendur fá vinaliða þjálfun tvisvar á skólaári, meðan samningur þar um er í gildi milli skólans og vinaliðanna. Frábært framtak sem hefur gengið vel í Gerðaskóla. Hér er mynd frá þjálfun vinaliðanna í vikunni.

   

Starfsgreinakynning.

Í vikunni stóð Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, ásamt fyrirtækjum og stofnunum á Suðurnesjum, fyrir kynningu á starfsgreinum. Kynningin var ætluð nemendum í 8. – 10. bekkjum grunnskólanna á Suðurnesjum. Þetta verkefni er hluti af Sóknaráætlun Suðurnesja. Meðal þeirra starfsgreina sem voru kynntar eru störf flugmanna, flugreyja, lögreglu og leiðsögumanna. Einnig kennara, slökkviliðsmanna, rafeindafræðinga o.m.fl. Fjöldi ungmenna sóttu kynninguna og var gerður að henni góður rómur.

    

Bæjarráð.

Bæjarráð fundaði í vikunni. Ýmis mál á dagskrá eins og venjulega, en hæst bar að bæjarráð samþykkti að standa að samningi við ríkið um uppgjör á lífeyrisskuldbindingum vegna reksturs hjúkrunarheimila Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum. Mikill og góður áfangi að leysa úr þessu máli, sem hefur mjög lengi valdið deilum milli ríkisins og sveitarfélaga sem hafa tekið að sér að reka hjúkrunarheimili aldraðra fyrir ríkið. Þá var fjallað um fjárhagsáætlun næsta árs og samþykkt tillaga um álagningarhlutfall útsvars árið 2018. Loks lá fyrir endanleg tillaga um húsnæðisáætlun fyrir sveitarfélagið og beindi bæjarráð því til bæjarstjórnar að samþykkja húsnæðisáætlunina.

Sameining sveitarfélaga.

Nú styttist óðum í að íbúar Garðs og Sandgerðisbæjar kjósi um hvort sveitarfélögin verði sameinuð, en kosningin fer fram laugardaginn 11. nóvember. Opnuð hefur verið vefsíða þar sem deilt er ýmsum upplýsingum og kynningarefni, ásamt því að þar koma fram svör við ýmsum spurningum sem upp koma varðandi málið. Vefslóðin er sameining.silfra.is, en einnig má fara á síðuna gegnum heimasíður sveitarfélaganna, svgardur.is og sandgerdi.is. Þá hefur verið opnuð Facebook síðan Kosningar um sameiningu Sandgerðis og Garðs, þar sem einnig mun birtast kynningarefni og upplýsingar. Á næstu dögum verður dreift upplýsingabæklingum í öll hús í Garði og Sandgerði. Frekari kynningar verða auglýstar síðar, m.a. íbúafundir um málið.  Íbúar eru hvattir til að kynna sér efnið, taka afstöðu og umfram allt að mæta á kjörstað og taka þátt í kosningunni 11. nóvember.

Víkingarnir slá í gegn.

Söngsveitin Víkingarnir taka þátt í skemmtilegum þætti á Stöð 2, þar sem hinir ýmsu kórar koma fram keppa um framgang. Víkingarnir komu fram í þættinum 24. september, slógu í gegn og áhorfendur kusu þá áfram í keppninni. Þetta er frábær árangur hjá Víkingunum, enda var framlag þeirra í þættinum mjög vel heppnað og þeir flottir karlarnir. Það verður gaman að fylgjast með hvernig þeim gengur í framhaldinu. Til hamingju Söngsveitin Víkingar !

Fjárhagsáætlun.

Nú stendur sem hæst vinna við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2018 og rammaáætlun fyrir næstu þrjú ár þar á eftir. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun fer fram 1. nóvember, en bæjarstjórn þarf síðan að ljúka við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir 15. desember. Þrátt fyrir að svo geti farið að sveitarfélagið sameinist Sandgerðisbæ, þá vinna sveitarfélögin sínar fjárhagsáætlanir samkvæmt venju enda mun nýtt sameinað sveitarfélag ekki taka til starfa fyrr en í júní á næsta ári, fari svo að sameining verði samþykkt.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

39. vika 2017.

Reykjanes, sjálfbær áfangastaður.

Nú í vikunni var tilkynnt að Reykjanes hafi verið valið einn af 100 sjálfbærustu áfangastöðum í heimi árið 2017. Listi með þessum áfangastöðum var birtur sl. miðvikudag á alþjóðlegum degi ferðaþjónustunnar, en dagurinn í ár er helgaður sjálfbærri ferðaþjónustu. Það eru alþjóðlegu samtökin Green Destinations sem standa að valinu, eins og samtökin hafa gert mörg undanfarin ár. Reykjanes er eini íslenski áfangastaðurinn sem kemst á þennan lista í ár, en meðal áfangastaða á listanum eru Los Angeles, Niagarafossar, Asoreyjar, Höfðaborg, Svalbarði og Ljubliana. Þetta er mikilvæg viðurkenning fyrir Reykjanesið í heild sinni og afar ánægjuleg. Mikið starf hefur verið unnið á undanförnum árum hjá stoðstofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum í þeim anda sem viðurkenningin felur í sér. Reykjanes Jarðvangur og Markaðsstofa Reykjaness hafa m.a. leitt vinnu við gerð áfangastaðaáætlunar fyrir Reykjanes og er sú vinna lengra komin hér en annars staðar á landinu, m.a. vegna samstöðu sveitarfélaganna um gerð Svæðisskipulags fyrir Suðurnesin.

Þessi viðurkenning mun skila sér í aukinni athygli á Reykjanes í heild og ætti að ýta undir áhuga innlendra og erlendra ferðamanna að heimsækja Reykjanesið og njóta þess sem svæðið býður upp á. Þetta er ekki fyrsta alþjóðlega viðurkenningin sem Reykjanesið fær, en Reykjanes Geopark, eða Reykjanes Jarðvangur hefur hlotið viðurkenningu UNESCO og starfar undir merkinu „Reykjanes Unesco Global Geopark“. Kjartan Már Kjartansson formaður stjórnar Reykjanes Geopark veitti viðurkenningu Green Destinations móttöku í gær, fyrir hönd Reykjanes Geopark. Frekari upplýsingar má vinna á vef samtakanna greendestinations.org/2017, eða hjá Þuríði hjá Markaðsstofu Reykjaness.

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði í vikunni. Mest fór fyrir fjárhagslegum málefnum á dagskrá fundarins. Þar á meðal var lögð fram útkomuspá um rekstur sveitarfélagsins á þessu ári. Útlit er fyrir að rekstrarniðurstaða verði ekki lakari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins, þannig að rekstur og fjárhagur sveitarfélagsins stendur áfram á traustum fótum. Þá var fjallað um forsendur fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár, en vinna við gerð fjárhagsáætlunar stendur yfir og mun ljúka með afgreiðslu bæjarstjórnar í byrjun desember. Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár er unnin með hefðbundnum hætti, þótt svo framundan séu kosningar meðal íbúanna um hvort sveitarfélagið verði sameinað Sandgerðisbæ. Þá má nefna að bæjarráð samþykkti að vinna með öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum að því að setja samræmda lögreglusamþykkt sem gildi í umdæmi Lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Lýðheilsuganga.

Síðasta skipulagða lýðheilsuganga mánaðarins var í mörgum sveitarfélögum landsins sl. miðvikudag. Hér í Garði voru tvær skipulagðar göngur. Annars vegar á vegum Auðarstofu, félagsstarfs aldraðra. Gengið var frá gamla vitanum á Garðskaga og göngustíginn með ströndinni að Útskálakirkju. Ingibjörg og Sigurborg Sólmundardætur forstöðukonur félagsstarfsins leiddu gönguna, en Ásgeir Hjálmarsson sagði m.a. frá síðustu ferð MS Goðafoss sem sökkt var af þýska sjóhernum út af Garðskaga í síðari heimsstyrjöldinni.  Hins vegar var á vegum Hreystihóps eldri borgara gengið frá golfskálanum í Leiru upp að Prestsvörðu í leiðsögn Kristjönu Kjartansdóttur. Þar sagði Kristjana frá sögu Sr. Sigurðar Sívertsen sem hafðist við yfir nótt á þeim stað sem varðan er og lifði af aftakaveður. Góð þátttaka var í báðum göngunum og var veður hið besta, sól og hægviðri. Lýðheilsugöngurnar í Garði hafa tekist vel og þátttaka verið góð. Göngurnar hafa verið með sögulegu ívafi þar sem leiðsögufólk hefur rakið sögu þeirra svæða sem gengið var um. Sveitarfélagið þakkar öllum þeim sem hafa tekið að sér leiðsögn lýðheilsuganganna og öllum þeim sem hafa mætt og tekið þátt. Loks þökkum við Ferðafélagi Íslands fyrir frumkvæðið að lýðheilsugöngunum, sem voru skipulagðar í tilefni 90 ára afmælis félagsins. Til hamingju með afmælið Ferðafélag Íslands !

Hér eru myndir frá báðum göngunum á miðvikudag.

Útsvarið.

Í kvöld, föstudag mun lið Garðs etja kappi við lið Grindavíkur í Útsvari Sjónvarpsins. Við óskum þeim Jóni Bergmann, Aðalbirni Heiðari og Elínu Björk góðs gengis og hvetjum alla Garðbúa fyrr og nú til að senda þeim öfluga strauma. Hér er mynd af liði Garðs, kát og glöð og tilbúin í slaginn. Áfram Garður !

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Nú um helgina verður aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) haldinn í Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Auk venjulegra aðalfundarstarfa verða ýmis málefni til umræðu á fundinum. Aðalfundur SSS er mikilvægur vettvangur fyrir sveitarstjórnarfólk til þess að ræða um sameiginleg hagsmunamál sveitarfélaganna og móta stefnu til framtíðar.

Heilsu-og forvarnavika á Suðurnesjum.

Í næstu viku verður Heilsu- og forvarnavika á Suðurnesjum, um er að ræða samstarfsverkefni allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Markmiðið með heilsu- og forvarnavikunni er að draga úr þeim áhættuþáttum sem einstaklingar geta staðið frammi fyrir á lífsleiðinni og hlúa að verndandi þáttum með þátttöku allra íbúa sveitarfélaganna.

Vonast er til að fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök, íþróttafélög og deildir og ýmis tómstundafélög í öllum fimm sveitarfélögunum á Suðurnesjum, taki virkan þátt í verkefninu og bjóði bæjarbúum upp á fjölbreytta og heilsutengda viðburði, tilboð á heilsusamlegum vörum, kynningum og öðru slíku, sem höfðar til sem flestra íbúa.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðum sveitarfélaganna og á vef Víkurfrétta. Hugsum um heilsuna og tökum þátt !

Leikskólinn Gefnarborg og heilsuvikan.

Leikskólinn mun taka virkan þátt í Heilsu-og forvarnavikunni í næstu viku. Á Facebook síðu leikskólans má m.a. sjá auglýsingu frá leikskólanum þar sem foreldrar eru hvattir til að hjóla eða ganga í leikskólann með börnum sínum þessa viku.

Mánaðamót.

Tíminn flýgur hratt, nú er enn og aftur komið að mánaðamótum. Haustið sígur að og jólin nálgast óðfluga. Þótt svo enn sé september, þá eru ýmsar verslanir þegar farnar að tefla fram jólavörum!

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

38. vika 2017.

Útsvarið.

Lið Sveitarfélagsins Garðs mun eins og á síðasta hausti taka þátt í spurningakeppninni Útsvar í Sjónvarpi RUV.  Lið Garðs hefur verið valið, eftirtalin skipa liðið að þessu sinni: Jón Bergmann Heimisson, Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson og Elín Björk Jónasdóttir, sem tók þátt fyrir Garð á síðasta ári. Fyrsta viðureign þeirra verður við sigursælt lið Grindavíkur föstudaginn 29. september nk.  Við óskum okkar fólki góðs gengis í Útsvarinu.  Hér eru myndir af útsvarsliði Garðs við undirbúning.

Framkvæmdir við fráveitu.

Undanfarið hefur verið unnið að úrbótum á fráveitu sveitarfélagsins. Gamlar útrásir fráveitunnar við hafnarsvæðið verða aflagðar en fráveitan tengd við megin útrás út af Þorsteinsbúð. Verkinu er nú nánast lokið, verktaki er Tryggvi Einarsson og hefur verkið gengið vel. Þetta er mikilvægur áfangi í úrbótum á fráveitu sveitarfélagsins og ánægjulegt að honum sé lokið. Hér eru myndir af framkvæmdinni, þar sem m.a. má sjá hve djúpt þarf að grafa til að koma frárennslis lögnum fyrir.

Tónlistarskólinn og félagsmiðstöðin.

Unnið er að því að bæta aðstöðu tónlistarskólans, sem fær allt húsið Sæborgu til afnota en félagsmiðstöðin mun flytjast í Heiðartún 2. Með þessum aðgerðum mun tónlistarskólinn búa við mjög góða aðstöðu, en skólinn hefur verið í þröngu og alls ófullnægjandi aðstöðu í hluta hússins. Félagsmiðstöðin mun flytjast í sama hús og félagsstarf aldraðra er með aðstöðu, þar mun fara vel um kynslóðirnar og verður hluti húsnæðisins nýtanlegur fyrir bæði félagsmiðstöðina og félagsstarf aldraðra. Með þessari breytingu má segja að Heiðartún 2 verði hús kynslóðanna. Framkvæmdir standa yfir og er von til að þeim ljúki fljótlega.

Lýðheilsugöngur.

Undanfarna miðvikudaga hefur verið góð þátttaka í lýðheilsugöngum hér í Garðinum. Góðir leiðsögumenn hafa leitt göngufólk og hafa göngurnar verið með sögulegu ívafi. Hér eru myndir frá göngu í síðustu viku, þá var leiðsögumaður Magnús H Guðmundsson kennari og gengið var í blíðuveðri.

Kosning um sameiningu sveitarfélaga.

Eins og fram hefur komið hafa bæjarstjórnir Garðs og Sandgerðisbæjar ákveðið að íbúar sveitarfélaganna kjósi um hvort sveitarfélögin verða sameinuð. Kjördagur var ákveðinn þann 11. nóvember. Eftir að upp kom að alþingiskosningar verða 28. október var spurning hvort breyta eigi kjördegi sameiningarkosninga. Niðurstaðan er að kosning um sameiningu sveitarfélaganna mun fara fram þann 11. nóvember, eins og áður var ákveðið.

Víðir.

Knattspyrnuliði Víðis hefur gengið vel í 2. deildinni í sumar. Nú undir lok leiktíðarinnar var liðið í góðum færum að vinna sæti í 1. deild að ári, en ekki tókst það að þessu sinni. Síðasti leikur mótsins að þessu sinni verður á morgun, laugardag þegar lið Magna frá Grenivík kemur í heimsókn á Nesfiskvöllinn. Annað kvöld verður lokahóf Víðis í samkomuhúsinu og er að vænta mikillar gleði þar, enda full ástæða til að fagna góðu gengi í sumar.

Veðrið.

Haustið er komið, a.m.k. hafa haustlægðir með roki og rigningu gert sig heimakomnar að undanförnu. Það eru því augljós árstíðaskipti um þessar mundir þar sem haustið er að taka yfir eftir sumartíðina, enda eru nú jafndægur að hausti.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

36. vika 2017.

Bæjarstjórnarfundur.

Á miðvikudaginn var fyrsti reglulegi fundur bæjarstjórnar eftir sumarfrí frá fundum. Lagðar voru fram fundargerðir bæjarráðs af fundum þess undanfarnar vikur, einnig voru á dagskrá fundargerðir fastanefnda sveitarfélagsins og af sameiginlegum vettvangi með öðrum sveitarfélögum. Þá fór fram síðari umræða um álit og tillögu samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Íbúar sveitarfélaganna ákveða með atkvæðagreiðslu laugardaginn 11. nóvember hvort af sameiningu sveitarfélaganna verður. Þess má geta að fundur bæjarstjórnar hófst á hefðbundnum tíma kl. 17:30 og lauk honum 20 mínútum síðar, þannig að bæjarfulltrúar höfðu svigrúm í tíma til að koma sér fyrir framan við sjónvarpsskjái til að fylgjast með landsliði Íslands í knattspyrnu sigra Úkraínu á Laugardalsvelli.

Sameining sveitarfélaga.

Eftir fundi bæjarstjórna Garðs og Sandgerðisbæjar á miðvikudagskvöld var skýrsla KPMG, „Sameining sveitarfélaga – sviðsmyndir um mögulega framtíðarskipan sveitarfélaganna“, birt á heimasíðum sveitarfélaganna. Það kynningarefni sem gefið verður út um málið fram að kosningunum um sameiningu sveitarfélaganna þann 11. nóvember mun birtast á heimasíðunum. Íbúar eru hvattir til að kynna sér málið og taka þátt í atkvæðagreiðslunni þegar þar að kemur.

Gamli vitinn málaður.

Undanfarnar vikur hafa starfsmenn Vegagerðarinnar unnið að viðgerðum og málun gamla vitans á Garðskagatá. Gamli höfðinginn hefur þar með fengið góða andlitslyftingu og er eins og nýr!

Lýðheilsugöngur.

Hátt í 20 manns tóku þátt í lýðheilsugöngu sl. miðvikudag og var gangan að þessu sinni í umsjá Guðríðar S Brynjarsdóttur íþróttakennara. Næsta miðvikudag verður gengið af stað kl. 18:00 frá Gerðaskóla, undir fararstjórn Magnúsar H Guðmundssonar kennara. Íbúar eru hvattir til að taka þátt í þessum skemmtilegu göngutúrum um okkar næsta nágrenni. Lýðheilsugöngur eru í flestum sveitarfélögum á miðvikudögum í september, í tilefni 90 ára afmælis Ferðafélags Íslands. Nánar má finna upplýsingar um lýðheilsugöngur á heimasíðunni fi.is. Nánar um göngur í Garði á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Hér er mynd af gönguhópnum þegar lagt var í gönguna og önnur af þeim bræðrum Jóni og Ásgeiri Hjálmarssonum að rifja upp gamla takta af barnaleikvellinum.

Dagur læsis er í dag.

Í dag þann 8. september er alþjóðadagur læsis, en árið 1965 ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að 8. september skyldi vera dagur læsis ár hvert. Tilgangurinn er að hvetja fólk um allan heim til lestrar, sögusagna eða ljóðalesturs, eða á annan hátt að nota sín tungumál til góðra samskipta. Í anda Sameinuðu þjóðanna eru allir hvattir til að taka virkan þátt í þessu öllu, enda er læsi forsenda fyrir svo mörgu í okkar lífi.

Veðrið.

Þessa vikuna hefur verið ágætt haustveður, en finna má að hitastig fer lækkandi enda færumst við óðum inn í hausttíðina. Þegar þetta er skrifað er bjart veður og sólskin en nokkur norðan gola með svölum vindi.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

35. vika 2017.

Tíminn flýgur áfram!

Eins og hendi sé veifað er kominn 1. september og enn ein vikan flogin hjá. Tíminn flýgur áfram og haustið sígur að. Nú er tími uppskerunnar og berjatínslu, vonandi uppskera sem flestir vel. Nú er einnig að renna upp tími haustlitanna í gróðrinum, fyrir mörgum er þessi árstími í uppáhaldi. Ljósaskiptin eru oft ævintýralega falleg, þegar sólin hnígur við sjóndeildarhringinn. Oft má upplifa fegurð ljósaskiptanna á Garðskaga, myndina hér að neðan tók Jóhann Ísberg á Garðskaga eitt kvöldið fyrir stuttu og þar má sjá sólina síga við sjóndeildarhringinn rétt vestan við Snæfellsjökul.

„Sjáðu jökulinn loga“

Bæjarstjórn.

Sl. mánudag var aukafundur í bæjarstjórn Garðs og var eitt mál á dagskrá fundarins, fyrri umræða um tillögu að sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Samkvæmt lögum á bæjarstjórn að taka málið til umræðu á tveimur fundum, án atkvæðagreiðslu. Síðari umræða um málið verður á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag í næstu viku. Eftir það hefst kynning á tillögunni og ýmsum upplýsingum og gögnum sem liggja að baki. Skýrsla KPMG um málið verður birt á heimasíðu sveitarfélagsins á miðvikudag, eftir síðari umræðu um málið í bæjarstjórn. Gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélagsins um tillöguna fari fram laugardaginn 11. nóvember nk.

Verklok hjá vinnuskólanum.

Nú í vikunni lauk formlega verktíma vinnuskólans. Starfsemin hófst 15. maí og luku flokksstjórar störfum 18. ágúst. Verkstjóri vinnuskólans var Berglind Ellen Pernille Petersen, hún hefur stýrt starfinu einstaklega vel og er enn að störfum. Ásamt Berglindi hefur Einar Friðrik umhverfis-og tæknifulltrúi stýrt verkefnum sumarsins en Guðbrandur frístunda-, menningar-og lýðheilsufulltrúi hefur haldið utan um starfsmannamálin. Vinnuskólinn og þeir sem með honum hafa unnið í sumar fá bestu þakkir fyrir vel unnin störf. Hér eru nokkrar myndir frá sumrinu.

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands.

Nú í september verða lýðheilsugöngur alla miðvikudaga, en tilefnið er 90 ára afmæli Ferðafélags Íslands. Ferðafélagið hefur leitað samstarfs við sveitarfélögin í landinu um þessar göngur og tekur Sveitarfélagið Garður þátt í því. Búið er að skipuleggja gönguferðirnar í samstarfi við ýmsa aðila og eru íbúar Garðs hvattir til að taka þátt. Nánar verða göngurnar auglýstar á heimasíðu sveitarfélagsins og á Facebook og hefjast þær allar kl. 18:00. Eftirtaldir aðilar hafa tekið að sér umsjón með göngunum: 6. september, starfsfólk Íþróttamiðstöðvar. 13. september, kennarar við Gerðaskóla. 20. september, Víðismenn. 27. september, Auðarstofa og hreystihópur.

Drögum úr plastnotkun.

Við vitum öll að plastmengun er orðið alvarlegt vandamál á heimsvísu. Nú í september er sérstakt átak sem miðar að því að hvetja alla til að sleppa allri plastnotkun. Hér með eru allir hvattir til að taka þátt í þessu árverkniátaki, draga úr og helst sleppa allri notkun á plastefnum í þessum mánuði. Í framhaldinu ættum við öll að viðhalda þessu átaki og leggja okkar af mörkum til að draga úr þessari alvarlegu umhverfismengun.

Víðir.

Eftir síðasta leik Víðis er liðið í 3. sæti deildarinnar, aðeins einu stigi frá því að færast upp um deild. Á morgun, laugardag leikur Víðir gegn Tindastól á Sauðárkróki. Baráttukveðjur til Víðismanna með ósk um gott gengi í leiknum í Skagafirðinum.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

34. vika 2017.

Skólastarfið.

Skólastarf er nú að falla í eðlilegan farveg eftir sumarleyfin. Nemendur og starfsfólk skólanna eru boðin velkomin til starfa.

Leikskólinn Gefnarborg hefur nú starfað nokkurn tíma eftir sumarleyfi.  Að venju var tilhlökkun hjá börnunum að hittast aftur og ganga til skólastarfa. Yngstu börnin eru að feta sín fyrstu skref í nýjum heimi skólans, eflaust blendnar tilfinningar hjá sumum þeirra en aðlögunin gengur fljótt yfir.

Gerðaskóli var settur í 145. sinn nú í vikunni. Um 215 nemendur munu stunda nám við skólann í vetur. Eins og fram hefur komið fá nemendur skólans ókeypis skólagögn, sem er góður áfangi að því að kostnaður fjölskyldna grunnskólabarna vegna skólagöngu þeirra verði sem minnstur.

145. setning Gerðaskóla.

Tónlistarskólinn glímir við óvenjulegar aðstæður nú í byrjun skólaársins, þar sem framkvæmdir standa yfir við breytingar á húsnæði skólans. Þegar þeim verður lokið mun tónlistarskólinn starfa við mun betri aðstöðu en áður.

Sumarstörf og framkvæmdir.

Vinnuskólinn og annað starfsfólk sveitarfélagsins hafa unnið frábært starf í sumar. Bærinn hefur verið mjög snyrtilegur og vel við haldið, ásamt því að unnið hefur verið að ýmsum umhverfisverkefnum til að bæta ásýnd bæjarins enn frekar. Fjölmargar framkvæmdir hafa verið í gangi í sumar, stórar og smærri og mikið að gera hjá starfsfólki sveitarfélagsins og verktökum. Enn standa yfir nokkur verkefni sem unnið er að samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Má þar m.a. nefna breytingar á Sæborgu, en tónlistarskólinn mun fá allt húsið til afnota og félagsmiðstöðin flytur í Heiðartún. Þá hófust í vikunni framkvæmdir við fráveitu, útrásir fráveitunnar við hafnarsvæðið verða lagðar af og fráveitan tengd við megin útrás neðan Þorsteinsbúðar.

Fallegasti garðurinn í Garði.

Í gær, fimmtudag veitti Umhverfisnefnd viðurkenningu fyrir fallegasta garðinn í sumar. Viðurkenninguna hlutu eigendur garðsins að Lyngbraut 1, þau Anna Marý Pétursdóttir og Guðmundur Jens Knútsson. Til hamingju með viðurkenninguna. Hér eru myndir af garðinum Lyngbraut 1, það er gróðursælt í Garði!

Hér eru Guðmundur og Anna Marý með verðlaunagripinn, sem gerður var af Ástu Óskarsdóttur.  Með þeim á myndinni eru Brynja Kristjánsdóttir formaður Umhverfisnefndar og Ásta Óskarsdóttir.

Guðmundur og Anna með verðlaunagripinn.

Skipulagsmál.

Bæjarráð hefur staðfest samþykkt Skipulags-og byggingarnefndar um að kynna vinnslutillögu um breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins, sem m.a. nær til breytinga á svæðinu við Rósaselstorg. Einnig var framundan að auglýsa tillögu um nýtt deiliskipulag fyrir íbúabyggð sunnan Skagabrautar. Þá vinnur Skipulags-og byggingarnefnd að breytingum á deiliskipulagi Teiga-og Klapparhverfis, sem miðar m.a. að blandaðri byggð einbýlis-, par-og raðhúsa í stað einungis einbýlishúsa eins og gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir.

Töluverð eftirspurn er eftir lóðum fyrir bæði íbúðarhús og atvinnustarfsemi, sú skipulagsvinna sem er í gangi og hefur verið undanfarnar vikur og mánuði miðar að því að mæta eftirspurn og búa í hag til framtíðar. Þess má geta að á fundi Skipulags-og byggingarnefndar í vikunni voru afgreidd byggingarleyfi vegna 6 íbúða. Allt að gerast !

Sameining sveitarfélaga.

Samstarfsnefnd sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar hefur nú skilað áliti sínu til bæjarstjórna. Framundan er umfjöllun um málið í bæjarstjórnum beggja sveitarfélaganna. Samstarfsnefndin leggur til að íbúar sveitarfélaganna kjósi um það í nóvember hvort sveitarfélögin verða sameinuð. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber að hefja almenna kynningu á málinu a.m.k. tveimur mánuðum fyrir kjördag og mun sú kynning væntanlega hefjast í byrjun september.

Víðir.

Knattspyrnuliði Víðis hefur gengið vel í sumar. Nú er Víðir í 3. sæti 2. deildar og á raunhæfa möguleika á að færast enn ofar og tryggja sér sæti í 1. deild á næsta ári. Næsti leikur liðsins er á heimavelli á morgun, laugardag gegn Sindra frá Höfn.

Facebooktwittergoogle_plusmail

27. vika 2017.

Mikið um að vera í Garði.

Nú í sumar standa yfir fjölmargar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins, eins og áður hefur komið fram í Molum. Í þessari viku var m.a. unnið að því að steypa gangstéttar og vinnuskólinn, ásamt sjálfboðaliðum á vegum Gróður fyrir fólk unnu að gróðursetningu trjáa sunnan við Heiðarholt og Vörðubraut. Nú í vikunni hefur verið unnið að byggingarframkvæmdum við nýtt íbúðarhús við Vörðubraut, lóðum hefur verið úthlutað og töluverð eftirspurn hefur verið eftir lóðum fyrir íbúðarhús. Uppbygging íbúðarhúsnæðis er því að hefjast aftur af fullum krafti eftir margra ára lágdeyðu í þeim efnum. Þá var í vikunni lokið við malbikun við Iðngarða, en fjölmargt fleira mætti nefna til. Hér eru myndir af nokkrum verkefnum þessarar viku.

Steypa gangst 17.1 Gróðursetn 17 Trjágengi 17 Vörðubr 7.17

Forvarnir og sumarfrí hjá vinnuskóla.

Nú í morgun var forvarnadagur í íþróttahúsinu hjá starfsfólki vinnuskólans, þar sem flutt voru fræðsluerindi og farið í leiki. Síðan voru grillaðar pylsur en ungmennin í vinnuskólanum eru nú farin í vikufrí. Flokkstjórar og verkstjóri halda áfram störfum. Ungmennin í vinnuskólanum hefja aftur störf mánudaginn 17. júlí. Starfsfólk sveitarfélagsins hefur unnið gott verk í sumar, við umhirðu bæjarins, gróðurvinnu o.fl. og eru ungmennin í vinnuskólanum vel að því komin að njóta sumarsins næstu vikuna. Nú í sumar hafa börn unnið að kofasmíði og er nú risið myndarlegt kofaþorp við félagsmiðstöðina. Hér eru nokkrar myndir af vinnuskólanum og kofasmíðinni.

20170628_122834 20170628_135038 IMG_6732 Skólagarðar 2017

IMG_7079

Ungmennaráð og sameining sveitarfélaga.

Fulltrúar í Ungmennaráði fengu bæjarstjórann á sinn fund til þess að fræðast um sameiningu sveitarfélaga og þá sérstaklega um þá vinnu sem staðið hefur yfir við greiningu á kostum og göllum sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar. Það var ánægjulegt að ræða við Ungmennaráðið um þessi mál og finna fyrir þeim áhuga sem fulltrúarnir hafa á sveitarstjórarmálum og hugsanlegri sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga.

Ungmennaráð og bæjarstjóri.
Ungmennaráð og bæjarstjóri.

Sumarhátíð vinnuskólanna.

Um síðustu mánaðamót var sumarhátíð vinnuskólanna í Garði, Grindavík, Vogum og  í Sandgerði, þar sem sumarhátíðin var að þessu sinni haldin. Alls tóku um 150 ungmenni og 25 flokkstjórar þátt í sumarhátíðinni sem var í samstarfi við Hitt húsið í Reykjavík. Sumarhátíðin tókst vel, þar sem ungmennin hlutu margvíslega fræðslu, nutu skemmtidagskrár og grillveislu. Gott framtak og gleðin við völd.

20170629_140434

Hremmingar í skipulagsmálum.

Sveitarfélagið Garður hefur nú beðið mánuðum saman eftir því að nýtt aðalskipulag Keflavíkurflugvallar verði staðfest, en nýtt aðalskipulag flugvallarsvæðisins er forsenda þess að hægt verði að gera breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins á svæðinu við Rósaselstorg. Margir aðilar hafa leitað eftir lóðum á því svæði í nágrenni flugstöðvarinnar fyrir atvinnustarfsemi, en til þess að sú uppbygging geti hafist þarf að gera ákveðnar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Skipulagsstofnun tók sér tíma langt umfram lögbundinn afgreiðslufrest til að staðfesta nýtt aðalskipulag Keflavíkurflugvallar, en vísaði því fyrir rest til umhverfisráðherra til afgreiðslu. Umhverfisráðherra hefur nú farið langt umfram lögbundinn afgreiðslufrest og hefur ekki ennþá afgreitt málið. Að öllu eðlilegu hefði Skipulagsstofnun átt að staðfesta skipulagið í maí 2016 og ef umhverfisráðherra virti skipulagsreglugerð hefði ráðherra átt að klára málið í mars 2017. Þessar ótrúlegu tafir á afgreiðslu málsins koma sér mjög illa fyrir sveitarfélagið, flugvallaryfirvöld og fjölmarga aðra aðila sem hafa beðið eftir staðfestingu aðalskipulagsins í meira en eitt ár. Það er dapurlegt að upplifa að stjórnvöld virði ekki þær reglur sem þau setja sjálf og að stjórnsýsla og málsmeðferð Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra sé í því skötulíki sem við blasir í þessu máli.

Skötumessa 2017.

Talandi um skötur, þá verður Skötumessa 2017 haldin í Miðgarði, sal Gerðaskóla miðvikudaginn 19. júlí. Skötumessan er jafnan skemmtilegur viðburður, með ljúffengu sjávarmeti og skemmtiatriðum. Afrakstur kvöldsins rennur til styrktar góðra málefna, en Skötumessan er áhugafélag um velferð fatlaðra.

Víðir.

Knattspyrnuliði Víðis hefur gengið ágætlega í 2. deildinni í sumar. Á þriðjudaginn atti Víðir kappi við Aftureldingu á Nesfisk vellinum og endaði leikurinn með jafntefli. Eftir þennan leik er Víðir í 5. sæti deildarinnar, aðeins 4 stigum frá toppsæti. Áfram Víðir !

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

25. vika 2017.

Sólseturshátíð.

Þessa vikuna hefur verið mikið um að vera í Garðinum. Dagskrá Sólseturshátíðar hófst á þriðjudagskvöld með fjölskyldujóga, hápunktur hátíðarinnar verður á laugardaginn með fjölskyldudagskrá á Garðskaga. Ágæt þátttaka hefur verið á viðburðum í vikunni, enda er dagskráin fjölbreytt og höfðar til allra. Til dæmis var stór hópur sem fór í fróðleiksgöngu um bæinn með leiðsögumanninum Herði Gíslasyni á miðvikudagskvöld. Í gær, fimmtudag opnuðu listamenn í Garði sýningu að Sunnubraut 4, ungir tónlistarmenn héldu tónleika í Gerðaskóla og Golfklúbbur Suðurnesja hélt golfmót í samstarfi við sveitarfélagið þar sem var met þátttaka. Þá var mikið líf og fjör í Íþróttamiðstöðinni þar sem stór hópur hjólaði spinning fram yfir miðnætti. Dagskráin heldur áfram í dag og kvöld, með útigrilli á íþróttasvæðinu við Nesfiskvöllinn og knattspyrnuleik Víðis gegn Tindastól. Eftir leikinn verða tónleikar KK í veitingahúsinu Röst á Garðskaga og deginum lýkur með miðnæturmessu í Útskálakirkju. Á morgun verður mikil dagskrá á Garðskaga, sem mun standa fram undir nóttu.

Bærinn er óðum að klæðast hátíðarskrúða, með litríkum skreytingum í hverfunum og á morgun verða veitt verðlaun fyrir best skreyttu húsin í hverju hverfi.  Víða má finna myndir frá dagskrá hátíðarinnar, til dæmis á Facebook síðunni Sólseturshátíð í Garði. Það er líf og fjör í Garði þessa dagana, við bjóðum gesti velkomna til að njóta með okkur heimafólki .

Söguganga, Hörður Gíslason rauðklæddur leiðsögumaður.
Söguganga, Hörður Gíslason rauðklæddur leiðsögumaður.
Spinning liðið í bláu þema.
Spinning liðið í bláu þema.

Sumarhátíð leikskólans í dag.

Í dag, föstudag verður árleg sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar. Án efa verður gleðin við völd hjá börnunum, enda ber dagskrá dagsins með sér að svo verði. Þess má geta að leikskólinn Gefnarborg er Sólblóma leikskóli og styrkir dreng í Uganda sem heitir Peter, en hann á einmitt afmæli í dag þann 23. júní. Alltaf líf og fjör á leikskólanum.

Framkvæmdir.

Ýmsum sumarverkefnum sveitarfélagsins er þegar lokið, önnur standa yfir og framundan verður mikið um að vera. Nú í vikunni lauk til dæmis framkvæmdum við malbikun Skagabrautar út á Garðskaga, einnig var Norðurljósavegur malbikaður við hótelið Lighthouse Inn. Mikill kraftur er í starfsemi vinnuskólans, enda er byggðarlagið vel hirt og snyrtilegt.

Malbikun Norðurljósavegur.
Malbikun Norðurljósavegur.
Skagabraut að Garðskaga nýmalbikuð.
Skagabraut að Garðskaga nýmalbikuð.

Hreinsun strandarinnar.

Nú á miðvikudaginn var ráðist í það verkefni að hreinsa rusl af ströndinni við Garðskaga. Verkefnið var hluti af samvinnuverkefni Nettó, Bláa hersins, Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og fleiri aðila, sem gengur út á að hreinsa strandlengjuna með Reykjanesi. Tómas Knútsson hjá Bláa hernum stjórnaði hreinsun strandarinnar við Garðskaga eins og herforingi. Við þökkum Tómasi og öðrum þeim sem komu að verkefninu fyrir vel unnið verk.

Tómas hershöfðingi Bláa hersins á Garðskaga.
Tómas hershöfðingi Bláa hersins á Garðskaga.

Samningar.

Sveitarfélagið gerir samninga við ýmsa aðila á mörgum sviðum. Nú hafa verið gerðir samningar við Norræna félagið í Garði og Hollvini Unu í Sjólyst. Um er að ræða framlengingu á fyrri samningum um samstarf sveitarfélagsins við þessi ágætu félagasamtök. Bæjarstjórinn og Erna M Sveinbjarnardóttir formaður beggja félagasamtakanna undirrituðu samningana nú í morgun. Sveitarfélagið á gott samstarf við hin ýmsu félagasamtök í Garði, íbúunum og byggðarlaginu til heilla.

Samningar 2017

Nýr þjálfari hjá Víði.

Víðir hefur skipt um þjálfara meistaraflokks karla í knattspyrnu. Nýr þjálfari er Guðjón Árni Antoníusson, sem nú snýr aftur heim í Víði eftir að hafa leikið með Keflavík og FH mörg undanfarin ár. Guðjón er boðinn velkominn „heim“, með ósk um gott gengi. Fyrsti leikur Víðis undir stjórn Guðjóns verður í kvöld, þegar Tindastóll kemur í heimsókn.

Veðrið.

Undanfarna daga hefur verið frekar kalt í veðri með úrkomu. Lengsti dagur ársins var á miðvikudaginn, en veðrið þann dag minnti frekar á haustdag en hásumar. Vonandi verða veðurguðir garðbúum hliðhollir um helgina.

Góða helgi og gleðilega Sólseturshátíð !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

24. vika 2017.

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní á morgun.

Á morgun þann 17. júní höldum við þjóðhátíðardaginn okkar hátíðlega um land allt. Hér í Garði verða hátíðahöldin með hefðbundnu sniði. Hátíðardagskráin hefst með hátíðarmessu í Útskálakirkju kl. 13, síðan verður skrúðganga frá kirkju og í Gerðaskóla þar sem verður fjölbreytt dagskrá í sal skólans Miðgarði. Þar mætir fjallkonan og ávarpar samkomuna, tónlistaratriði og skemmtidagskrá og hátíðarræða. Garðbúar eru hvattir til að taka virkan þátt í hátíðardagskrá þjóðhátíðardagsins. Nánari upplýsingar um hátíðardagskrána í Garði er að finna á vefsíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Víða um land mun væntanlega verða sungið Hæ hó jibby jei, það er kominn 17. júní o.s.frv. Gleðilega þjóðhátíð !

Íslenski fáninn

Sólseturshátíð framundan.

Í næstu viku og um næstu helgi verður bæjarhátíð garðmanna, Sólseturshátíðin. Dagskráin byrjar þriðjudaginn 20. júní og stigmagnast fram í næstu helgi. Á miðvikudag munu bæjarbúar klæða bæinn hátíðarskrúða og skreyta hverfin með sínum litum. Umhverfisnefnd sveitarfélagsins mun veita viðurkenningar fyrir best skreyttu húsin í hverju hverfi. Megin hluti dagskrárinnar verður laugardaginn 24. júní og verður í gangi dagskrá á hátíðarsvæðinu á Garðskaga frá kl. 13:30 og fram í miðnætti. Dagskrá hátíðarinnar og upplýsingar um hana má finna á Facebook síðunni Sólseturshátíð í Garði, einnig á heimasíðu sveitarfélagsins svgardur.is. Knattspyrnufélagið Víðir ber hitann og þungann af undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar, í samstarfi við Björgunarsveitina Ægir, sveitarfélagið, lögreglu og fleiri aðila. Mikið framundan hjá garðbúum og gestum.

Dagskrá Sólseturshátíðar 2017.

Viðurkenningar fyrir hús hverfanna.
Viðurkenningar fyrir hús hverfanna.

Leikjanámskeið, vinnuskóli o.fl.

Nú í sumarbyrjun hófst sumarstarfsemi fyrir börn og ungmenni í Garði.  Leikjanámskeið fyrir börn sem hafa lokið 1.-6. bekkjum grunnskólans stendur nú yfir, með fjölbreyttri dagskrá og góðri þátttöku. Þá er hafið námskeiðið Skólagarðar og kofabyggð fyrir börn sem hafa lokið 3.-7. bekkjum grunnskólans. Undanfarið hefur staðið yfir sundnámskeið fyrir 5, 6 og 7 ára börn og er aðsókn mikil. Einnig hefur verið boðið upp á vatnsleikfimi fyrir fullorðna í hádeginu virka daga, mikil þátttaka. Þá er vinnuskólinn í fullum gangi. Það er mikið um að vera á vegum sveitarfélagsins, fyrir börn jafnt sem fullorðna í sumar.

Myndir af börnum á leikjanámskeiði:

19030640_1909035659357988_2945892169943195158_n

19146278_1911787069082847_6326502419314933306_n

Myndir af börnum á námskeiðinu Skólagarðar og kofabyggð:

19149036_10211826312847051_4111975359286267616_n

19225183_10211826322927303_8704304530673121314_n

Myndir af sundnámskeiði barna og vatnsleikfimi fullorðinna í sundlauginni:

Sundnámskeið 2017

Vatnsleikfimi 2017

Hjóladagur á leikskólanum.

Nú í morgun komu leikskólabörn með hjólin sín í leikskólann. Mikil umferð hjóla var á aflokuðu bílastæði við leikskólann. Gleðin skein úr andlitum barnanna og þau fengu góða útrás fyrir orkuna.

IMG_2594

IMG_2593

Ferðamenn á Garðskaga.

Eins og áður hefur komið fram er Garðskagi vinsæll ferðamannastaður. Nú í vor og í sumarbyrjun hefur aukist umferð ferðafólks á Garðskaga. Samkvæmt talningu komu um 30.000 gestir á Garðskaga í maí. Veitingastaðurinn Röst hefur notið mikilla vinsælda og fær mjög góða dóma. Byggðasafnið er á sínum stað og opið alla daga. Nú í byrjun júní opnaði kaffihúsið Flösin í gamla vitanum á Garðskagatá. Nú er unnið að því að setja upp sýningar í stóra vitanum og er vonast til að þær opni fljótlega. Auk alls þessa er nokkur fjöldi sem gistir á tjaldsvæðinu. Garðskaginn er sterkur segull sem dregur til sín gesti, enda er upplifunin á svæðinu einstök.

Bæjarráð.

Í vikunni fundaði bæjarráð. Mörg mál voru á dagskrá fundarins, þar má m.a. nefna að lagt var fram skilabréf, samantekt og framkvæmdaáætlun vinnuhóps um stefnumótun í málefnum aldraðra í Garði og Sandgerðisbæ. Það mál verður til frekari umfjöllunar á næstunni. Farið var yfir framkvæmdir ársins, en þar kennir ýmissa grasa. Samþykktar voru breytingar á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning og fjallað var um nokkrar fundargerðir nefnda. Fjölbreytt og mörg viðfangsefni bæjarráðs, að vanda.

Ljósnet í Garði.

Undanfarið hefur Míla unnið að því að tengja öll heimili í Garði við ljósnet. Tilgangur þess er að bæta fjarskipti og auka gæði internet sambanda. Nú er verkefni Mílu lokið þannig að íbúar í Garði eiga þess nú kost að búa við mun meiri gæði nettenginga en verið hefur. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Garðbúar eru vel tengdir.

sandgerdi_ljosnet_3(1)

Loftmyndir – map.is/gardur.

Ótal margt má finna á Internetinu. Eitt af því er slóðin map.is/gardur, sem sveitarfélagið stendur að. Þar má finna loftmyndir af sveitarfélaginu og ýmsar upplýsingar um skipulag, lagnakerfi o.fl. Vefurinn er öllum opinn.

Veðrið.

Framan af vikunni var veðurblíða með glampandi sól. Í morgun hefur veðrið breyst, nú er komin suð-austlæg átt með rigningarskúrum og kaldara lofti. Vætan þarf ekki að koma á óvart, enda er þjóðhátíðardagurinn 17. júní á morgun. Eins og ótrúlega oft áður er von á einhverri úrkomu á þjóðhátíðardaginn.

Góða helgi og gleðilega þjóðhátíð !

Facebooktwittergoogle_plusmail

23. vika 2017.

Vinnuskólinn.

Starfsemi vinnuskólans er hafin af fullum krafti. Vinnuskólinn er mikilvægur liður í starfsemi sveitarfélagsins, enda felur hann í sér margar vinnandi hendur sem vinna að alls konar verkefnum og sjá til þess að umhirða og ásýnd bæjarins sé eins og best verður á kosið.

Bæjarstjórnarfundur.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn. Að venju voru mörg mál á dagskrá, fundargerðir fastanefnda sveitarfélagsins, fundargerðir nefnda og ráða þar sem sveitarfélagið á fulltrúa og svo ýmis önnur mál.

Eitt stærsta málið sem tekið var fyrir á fundinum var tillaga um skipan samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Var samþykkt samhljóða að skipa fulltrúa í nefndina, sem mun vinna eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga um sameiningu sveitarfélaga. Samstarfsnefndin á fyrir 30. júlí að fara yfir gögn og upplýsingar sem fyrir liggja um ýmsar forsendur og kynna þarf íbúunum síðar, ásamt því að skila tillögum til bæjarstjórnanna um kosningu íbúa um tillögu um sameiningu. Eftir það munu bæjarstjórnir sveitarfélaganna taka málið til umræðu á tveimur fundum og ákveða kjördag. Stefnt er að því að þetta liggi fyrir um mánaðamótin ágúst/september.

Á fundinum staðfesti bæjarstjórn afgreiðslur bæjarráðs á ýmsum málum sem fram koma í tveimur fundargerðum bæjarráðs sem voru á dagskrá bæjarstjórnar. Þá má nefna að kosið var í bæjarráð til eins árs, eins og samþykkt um stjórn sveitarfélagsins kveður á um. Fundaáætlun bæjarráðs fram í september var samþykkt og samþykktar voru breytingar á skipan nokkurra nefnda.

Í lok fundarins var samþykkt að bæjarstjórn fari í leyfi frá reglulegum fundum í sumar og var bæjarráði veitt heimild til fullnaðarafgreiðslu mála á meðan. Næsti reglulegur fundur bæjarstjórnar verður í byrjun september, en líklega þarf bæjarstjórn að koma saman áður til að fjalla um tillögur frá samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar.

Ferðamenn.

Nú í byrjun júní hefur umferð ferðafólks aukist mjög í Garðinum og beinist athygli þeirra að Garðskaga. Helsti segullinn sem dregur ferðamenn á Garðskaga eru vitarnir, en þó helst gamli vitinn á garðskagatá. Samkvæmt mælingum koma hátt í 300.000 gestir á Garðskaga á ári og er stór hluti þeirra erlendir ferðamenn. Umhverfið og náttúran á Garðskaga felur í sér einstaka upplifun fyrir þá sem þangað koma. Nú þegar nálgast hásumar og um Jónsmessuna sækja margir í að upplifa sólsetrið, sem er einstaklega fallegt og tilkomumikið þegar miðnætursólin hverfur bak við Snæfellsjökul og Snæfellsnesið. Um vetrartímann sækja margir á Garðskaga til að upplifa Norðurljósin. Þar fyrir utan una gestir sér við að njóta náttúrunnar, margir sækja í fjörurnar sitt hvoru megin við Flösina, skoða dýralífið og jafnvel sitja og horfa út á hafið.

Vitarnir og sólsetur á Garðskaga.

_JOI5071 (1)

Sjómannadagurinn.

Nú á sunnudaginn verður sjómannadagurinn haldinn hátíðlega um land allt. Víða er þessi dagur einn helsti hátíðardagurinn á árinu og í mörgum sjávarbyggðum á sjómannadagurinn djúpar og traustar rætur með hefðbundinni dagskrá. Sjómannadagurinn felur því í sér mikilvæga menningarlega hefð, ekki síður en að hann sé haldinn hátíðlegur til heiðurs sjómönnum og fjölskyldum þeirra og reyndar öllum þeim sem vinna við sjávarútveg almennt. Gleðilegan sjómannadag !

Gunnar Hámundarson á siglingu.
Mb. Gunnar Hámundarson úr Garði á siglingu.

Veðrið.

Veðrið þessa vikuna hefur að mestu einkennst af norðlægum áttum, með svölum vindi og sólskini flesta daga. Inn á milli hafa komið rigningarskúrir. Framan af vikunni hefur verið frekar kalt í veðri, en eftir því sem hefur liðið á vikuna hefur heldur hlýnað í veðri og veðurútlit fyrir komandi helgi er ágætt.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail