27. vika 2017.

Mikið um að vera í Garði.

Nú í sumar standa yfir fjölmargar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins, eins og áður hefur komið fram í Molum. Í þessari viku var m.a. unnið að því að steypa gangstéttar og vinnuskólinn, ásamt sjálfboðaliðum á vegum Gróður fyrir fólk unnu að gróðursetningu trjáa sunnan við Heiðarholt og Vörðubraut. Nú í vikunni hefur verið unnið að byggingarframkvæmdum við nýtt íbúðarhús við Vörðubraut, lóðum hefur verið úthlutað og töluverð eftirspurn hefur verið eftir lóðum fyrir íbúðarhús. Uppbygging íbúðarhúsnæðis er því að hefjast aftur af fullum krafti eftir margra ára lágdeyðu í þeim efnum. Þá var í vikunni lokið við malbikun við Iðngarða, en fjölmargt fleira mætti nefna til. Hér eru myndir af nokkrum verkefnum þessarar viku.

Steypa gangst 17.1 Gróðursetn 17 Trjágengi 17 Vörðubr 7.17

Forvarnir og sumarfrí hjá vinnuskóla.

Nú í morgun var forvarnadagur í íþróttahúsinu hjá starfsfólki vinnuskólans, þar sem flutt voru fræðsluerindi og farið í leiki. Síðan voru grillaðar pylsur en ungmennin í vinnuskólanum eru nú farin í vikufrí. Flokkstjórar og verkstjóri halda áfram störfum. Ungmennin í vinnuskólanum hefja aftur störf mánudaginn 17. júlí. Starfsfólk sveitarfélagsins hefur unnið gott verk í sumar, við umhirðu bæjarins, gróðurvinnu o.fl. og eru ungmennin í vinnuskólanum vel að því komin að njóta sumarsins næstu vikuna. Nú í sumar hafa börn unnið að kofasmíði og er nú risið myndarlegt kofaþorp við félagsmiðstöðina. Hér eru nokkrar myndir af vinnuskólanum og kofasmíðinni.

20170628_122834 20170628_135038 IMG_6732 Skólagarðar 2017

IMG_7079

Ungmennaráð og sameining sveitarfélaga.

Fulltrúar í Ungmennaráði fengu bæjarstjórann á sinn fund til þess að fræðast um sameiningu sveitarfélaga og þá sérstaklega um þá vinnu sem staðið hefur yfir við greiningu á kostum og göllum sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar. Það var ánægjulegt að ræða við Ungmennaráðið um þessi mál og finna fyrir þeim áhuga sem fulltrúarnir hafa á sveitarstjórarmálum og hugsanlegri sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga.

Ungmennaráð og bæjarstjóri.
Ungmennaráð og bæjarstjóri.

Sumarhátíð vinnuskólanna.

Um síðustu mánaðamót var sumarhátíð vinnuskólanna í Garði, Grindavík, Vogum og  í Sandgerði, þar sem sumarhátíðin var að þessu sinni haldin. Alls tóku um 150 ungmenni og 25 flokkstjórar þátt í sumarhátíðinni sem var í samstarfi við Hitt húsið í Reykjavík. Sumarhátíðin tókst vel, þar sem ungmennin hlutu margvíslega fræðslu, nutu skemmtidagskrár og grillveislu. Gott framtak og gleðin við völd.

20170629_140434

Hremmingar í skipulagsmálum.

Sveitarfélagið Garður hefur nú beðið mánuðum saman eftir því að nýtt aðalskipulag Keflavíkurflugvallar verði staðfest, en nýtt aðalskipulag flugvallarsvæðisins er forsenda þess að hægt verði að gera breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins á svæðinu við Rósaselstorg. Margir aðilar hafa leitað eftir lóðum á því svæði í nágrenni flugstöðvarinnar fyrir atvinnustarfsemi, en til þess að sú uppbygging geti hafist þarf að gera ákveðnar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Skipulagsstofnun tók sér tíma langt umfram lögbundinn afgreiðslufrest til að staðfesta nýtt aðalskipulag Keflavíkurflugvallar, en vísaði því fyrir rest til umhverfisráðherra til afgreiðslu. Umhverfisráðherra hefur nú farið langt umfram lögbundinn afgreiðslufrest og hefur ekki ennþá afgreitt málið. Að öllu eðlilegu hefði Skipulagsstofnun átt að staðfesta skipulagið í maí 2016 og ef umhverfisráðherra virti skipulagsreglugerð hefði ráðherra átt að klára málið í mars 2017. Þessar ótrúlegu tafir á afgreiðslu málsins koma sér mjög illa fyrir sveitarfélagið, flugvallaryfirvöld og fjölmarga aðra aðila sem hafa beðið eftir staðfestingu aðalskipulagsins í meira en eitt ár. Það er dapurlegt að upplifa að stjórnvöld virði ekki þær reglur sem þau setja sjálf og að stjórnsýsla og málsmeðferð Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra sé í því skötulíki sem við blasir í þessu máli.

Skötumessa 2017.

Talandi um skötur, þá verður Skötumessa 2017 haldin í Miðgarði, sal Gerðaskóla miðvikudaginn 19. júlí. Skötumessan er jafnan skemmtilegur viðburður, með ljúffengu sjávarmeti og skemmtiatriðum. Afrakstur kvöldsins rennur til styrktar góðra málefna, en Skötumessan er áhugafélag um velferð fatlaðra.

Víðir.

Knattspyrnuliði Víðis hefur gengið ágætlega í 2. deildinni í sumar. Á þriðjudaginn atti Víðir kappi við Aftureldingu á Nesfisk vellinum og endaði leikurinn með jafntefli. Eftir þennan leik er Víðir í 5. sæti deildarinnar, aðeins 4 stigum frá toppsæti. Áfram Víðir !

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

25. vika 2017.

Sólseturshátíð.

Þessa vikuna hefur verið mikið um að vera í Garðinum. Dagskrá Sólseturshátíðar hófst á þriðjudagskvöld með fjölskyldujóga, hápunktur hátíðarinnar verður á laugardaginn með fjölskyldudagskrá á Garðskaga. Ágæt þátttaka hefur verið á viðburðum í vikunni, enda er dagskráin fjölbreytt og höfðar til allra. Til dæmis var stór hópur sem fór í fróðleiksgöngu um bæinn með leiðsögumanninum Herði Gíslasyni á miðvikudagskvöld. Í gær, fimmtudag opnuðu listamenn í Garði sýningu að Sunnubraut 4, ungir tónlistarmenn héldu tónleika í Gerðaskóla og Golfklúbbur Suðurnesja hélt golfmót í samstarfi við sveitarfélagið þar sem var met þátttaka. Þá var mikið líf og fjör í Íþróttamiðstöðinni þar sem stór hópur hjólaði spinning fram yfir miðnætti. Dagskráin heldur áfram í dag og kvöld, með útigrilli á íþróttasvæðinu við Nesfiskvöllinn og knattspyrnuleik Víðis gegn Tindastól. Eftir leikinn verða tónleikar KK í veitingahúsinu Röst á Garðskaga og deginum lýkur með miðnæturmessu í Útskálakirkju. Á morgun verður mikil dagskrá á Garðskaga, sem mun standa fram undir nóttu.

Bærinn er óðum að klæðast hátíðarskrúða, með litríkum skreytingum í hverfunum og á morgun verða veitt verðlaun fyrir best skreyttu húsin í hverju hverfi.  Víða má finna myndir frá dagskrá hátíðarinnar, til dæmis á Facebook síðunni Sólseturshátíð í Garði. Það er líf og fjör í Garði þessa dagana, við bjóðum gesti velkomna til að njóta með okkur heimafólki .

Söguganga, Hörður Gíslason rauðklæddur leiðsögumaður.
Söguganga, Hörður Gíslason rauðklæddur leiðsögumaður.
Spinning liðið í bláu þema.
Spinning liðið í bláu þema.

Sumarhátíð leikskólans í dag.

Í dag, föstudag verður árleg sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar. Án efa verður gleðin við völd hjá börnunum, enda ber dagskrá dagsins með sér að svo verði. Þess má geta að leikskólinn Gefnarborg er Sólblóma leikskóli og styrkir dreng í Uganda sem heitir Peter, en hann á einmitt afmæli í dag þann 23. júní. Alltaf líf og fjör á leikskólanum.

Framkvæmdir.

Ýmsum sumarverkefnum sveitarfélagsins er þegar lokið, önnur standa yfir og framundan verður mikið um að vera. Nú í vikunni lauk til dæmis framkvæmdum við malbikun Skagabrautar út á Garðskaga, einnig var Norðurljósavegur malbikaður við hótelið Lighthouse Inn. Mikill kraftur er í starfsemi vinnuskólans, enda er byggðarlagið vel hirt og snyrtilegt.

Malbikun Norðurljósavegur.
Malbikun Norðurljósavegur.
Skagabraut að Garðskaga nýmalbikuð.
Skagabraut að Garðskaga nýmalbikuð.

Hreinsun strandarinnar.

Nú á miðvikudaginn var ráðist í það verkefni að hreinsa rusl af ströndinni við Garðskaga. Verkefnið var hluti af samvinnuverkefni Nettó, Bláa hersins, Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og fleiri aðila, sem gengur út á að hreinsa strandlengjuna með Reykjanesi. Tómas Knútsson hjá Bláa hernum stjórnaði hreinsun strandarinnar við Garðskaga eins og herforingi. Við þökkum Tómasi og öðrum þeim sem komu að verkefninu fyrir vel unnið verk.

Tómas hershöfðingi Bláa hersins á Garðskaga.
Tómas hershöfðingi Bláa hersins á Garðskaga.

Samningar.

Sveitarfélagið gerir samninga við ýmsa aðila á mörgum sviðum. Nú hafa verið gerðir samningar við Norræna félagið í Garði og Hollvini Unu í Sjólyst. Um er að ræða framlengingu á fyrri samningum um samstarf sveitarfélagsins við þessi ágætu félagasamtök. Bæjarstjórinn og Erna M Sveinbjarnardóttir formaður beggja félagasamtakanna undirrituðu samningana nú í morgun. Sveitarfélagið á gott samstarf við hin ýmsu félagasamtök í Garði, íbúunum og byggðarlaginu til heilla.

Samningar 2017

Nýr þjálfari hjá Víði.

Víðir hefur skipt um þjálfara meistaraflokks karla í knattspyrnu. Nýr þjálfari er Guðjón Árni Antoníusson, sem nú snýr aftur heim í Víði eftir að hafa leikið með Keflavík og FH mörg undanfarin ár. Guðjón er boðinn velkominn „heim“, með ósk um gott gengi. Fyrsti leikur Víðis undir stjórn Guðjóns verður í kvöld, þegar Tindastóll kemur í heimsókn.

Veðrið.

Undanfarna daga hefur verið frekar kalt í veðri með úrkomu. Lengsti dagur ársins var á miðvikudaginn, en veðrið þann dag minnti frekar á haustdag en hásumar. Vonandi verða veðurguðir garðbúum hliðhollir um helgina.

Góða helgi og gleðilega Sólseturshátíð !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

24. vika 2017.

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní á morgun.

Á morgun þann 17. júní höldum við þjóðhátíðardaginn okkar hátíðlega um land allt. Hér í Garði verða hátíðahöldin með hefðbundnu sniði. Hátíðardagskráin hefst með hátíðarmessu í Útskálakirkju kl. 13, síðan verður skrúðganga frá kirkju og í Gerðaskóla þar sem verður fjölbreytt dagskrá í sal skólans Miðgarði. Þar mætir fjallkonan og ávarpar samkomuna, tónlistaratriði og skemmtidagskrá og hátíðarræða. Garðbúar eru hvattir til að taka virkan þátt í hátíðardagskrá þjóðhátíðardagsins. Nánari upplýsingar um hátíðardagskrána í Garði er að finna á vefsíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Víða um land mun væntanlega verða sungið Hæ hó jibby jei, það er kominn 17. júní o.s.frv. Gleðilega þjóðhátíð !

Íslenski fáninn

Sólseturshátíð framundan.

Í næstu viku og um næstu helgi verður bæjarhátíð garðmanna, Sólseturshátíðin. Dagskráin byrjar þriðjudaginn 20. júní og stigmagnast fram í næstu helgi. Á miðvikudag munu bæjarbúar klæða bæinn hátíðarskrúða og skreyta hverfin með sínum litum. Umhverfisnefnd sveitarfélagsins mun veita viðurkenningar fyrir best skreyttu húsin í hverju hverfi. Megin hluti dagskrárinnar verður laugardaginn 24. júní og verður í gangi dagskrá á hátíðarsvæðinu á Garðskaga frá kl. 13:30 og fram í miðnætti. Dagskrá hátíðarinnar og upplýsingar um hana má finna á Facebook síðunni Sólseturshátíð í Garði, einnig á heimasíðu sveitarfélagsins svgardur.is. Knattspyrnufélagið Víðir ber hitann og þungann af undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar, í samstarfi við Björgunarsveitina Ægir, sveitarfélagið, lögreglu og fleiri aðila. Mikið framundan hjá garðbúum og gestum.

Dagskrá Sólseturshátíðar 2017.

Viðurkenningar fyrir hús hverfanna.
Viðurkenningar fyrir hús hverfanna.

Leikjanámskeið, vinnuskóli o.fl.

Nú í sumarbyrjun hófst sumarstarfsemi fyrir börn og ungmenni í Garði.  Leikjanámskeið fyrir börn sem hafa lokið 1.-6. bekkjum grunnskólans stendur nú yfir, með fjölbreyttri dagskrá og góðri þátttöku. Þá er hafið námskeiðið Skólagarðar og kofabyggð fyrir börn sem hafa lokið 3.-7. bekkjum grunnskólans. Undanfarið hefur staðið yfir sundnámskeið fyrir 5, 6 og 7 ára börn og er aðsókn mikil. Einnig hefur verið boðið upp á vatnsleikfimi fyrir fullorðna í hádeginu virka daga, mikil þátttaka. Þá er vinnuskólinn í fullum gangi. Það er mikið um að vera á vegum sveitarfélagsins, fyrir börn jafnt sem fullorðna í sumar.

Myndir af börnum á leikjanámskeiði:

19030640_1909035659357988_2945892169943195158_n

19146278_1911787069082847_6326502419314933306_n

Myndir af börnum á námskeiðinu Skólagarðar og kofabyggð:

19149036_10211826312847051_4111975359286267616_n

19225183_10211826322927303_8704304530673121314_n

Myndir af sundnámskeiði barna og vatnsleikfimi fullorðinna í sundlauginni:

Sundnámskeið 2017

Vatnsleikfimi 2017

Hjóladagur á leikskólanum.

Nú í morgun komu leikskólabörn með hjólin sín í leikskólann. Mikil umferð hjóla var á aflokuðu bílastæði við leikskólann. Gleðin skein úr andlitum barnanna og þau fengu góða útrás fyrir orkuna.

IMG_2594

IMG_2593

Ferðamenn á Garðskaga.

Eins og áður hefur komið fram er Garðskagi vinsæll ferðamannastaður. Nú í vor og í sumarbyrjun hefur aukist umferð ferðafólks á Garðskaga. Samkvæmt talningu komu um 30.000 gestir á Garðskaga í maí. Veitingastaðurinn Röst hefur notið mikilla vinsælda og fær mjög góða dóma. Byggðasafnið er á sínum stað og opið alla daga. Nú í byrjun júní opnaði kaffihúsið Flösin í gamla vitanum á Garðskagatá. Nú er unnið að því að setja upp sýningar í stóra vitanum og er vonast til að þær opni fljótlega. Auk alls þessa er nokkur fjöldi sem gistir á tjaldsvæðinu. Garðskaginn er sterkur segull sem dregur til sín gesti, enda er upplifunin á svæðinu einstök.

Bæjarráð.

Í vikunni fundaði bæjarráð. Mörg mál voru á dagskrá fundarins, þar má m.a. nefna að lagt var fram skilabréf, samantekt og framkvæmdaáætlun vinnuhóps um stefnumótun í málefnum aldraðra í Garði og Sandgerðisbæ. Það mál verður til frekari umfjöllunar á næstunni. Farið var yfir framkvæmdir ársins, en þar kennir ýmissa grasa. Samþykktar voru breytingar á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning og fjallað var um nokkrar fundargerðir nefnda. Fjölbreytt og mörg viðfangsefni bæjarráðs, að vanda.

Ljósnet í Garði.

Undanfarið hefur Míla unnið að því að tengja öll heimili í Garði við ljósnet. Tilgangur þess er að bæta fjarskipti og auka gæði internet sambanda. Nú er verkefni Mílu lokið þannig að íbúar í Garði eiga þess nú kost að búa við mun meiri gæði nettenginga en verið hefur. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Garðbúar eru vel tengdir.

sandgerdi_ljosnet_3(1)

Loftmyndir – map.is/gardur.

Ótal margt má finna á Internetinu. Eitt af því er slóðin map.is/gardur, sem sveitarfélagið stendur að. Þar má finna loftmyndir af sveitarfélaginu og ýmsar upplýsingar um skipulag, lagnakerfi o.fl. Vefurinn er öllum opinn.

Veðrið.

Framan af vikunni var veðurblíða með glampandi sól. Í morgun hefur veðrið breyst, nú er komin suð-austlæg átt með rigningarskúrum og kaldara lofti. Vætan þarf ekki að koma á óvart, enda er þjóðhátíðardagurinn 17. júní á morgun. Eins og ótrúlega oft áður er von á einhverri úrkomu á þjóðhátíðardaginn.

Góða helgi og gleðilega þjóðhátíð !

Facebooktwittergoogle_plusmail

23. vika 2017.

Vinnuskólinn.

Starfsemi vinnuskólans er hafin af fullum krafti. Vinnuskólinn er mikilvægur liður í starfsemi sveitarfélagsins, enda felur hann í sér margar vinnandi hendur sem vinna að alls konar verkefnum og sjá til þess að umhirða og ásýnd bæjarins sé eins og best verður á kosið.

Bæjarstjórnarfundur.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn. Að venju voru mörg mál á dagskrá, fundargerðir fastanefnda sveitarfélagsins, fundargerðir nefnda og ráða þar sem sveitarfélagið á fulltrúa og svo ýmis önnur mál.

Eitt stærsta málið sem tekið var fyrir á fundinum var tillaga um skipan samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Var samþykkt samhljóða að skipa fulltrúa í nefndina, sem mun vinna eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga um sameiningu sveitarfélaga. Samstarfsnefndin á fyrir 30. júlí að fara yfir gögn og upplýsingar sem fyrir liggja um ýmsar forsendur og kynna þarf íbúunum síðar, ásamt því að skila tillögum til bæjarstjórnanna um kosningu íbúa um tillögu um sameiningu. Eftir það munu bæjarstjórnir sveitarfélaganna taka málið til umræðu á tveimur fundum og ákveða kjördag. Stefnt er að því að þetta liggi fyrir um mánaðamótin ágúst/september.

Á fundinum staðfesti bæjarstjórn afgreiðslur bæjarráðs á ýmsum málum sem fram koma í tveimur fundargerðum bæjarráðs sem voru á dagskrá bæjarstjórnar. Þá má nefna að kosið var í bæjarráð til eins árs, eins og samþykkt um stjórn sveitarfélagsins kveður á um. Fundaáætlun bæjarráðs fram í september var samþykkt og samþykktar voru breytingar á skipan nokkurra nefnda.

Í lok fundarins var samþykkt að bæjarstjórn fari í leyfi frá reglulegum fundum í sumar og var bæjarráði veitt heimild til fullnaðarafgreiðslu mála á meðan. Næsti reglulegur fundur bæjarstjórnar verður í byrjun september, en líklega þarf bæjarstjórn að koma saman áður til að fjalla um tillögur frá samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar.

Ferðamenn.

Nú í byrjun júní hefur umferð ferðafólks aukist mjög í Garðinum og beinist athygli þeirra að Garðskaga. Helsti segullinn sem dregur ferðamenn á Garðskaga eru vitarnir, en þó helst gamli vitinn á garðskagatá. Samkvæmt mælingum koma hátt í 300.000 gestir á Garðskaga á ári og er stór hluti þeirra erlendir ferðamenn. Umhverfið og náttúran á Garðskaga felur í sér einstaka upplifun fyrir þá sem þangað koma. Nú þegar nálgast hásumar og um Jónsmessuna sækja margir í að upplifa sólsetrið, sem er einstaklega fallegt og tilkomumikið þegar miðnætursólin hverfur bak við Snæfellsjökul og Snæfellsnesið. Um vetrartímann sækja margir á Garðskaga til að upplifa Norðurljósin. Þar fyrir utan una gestir sér við að njóta náttúrunnar, margir sækja í fjörurnar sitt hvoru megin við Flösina, skoða dýralífið og jafnvel sitja og horfa út á hafið.

Vitarnir og sólsetur á Garðskaga.

_JOI5071 (1)

Sjómannadagurinn.

Nú á sunnudaginn verður sjómannadagurinn haldinn hátíðlega um land allt. Víða er þessi dagur einn helsti hátíðardagurinn á árinu og í mörgum sjávarbyggðum á sjómannadagurinn djúpar og traustar rætur með hefðbundinni dagskrá. Sjómannadagurinn felur því í sér mikilvæga menningarlega hefð, ekki síður en að hann sé haldinn hátíðlegur til heiðurs sjómönnum og fjölskyldum þeirra og reyndar öllum þeim sem vinna við sjávarútveg almennt. Gleðilegan sjómannadag !

Gunnar Hámundarson á siglingu.
Mb. Gunnar Hámundarson úr Garði á siglingu.

Veðrið.

Veðrið þessa vikuna hefur að mestu einkennst af norðlægum áttum, með svölum vindi og sólskini flesta daga. Inn á milli hafa komið rigningarskúrir. Framan af vikunni hefur verið frekar kalt í veðri, en eftir því sem hefur liðið á vikuna hefur heldur hlýnað í veðri og veðurútlit fyrir komandi helgi er ágætt.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

22. vika 2017.

Íbúafundur um hugsanlega sameiningu sveitarfélaga.

Sl. miðvikudag var boðað til íbúafundar í Gerðaskóla, þar sem kynntar voru helstu niðurstöður í úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Mæting var ágæt, fram komu ýmsar spurningar um málið og urðu ágætar umræður. Bæjarstjórn mun í næstu viku taka ákvörðun um framhald málsins, en ef af verður má reikna með að íbúar munu taka afstöðu til málsins með kosningu næsta haust.

IMG_2517

Gerðaskóli – skólaslit.

Nú er komið að lokum skólaársins hjá nemendum og starfsfólki Gerðaskóla, en skólaslit verða í dag föstudag. Að baki er viðburðaríkur vetur, bæði í námi og félagslífi nemenda. Þessa vikuna hafa nemendur sinnt ýmsum verkefnum, sem dæmi voru allir bekkir út og suður í gær fimmtudag. Einhverjir fóru til dæmis í Húsdýragarðinn og aðrir voru í ýmiskonar útiveru og ferðum. Nemendur í 10. bekk útskrifast frá grunnskólanum í dag og við tekur spennandi tími hjá þeim, þeir fá sérstakar óskir um farsæld í framtíðinni. Nemendur Gerðaskóla fá árnaðaróskir á þessum tímamótum og starfsfólk skólans þakkir fyrir vel unnin störf á liðnu skólaári.

Vinnuskólinn.

Eins og fram hefur komið er sumarstarf vinnuskólans hafið, með tilheyrandi grasslætti og gróðurvinnu. Verk-og flokkstjórar hafa verið að undirbúa verkefni sumarsins með ungmennum í vinnuskólanum, meðal annars með fundum og yfirferð yfir fjölbreytt verkefni framundan. Hér er mynd frá fundi þeirra með Guðbrandi frístunda-, menningar-og lýðheilsufulltrúa, sem heldur utan um starfsemi vinnuskólans.

IMG_2520

Tónleikar í Garðskagavita.

Í gærkvöldi, fimmtudag voru tónleikar í Garðskagavita. Tónleikarnir voru af dagskránni Söngvaskáld á Suðurnesjum og voru hluti af dagskrá Jarðvangsviku á Suðurnesjum. Tónleikarnir tókust vel og hljómburðurinn í vitanum naut sín, en það er eftirsóknarvert meðal tónlistarmanna að flytja tónlist í vitanum þar sem hljómburður er einstakur og mikil upplifun fyrir tónleikagesti. Skemmtilegt framtak.

Hótel Ligthouse Inn í Garði.

Eins og fram hefur komið hefur nýtt hótel opnað í Garði, Hótel Lighthouse Inn. Bræðurnir Gísli, Þorsteinn og Einar Heiðarssynir standa að uppbyggingu og rekstri hótelsins, en þeir hafa síðustu ár rekið gistiheimilið Garð. Hótelið er hið glæsilegasta, hlýlegt og smekklega innréttað. Hér að neðan eru þeir bræður í afgreiðslu hótelsins. Til hamingju með nýtt og glæsilegt hótel !

Bræðurnir Einar, Þorsteinn og Gísli Heiðarssynir.
Bræðurnir Einar, Þorsteinn og Gísli Heiðarssynir.

Víðir úr leik í bikarnum !

Í vikunni fór fram stórleikur á Nesfiskvellinum í Garði, en þá tók Víðir á móti Fylki í 16 liða úrslitum bikarkeppni KSÍ, Borgunarbikarnum. Fjöldi áhorfenda mætti á völlinn í blíðskaparveðri, enda mikið í húfi. Þegar upp var staðið bar Fylkir sigurorð af Víði 5-0, en miðað við hvernig leikurinn spilaðist geta Víðismenn borið höfuðið hátt því leikur liðsins var á stórum köflum mjög góður. Framundan er leikur gegn Völsungi á Húsavík í 2. deildinni og fá Víðismenn baráttukveðjur fyrir þann leik.

Veðrið.

Þessa vikuna hefur veður verið frekar erfitt og leiðinlegt. Sunnan áttir og rigning, á köflum hefur verið hreint úrhelli. Inn á milli hefur þó rofað til og á miðvikudag var hægviðri og glampandi sól, meðal annars meðan stórleikur Víðis og Fylkis stóð yfir á Nesfiskvellinum.

Hvítasunnuhelgi framundan.

Framundan er Hvítasunnan og eflaust verða margir á ferðinni nú um helgina, enda löng helgi með frídegi á mánudaginn, annan í Hvítasunnu. Ferðalangar eru hvattir til að fara varlega í umferðinni og gæta að öryggi sínu og annarra.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

21. vika 2017.

Vegna leyfis og fjarvista bæjarstjórans hefur lítið verið um mola síðustu tvær vikur. Nú er þráðurinn tekinn upp þar sem frá var horfið.

Gerðaskóli.

Það er vorbragur yfir nemendum og starfsfólki Gerðaskóla. Í gær fimmtudagt var árleg vorhátíð, með tilheyrandi skemmtidagskrá og stemmningu. Nemendur, foreldrar og starfsfólk skólans fjölmenntu í besta vorveðri, farið var í ýmsa leiki, grillaðar pylsur og hlutavelta, svo eitthvað sé nefnt. Auk þess kepptu nemendur við foreldra í knattspyrnu og nemendur í elstu bekkjum öttu kappi við kennara í körfubolta. Fyrr í vikunni var hjóladagur í skólanum, þar sem lögreglan heimsótti nemendur og fór yfir öryggisatriði varðandi reiðhjól. Framundan eru skólalok með tilheyrandi skólaslitum og útskrift elstu nemenda frá skólanum.

Hjóladagur í Gerðaskóla.
Hjóladagur í Gerðaskóla.

Hér eru myndir frá vorhátíð Gerðaskóla.

Gerðask.vorhátíð17

Gerðask.vorhátíð17.2

Leikskólinn Gefnarborg.

Í byrjun vikunnar var hátíð í Gefnarborg, þegar elsti árgangur barna í leikskólanum var formlega útskrifaður frá leikskólanum og hjá þeim börnum tekur við innskráning í 1. bekk grunnskólans í haust. Þetta eru mikil tímamót hjá börnunum, í bland við hátíðleikann mátti greina vissan söknuð bæði hjá börnunum og starfsfólki leikskólans, enda hafa þau fylgst að undanfarin ár á mikilvægu þroskaskeiði barnanna.

Vinnuskólinn farinn af stað.

Starfsemi vinnuskólans er hafin, en fer í full afköst í byrjun júní.  Ekki veitir af því að hefja starfsemina, því grasið sprettur svo hratt um þessar mundir að það má nánast heyra í sprettunni.  Fyrir stuttu voru verkstjórar vinnuskólans á skyndihjálparnámskeiði, enda mikilvægt fyrir þau að hafa þekkingu á skyndihjálp.

Verkstjórar vinnuskóla á námskeiði í skyndihjálp.
Verkstjórar vinnuskóla á námskeiði í skyndihjálp.

Fræðsluferð starfsfólks íþróttamiðstöðvar.

Starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar þarf að hafa góða þekkingu á umhverfi sínu, ekki síst vegna þess að margir ferðamenn sækja í sundlaugina og leita eftir upplýsingum um Suðurnesin hjá starfsfólkinu. Til þess að skerpa á þekkingunni fór starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar í Garði, ásamt kollegum sínum í Sandgerði í fræðsluferð um Suðurnesin. Eftir þessa fræðsluferð ætti starfsfólkið að hafa meiri og betri upplýsingar en áður til að miðla til ferðamanna. Þetta var gott framtak hjá starfsfólkinu.

Starfsfólk íþróttamiðstöðva á Reykjanestá.
Starfsfólk íþróttamiðstöðva á Reykjanestá.

Sameining sveitarfélaga.

Starfshópur fulltrúa sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar hefur síðan í haust unnið að úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna. Starfshópurinn fékk ráðgjafa hjá KPMG til samstarfs og nú liggja fyrir niðurstöður verkefnisins. Næsta mánudag verður íbúafundur í Sandgerði, þar sem niðurstöður verða kynntar og á miðvikudag verður íbúafundur í Garði. Vonandi fjölmenna íbúarnir á þessa fundi til að kynna sér málið. Í framhaldinu munu bæjarstjórnir sveitarfélaganna taka ákvarðanir um framhald málsins.

Hótelið opnað.

Nú hefur verið opnað nýtt og glæsilegt hótel í Garði, Hotel Lighthouse Inn. Bygging hótelsins hefur tekið um það bil eitt ár og fyrstu gestirnir hafa notið verunnar á hótelinu. Það er fyrirtækið GSE ehf., sem stendur að byggingu og rekstri hótelsins og er þeim óskað til hamingju með þetta nýja og glæsilega hótel.

Víðir 

Víðir hefur farið vel af stað á nýhöfnu keppnistímabili 2. deildar. Liðið lítur vel út og eru miklar væntingar til árangurs þess í sumar. Á miðvikudag þann 31. maí verður stórleikur á Nesfiskvellinum í Garði, en þá kemur Fylkir í heimsókn og etur kappi við Víðir í 16 liða úrslitum bikarkeppni KSÍ. Garðbúar eru hvattir til að fjölmenna á leikinn og styðja okkar menn í Víði.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail

18. vika 2017.

Morð í Gerðaskóla.

Sl. föstudag frumsýndu nemendur Garðaskóla leikritið Morð eftir Ævar Þór Benediktsson, öðru nafni Ævar vísindamaður. Nemendum tókst vel til og var leiksýningin hin besta skemmtun. Vegna fjölda áskorana var leiksýningin endursýnd í gærkvöldi. Það eru efnilegir leikarar í hópi nemenda, aldrei að vita nema þar séu kvikmyndaleikarar framtíðarinnar. Takk fyrir frábæra leiksýningu.

Bæjarstjórnarfundur.

Bæjarstjórn Garðs fundaði í vikunni. Að vanda voru fjölmörg mál á dagskrá. Aðal mál fundarins var síðari umræða um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2016. Ársreikningurinn var samþykktur og áritaður af bæjarstjórn. Eins og fram hefur komið eru niðurstöður reikningsins ánægjulegar og jákvæðar. Efnahagslegur styrkur er góður, m.a. vegna þess að bæjarsjóður er skuldlaus. Afgangur af rekstri var meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og fjárfestingar fjármagnaðar alfarið af skatttekjum, engin ný lán voru tekin.

Undirbúningur Vinnuskóla.

Nú styttist óðum í að vinnuskóli sumarsins hefji starfsemi. Starfsmenn sveitarfélagsins eru þessa dagana að undirbúa sumarið og skipuleggja verkefnin. Starfsemi vinnuskólans er mikilvæg, bæði fyrir starfsmenn og ekki síður sveitarfélagið og íbúa þess. Undanfarin ár hefur vinnuskólinn unnið gott verk við að sjá um að byggðarlagið sé snyrtilegt og vel hirt, enda höfum við fengið hrós fyrir það frá gestum sem sækja Garðinn heim.

Keilir 10 ára.

Í gær var haldið upp á 10 ára afmælis Keilis á Ásbrú. Þegar litið er yfir sögu skólans í 10 ár er ljóst að þeir sem að honum hafa komið hafa unnið gott og þarft verk, í raun er um þrekvirki að ræða. Það er ánægjulegt að undirtónninn hjá Keili er nýsköpun og þess sést glöggt merki í starfsemi skólans fyrr og nú. Til hamingju með áfangann nemendur og starfsfólk Keilis.

Víðir á sigurbraut.

Knattspyrnulið Víðis hefur verið að gera það gott að undanförnu. Víðir sló lið Keflavíkur út í bikarkeppni KSÍ og Víðir sigraði lið Njarðvíkur í úrslitaleik B-deildar Lengjubikarkeppninnar. Það má því segja að eins og staðan er í dag hafi Garðurinn yfirhöndina á knattspyrnusviðinu umfram Reykjanesbæ ! Íslandsmótið hefst á morgun, laugardag með heimaleik Víðis gegn Hetti frá Egilsstöðum. Víðismenn koma vel stemmdir og sigurreifir til leiks í íslandsmótinu. Áfram Víðir !

Víðir - Lengjubikar meistarar B-deild.
Víðir – Lengjubikar meistarar B-deild.

Veðrið.

Nú er vorið í algleymingi og sumarveður hefur ríkt á landinu. Það er alltaf jafn ánægjulegt að sjá hvað allt lifnar við og brosin færast yfir mannfólkið þegar svona tíð er á vorin. Allir í góðu skapi 🙂

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail

17. vika 2017.

Vorið.

Nú spá veðurfræðingar því að vor og hlýrra veður taki völdin upp úr komandi helgi. Veðrið undanfarna daga og vikur hefur verið alveg þokkalegt miðað við árstíma hér í Garðinum. Grasflatir og tún eru óðum að taka græna litinn og gróðurinn er almennt byrjaður að fagna vori. Verkefnin þessa dagana fela mörg í sér undirbúning fyrir sumarstörfin, til dæmis er verið að ráða starfsfólk í vinnuskóla sumarsins og skipuleggja sumarstarfið. Þá eru orðin kaflaskil hjá knattspyrnufólki, íslandsmótið hófst í gær í efstu deild kvenna og nú um komandi helgi fer af stað íslandsmótið í efstu deild karla. Þegar hefur verið leikin ein umferð í bikarkeppni KSÍ.  Allt eru þetta skýr merki um að vorið er komið, við reiknum svo með að veðurguðirnir færi okkur hlýrra veður í næstu viku.

Flugstöðin 30 ára.

Í gær, fimmtudag var haldin afmælishátíð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Nú eru 30 ár liðin frá því flugstöðin var vígð og tekin í notkun. Saga flugstöðvarinnar er nokkuð merkileg og var uppbygging hennar á sínum tíma nokkuð umdeild. Í hönnunarferlinu þótti mörgum mannvirkið allt of stórt og mikið, úr varð að dregið var verulega úr stærð flugstöðvarinnar áður en bygging hófst. Síðan hafa menn þurft að stækka hana og stækka. Flugstöðin og starfsemin þar hefur reynst vel og er mikilvæg fyrir okkur íslendinga, það er í raun með ólíkindum hvernig tekist hefur að mæta þeirri gríðarlegu sprengingu í fjölda farþega sem fer um flugstöðina. Í tilefni 30 ára afmælis flugstöðvarinnar í gær var afhjúpað stórt og ótrúlega flott listaverk eftir Erró, sem er staðsett á þeim stað í flugstöðinn þar sem allir farþegar fara um á hverjum degi. Hér fyrir neðan er mynd sem tekin var af verkinu.

IMG_2445

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði Garðs í vikunni. Á fundinum var meðal annars farið í saumana á niðurstöðum ársreiknings 2016 og samþykktir voru tveir viðaukar við fjárhagsáætlun 2017. Báðir viðaukarnir eru vegna tónlistarskólans, annars vegar er aukið stöðuhlutfall við tónlistarkennslu og hins vegar aukin fjárheimild vegna húsnæðismála skólans.

Frumsýning í Gerðaskóla.

Nemendur Gerðaskóla hafa að undanförnu æft leikritið Morð. Nú er komið að stóru stundinni þar sem frumsýning verður í Miðgarði í kvöld. Leiklistarlíf hefur verið líflegt í Gerðaskóla og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með hvað nemendur og kennarar hafa lagt mikla vinnu í alls kyns uppákomur í skólanum, þar á meðal hafa verið settar upp leiksýningar undanfarna vetur.  Garðbúar eru hvattir til að mæta og njóta menningarlífsins í Gerðaskóla.

Stórleikur í kvöld.

Í kvöld er stórleikur í bikarkeppni KSÍ í knattspyrnu. Keflavík og Víðir í Garði mætast á Nettóvellinum í Keflavík kl. 19:00. Þessi nágrannalið hafa ekki att kappi í alvöru keppni frá því árið 1986, þegar Keflavík vann Víðir 1-0 á Garðvelli í bikarkeppninni. Spennan mikil fyrir leiknum og Víðir hefur harma að hefna frá því fyrir rúmum 30 árum! Það verður fróðlegt að sjá hvernig lið Víðis mun koma til leiks að þessu sinni, en liðið leikur í 2. deildinni í sumar eftir að hafa í nokkur ár verið í 3. deild. Miklar væntingar eru til Víðis fyrir sumarið og mikill hugur í víðisfólki, það verður spennandi að fylgjast með leikjum Víðis í sumar.                Áfram Víðir !

18118908_939981326142077_3271120670172602885_n

Framkvæmdir.

Að undanförnu hefur Bragi Guðmundsson byggingarverktaki og hans menn unnið að byggingu salernisálmu við hús byggðasafnsins á Garðskaga. Verkið gengur vel og er stefnt að því að taka húsnæðið í notkun í júní. Með tilkomu þess verður bætt úr salernisaðstöðu á Garðskaga, bæði fyrir gesti og gangandi sem munu hafa aðgang að salernum utan frá, eins fyrir gesti veitingahússins Röst og byggðasafnsins sem munu hafa aðgang innan frá. Hér fyrir neðan er mynd af stöðu mála í gær, fimmtudag, en búið er að steypa upp útveggina.

IMG_2447

Frídagur verkamanna 1. maí.

Nú er apríl að renna sitt skeið á enda. Næstkomandi mánudag þann 1. maí er frídagur verkamanna, sem í gegnum tíðina og þá aðallega í fyrri tíð var oft verið nefndur „baráttudagur verkalýðsins“. Víða um landið halda verkalýðsfélögin hátíðir í tilefni dagsins, en hefðir og venjur að því leyti eru þó nokkuð misjafnar eftir landsvæðum og byggðarlögum. Víða er mikið lagt upp úr hátíðarhöldunum, með ræðuhöldum og skemmtidagskrám en annars staðar er lítið eða jafnvel ekkert um að vera. Þema dagsins er þó jafnan hið sama frá ári til árs, það er baráttan fyrir betri kjörum launafólks.  Við óskum öllu launafólki fyrirfram til hamingju með daginn þann 1. maí.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

16. vika 2017.

Páskar að baki.

Síðustu tvær vikur hafa einkennst af hátíð Páskanna. Margir og góðir frídagar sem flestir hafa vonandi notið vel, ásamt því að njóta helgihalds páskahátíðarinnar.

Gleðilegt sumar !

Samkvæmt dagatalinu var sumardagurinn fyrsti í gær, þann 20. apríl. Sumardagurinn fyrsti hefur gjarnan jákvæðan sess í huga landsmanna, enda undirstrikar hann að komið sé að lokum vetrar og vorið framundan. Fyrstu tvo dagana í byrjun sumars að þessu sinni var ekki mjög sumarlegt, meira að segja þurfti að skafa bílrúður og sópa snjó af bílum snemma í morgun. Það er hins vegar orðið það hlýtt og milt að jörðin breytti fljótt um ásýnd í morgun og snjóinn tók fljótt upp. Vorið er framundan og vonandi verður það milt og gott.

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði nú í vikunni. Þar bar hæst að samþykkt var tillaga um lausnir á húsnæðismálum tónlistarskólans, en tónlistarskólinn hefur undanfarin ár búið við mjög þrönga og ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu. Samþykkt bæjarráðs er ánægjulegur áfangi sem miðar að því að búa vel að tónlistarskólanum.

Almannavarnanefnd á ferð.

Nú í morgun var Almannavarnanefnd Suðurnesja, utan Grindavíkur á ferð um utanverð Suðurnes. Nefndin heimsótti björgunarsveitirnar í Sandgerði, Garði og Reykjanesbæ þar sem nefndin hitti forystufólk björgunarsveitanna og kynnti sér aðstöðu og búnað sveitanna. Björgunarsveitirnar eru mjög mikilvægir hlekkir í öryggiskeðju samfélagsins og starfa náið með almannavörnum. Heimsóknir Almannavarnanefndar voru ánægjulegar og er alltaf jafn athyglisvert að sjá hvað margir einstaklingar leggja mikið af mörkum í sjálfboðavinnu á vettvangi björgunarsveitanna. Fyrir það er þakkað. Myndin hér að neðan var tekin af Almannavarnanefnd og formanni Björgunarsveitarinnar Ægis í Garði í húsnæði sveitarinnar í Garði.

IMG_2440

Ungt fólk og lýðræði.

Fulltrúar Ungmennaráðs Garðs sóttu fyrir stuttu ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði, sem Ungmennaráð UMFÍ hefur staðið fyrir undanfarin ár. Að þessu sinni var ráðstefnan haldin á Hótel Laugabakka í Miðfirði. Yfirskrift ráðstefnunar að þessu sinni var „Ekki bara framtíðin – ungt fólk, leiðtogar nútímans“. Það er mikilvægt fyrir ungt fólk alls staðar að af landinu að koma saman og fjalla um sín hagsmunamál og það er gott framtak hjá UMFÍ að standa að þessum árlegu ráðstefnum. Hér er mynd af fulltrúum Ungmennaráðs Garðs, ásamt góðum vinum á ráðstefnunni.

IMG_4696

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

14. vika 2017.

Fimleikakappar úr Garði.

Um síðustu helgi slógu nokkrir efnilegir fimleikakappar úr Garði í gegn á íslandsmóti. Atli Viktor Björnsson varð íslandsmeistari í 3. þrepi karla, Magnús Orri Arnarson varði íslandsmeistaratitil sinn í frjálsum æfingum hjá Special Olympics og Sigurður Guðmundsson stóð sig vel á sínu fyrsta fimleikamóti hjá Special Olympics.  Frábær árangur hjá þessum efnilegu Garðbúum, til hamingju með það. Myndirnar hér að neðan eru fengnar af Facebook síðum foreldra.

Atli Viktor á verðlaunapalli.
Atli Viktor á verðlaunapalli.
Sigurður með verðlaunapeninginn, við hliðina á Leonard frænda sínum.
Sigurður með verðlaunapeninginn, við hliðina á Leonard frænda sínum.

Árshátíð Gerðaskóla.

Árshátíð Gerðaskóla var haldin í vikunni. Nemendur og kennarar hafa að undanförnu lagt mikla vinnu í að undirbúa árshátíðina og tókst hún mjög vel. Fjölmenni sótti árshátíðina, sem var í þremur hlutum eftir aldri nemenda. Framkoma og atriði nemendanna voru fjölbreytt og allt gekk mjög vel. Myndirnar hér að neðan eru af nemendum flytja sín atriði á árshátíðinni.

IMG_0687

IMG_0683

Bæjarstjórnarfundur.

Bæjarstjórn kom saman til fundar á miðvikudaginn. Þar bar hæst fyrri umræða um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2016. Niðurstöður ársreiknings eru mjög jákvæðar og lýsti bæjarstjórn ánægju með þær. Nánar er fjallað um ársreikninginn í molum bæjarstjóra frá því í gær. Að öðru leyti fjallaði bæjarstjórn um ýmsar fundargerðir nefnda og ráða og var samhljómur í bæjarstjórn um afgreiðslu allra mála.

Páskar framundan.

Tíminn líður hratt, allt í einu er komið að Páskahátíðinni. Grunnskólinn er farinn í páskaleyfi og margir landsmenn eru þegar lagstir í ferðalög innanlands sem utan. Næsta vika mun einkennast af því að páskahelgin verður framundan með tilheyrandi frídögum og ferðalögum, ferðalangar eru hvattir til að fara varlega í umferðinni og vonandi komast allir heilir heim úr sínum ferðalögum.

Veðrið.

Um síðustu helgi og raunar alla vikuna hafa verið miklar sviptingar í veðrinu. Sl. laugardag var dýðlegt vorveður með sól og blíðskaparveðri, síðan tók við sunnan rok og rigning á sunnudeginum. Mánudagurinn einkenndist af sunnan vindi þar sem skiptist á rigning og slydduél, að öðru leyti hafa að mestu verið suðlægar áttir með tilheyrandi vætutíð þessa vikuna. Það fer ekki milli mála að vorið er að taka völdin, a.m.k. hér á Suðurnesjunum.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail